- Advertisement -

Ríkisstjórn og Seðlabanki leika sér að eldinum

Það er úrelt hagstjórn að stunda þá íþrótt að fella gengi gjaldmiðils og fórna verðstöðugleika til að minnka atvinnuleysi eða leysa önnur hagræn vandamál.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Það fer ekki á milli mála að verð matarkörfunnar er á uppleið með dyggri aðstoð Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar. Fjölmargar yfirlýsingar fjármálaráðherra staðfesta að sleppa á taumnum af verðbólgunni og aðgerðarleysi Seðlabankans gagnvart krónunni gerir það einnig. Krónan er í miklum veikingarham. Þegar þessi grein er skrifuð er dollarinn rúmlega 17 prósent dýrari en um áramót, evran tæplega 14 prósent dýrari og pundið 10 prósent dýrara. Þetta leggst ofan á veikingar ársins 2019. Ekki sér fyrir endann á veikingu krónunnar, en Seðlabankinn heykist á að taka krónuna af markaði, en inngrip á markað mun ekki leysa málið síðar.

Með því að horfa á krónuna glata verðgildi sínu þá er bankinn að ganga erinda ferðaþjónustunnar, til dæmis Bláa Lónsins, gegn hagsmunum almennings. Þetta er sérhagsmunagæsla á stórum skala gegn almannahagsmunum, verðstöðugleikanum.

Það er úrelt hagstjórn að stunda þá íþrótt að fella gengi gjaldmiðils og fórna verðstöðugleika til að minnka atvinnuleysi eða leysa önnur hagræn vandamál. Aðrar lausnir eru farsælli og þjóðhagslega verðmætari til skemmri og lengri tíma. Ég hélt sannast sagna að íslensk stjórnvöld væru fyrir löngu byrjuð að iðka nútímalegri glímubrögð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Seðlabanki gengur erinda Bláa lónsins.

Árangursrík hagkerfi byggja á verðstöðugleika en ekki gengisfellingum enda dansar margt annað sjálfkrafa með. Með verðstöðugleika þá eflist samkeppnishæfni landsins og hagkerfið skilar meiri verðmætum af sér. Þorvaldur Gylfason prófessor hefur komið með áhugaverðan samanburð í þessum efnum. Írland tók upp evruna árið 1999 og fékk skell í fjármálahruninu eins og Ísland. Írar gátu ekki fellt gengið eins og mögulegt var með Írska pundið. Krónan aftur á móti tapaði 50 prósent af sínu verðgildi í eftirmálum hrunsins og samkeppnishæfni landsins versnaði vegna hærra verðlags. Þorvaldur benti á að kaupmáttur þjóðartekna á mann árið 2005 hafi verið sá sami hjá Írum og Íslendingum, en árið 2018 var hann 20 prósent meiri á Írlandi.

Taka má þennan samanburð lengra, en í kjölfar hrunsins þá var verðhjöðnun á Írlandi sem náði mínus 6 prósentum árið 2009, en síðan hefur verðbólgan þar í landi verið að dansa í og við 1,5 prósent. Á Íslandi þá rauk verðbólgan upp í 18 prósent, en hefur verið 3,3 prósent að jafnaði síðastliðin 11 ár.

Sögulega séð þá hefur atvinnuleysi oft verið hátt á Írlandi og náð að tipla yfir 15 prósentin. Talan fór hratt lækkandi í aðdragandanum að upptöku evrunnar og stóð atvinnuleysi í 4 prósentum í upphafi árs 1999. Hélst það á þessum slóðum fram að fjármálahruninu, en þá rauk það upp og á kunnuglegar slóðir. Í febrúar á þessu ári var atvinnuleysið komið undir 5 prósent. Á Íslandi fór atvinnuleysi upp í 8 prósent árið 2010 og stóð síðan í 5 prósentum núna í  febrúar.

Vaxandi verðbólga mun leiða til minni verðmætasköpunar, lakari samkeppnishæfni og verri lífskjara

Þrátt fyrir talsvert meira atvinnuleysi á Írlandi þá var hagvöxtur markvert meiri eða 5,5 prósent að jafnaði á hvert síðastliðin 11 ár á meðan hann var 1,9 prósent hér á landi. Þetta endurspeglast í miklum mun á verðmætasköpun landanna. Dreift yfir höfðatöluna þá var landsframleiðslan 11 milljónir að meðaltali undanfarin fimm ár hjá Írum á meðan Ísland skapaði 7,7 milljónir á hvern íbúa. Munurinn er tröllvaxinn eða 44 prósent. Í krónum talið þá eru þetta 3,3 milljónir króna á hvern mann. Heilt yfir þá er munurinn álíka mikill og innflutningur vöru og þjónustu var á árinu 2019 til Íslands. Það má gera eitt og annað gagnlegt við þá peninga þó óraunhæft sé að Ísland nái Írum til skemmri tíma litið. Árangur Íra er eftirtektarverður þó ég mæli ekki með að taka upp iðju Írlands um að veita alþjóðafyrirtækjum skattaskjól.

Tekið saman þá varpar þetta skýru ljósi á að stefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um að slaka á taumhaldi verðbólgunnar og halda krónunni á markaði er röng og hún er hættuleg. Vaxandi verðbólga mun leiða til minni verðmætasköpunar, lakari samkeppnishæfni og verri lífskjara. Að atvinnuleysi líti betur út á pappírunum eins og aðgerðir yfirvalda stefna að bjargar ekki fyrirtækjum sem ekki er viðbjargandi. Þetta er hinn kaldi sannleikur. Stefnan verður þjóðinni dýrkeypt þegar upp er staðið ef verðbólgan hleypur af stað! Krónan er eins og tifandi tímasprengja sem verður að aftengja.

Skynsamlegra og markvissara er að taka upp borgaralaun í stað atvinnuleysisbóta og stjaka þannig við eftispurnarhlið hagkerfisins. Að elta sérhagsmuni sumra fyrirtækja fram yfir almannahagsmuni mun ekki skila tilætluðum árangri.  Samhliða borgaralaunum á að láta markaðinn hreinsa sig í gegnum samruna, yfirtökur og gjaldþrot. Við erum með rótgróið skipulag til að takast á við þannig ferli. Nú ef fyrirtæki eru lífvænleg þá geta hluthafar landsins lagt inn nýtt hlutafé í fyrirtækin. Nú eða að margir, eins og Bláa Lónið, skilað til baka ótímabærum og græðgislegum arðgreiðslum fortíðar. Almenningur á ekki að bera ábyrgð á græðginni og óhófinu hjá sumum. Samhliða hreinsuninni þá mun atvinnulífið endurskipuleggja sig eins og gerist reglulega í niðursveiflum. Að þessu leytinu til þá eru ríkjandi aðstæður ekki fordæmalausar þó orsök niðursveiflunnar sé ný af nálinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: