- Advertisement -

Ríkisstjórn sérhagsmuna

Aðgerðirnar munu tefja óumflýjanlega endurskipulagningu atvinnulífsins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Nýleg orð félagsmálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar segja okkur að ríkisstjórnin skilur ekki aðsteðjandi efnahagsvanda heimsins. Heimurinn glímir við eftirspurnarsjokk.  Eftirspurn erlendra ferða- og viðskiptamanna gufaði upp og spilar það inn í almenna eftirspurn á öllum sviðum til langs tíma. Í dag er offramboð af þjónustu sem beint er að ferðamönnum. Vaxandi atvinnuleysi á Íslandi árin 2018 og 2019 mátti að stórum hluta rekja til uppsagna í ferðaþjónustu þrátt fyrir að atvinnugreinin sé aðeins 12 prósent vinnuafls. Þannig að offramboð af ferðaþjónustu er ekki alveg nýtt af nálinni. Af þessum ástæðum þá eru efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar rangar og beint að röngum helming hagkerfisins.

Aðgerðirnar munu tefja óumflýjanlega endurskipulagningu atvinnulífsins. Það mun taka ferðaiðnaðinn í heiminum nokkur ár að jafna sig og hann nær ekki endilega fyrri stöðu hvað erlenda ferðamennsku varðar. Það gagnast því lítt að viðhalda offramboðinu eins og hlutabótaleiðin og fleiri aðgerðir miða að. Stöðumat ríkisstjórnarinnar er af þessum ástæðum rangt. Það litast af sérhagsmunum tiltekinna ráðherra og vildarvina þeirra hjá Hagsmunasamtökum atvinnulífsins. Aðgerðirnar byggja á gamaldags og úreltri haghugsun. Nútíma hagfræði byggir á að stýra hagkerfinu út frá eftirspurnarhliðinni eða sjónarhóli neytenda. Í samhenginu þá sýna rannsóknir að aukinn jöfnuður neytenda gefur af sér framgangsbetri hagvöxt. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga út á að gæta sérhagsmuna eigenda framleiðsluþátta eins og til dæmis hótela, rútubíla, baðlóna, hvalaskoðunarbáta eða flugvéla.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessi yfirlýsing kjarnar viðhorfsvanda ríkisstjórnarinnar.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur í auknu mæli breytt stefnu sinni í þá átt að styðja meira við verkefni sem efla stöðu neytenda og draga úr ójöfnuði. Sú stefnubreyting er grundvölluð á nútíma rannsóknum. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar á síðasta ári varðandi tekjuskattskerfið ganga einnig í öfuga átt samanber þessi grein hér Svikin loforð ríkisstjórnarinnar og Lífskjarasamningar!.

Orðrétt sagði félagsmálaráðherra í Silfri dagsins Ég er ekki hvatamaður þess að hvorki námsmenn eða aðrir sem eru á atvinnuleysisskrá fái fjármagn úr ríkissjóði fyrir að gera ekki neitt. Þessi yfirlýsing kjarnar viðhorfsvanda ríkisstjórnarinnar. Í dag þá eru 30 þúsund neytendur atvinnulausir miðað við fullt starf. Kaupgeta hópsins er hratt minnkandi þrátt fyrir hlutabótaleiðina og leggst það við glataða eftirspurn erlendra ferðamanna. Þannig að það er mikill slaki í hagkerfinu. Í stað þess að námsmenn hafi engar tekjur og að neytendur sem eru atvinnulausir lifi á aðeins 235 þúsund krónum þá þarf að grípa til aðgerða sem virka strax og eru eftirspurnarhvetjandi. Sjálfur legg ég til frábært átaksverkefni til tveggja ára sem ég hef reiknað út. Ég kalla átakið Borgaralaun fyrir alla atvinnulausa. Miðað er við borgaralaun upp á 450 þúsund krónur á mánuði, jafnvel 633 þúsund krónur. Ég fjalla betur um þessa leið og hvað hún kostar í annarri grein samanber hér Þetta kom sjálfum mér á óvart!. Átakið skilar hagnaði eftir sex ár og styttir verulega tímann sem fólk er á atvinnuleysisskrá. Ég veit ekki um neitt annað fjárfestingaverkefni sem skilar sé jafn hratt til baka. Miðað við núverandi aðstæður þá leiðir átakið ekki til verðbólgu sem ætti innlendan uppruna.

Hér skiptir engu máli hvað fólk gerir við tímann sinn þó ráðherrann hafi áhyggjur af því. Aðalatriði er að auka eftirspurnina hjá neytendum sem eru atvinnulausir. Ríkið græðir á aukinni eftirspurn og líka á því að neytendur eru skemmri tíma á atvinnuleysisskrá ef borgaralaun væru tekin upp. Finnar hafa nýverið lokið við tilraunaverkefni af þessum toga og eru niðurstöðurnar eftirtektarverðar. Borgaralaun eru ekki vinnuletjandi og juku almenna hamingju þeirra sem borgaralaun fengu! Það út af fyrir sig viðheldur betri heilsu og minnkar álagið á heilbrigðiskerfið, sem síðan sparar ríkisútgjöld.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: