Fréttir

„Ríkisstjórnin gekk á undan með vondu fordæmi“

By Miðjan

January 25, 2023

„Það er allt að hækka, sagði kona við mig um daginn fyrir framan vöruhillurnar í búðinni heima í Hafnarfirði. Svo dæsti hún og sagði mér frá raunum dóttur sinnar, kennara sem tók óverðtryggt lán sem er búið að hækka núna á nokkrum mánuðum um 120.000 kr. á mánuði. Hún spurði: Linnir þessu aldrei? Svo fór hún að tala um þessa 20, 30 , 40 ára raunasögu, og á endanum var þetta kverkatak íslensku krónunnar,“ sagði Þorgerður Katrín á þingfundi.

„Á endanum er það alltaf þannig: Á meðan afneitunarskeiði gömlu flokkanna gagnvart kverkataki krónunnar stendur þá mun þessu ekki linna. Afneitunin virðist ætla að halda áfram. Þess vegna verðum við að ræða það sem skiptir heimilin mestu máli núna. Og auðvitað linnir þessu ekki þegar við erum inni í búðinni og við sjáum verðbólguna í þeim hæðum sem hún er,“ sagði formaður Viðreisnar.

Næst skaut hún fast á ríkisstjórnina. „Ríkisstjórnin gekk á undan með vondu fordæmi og hækkaði öll sín gjöld um 7,5% þrátt fyrir að varað hafi verið við því, af því að með því var hún að veita m.a. sveitarfélögunum ákveðna leiðsögn en ekki síður verslununum og öðrum þeim sem hafa viljað hækka og hafa núna líka skjól í fordæmi ríkisstjórnarinnar,“ sagði ÞKG.

Og: „Það er ýmislegt sem ríkisstjórnin hefur haft í sínu vopnabúri til þess að lækka álögur á heimilin, ýmislegt til að létta aðeins undir með heimilum og litlum fyrirtækjum í landinu. En þau tækifæri hefur hún ekki nýtt. Ég vil benda á það sem við höfum ítrekað bent á, að eitt af því er m.a. að lækka matvælaverð hér á Íslandi með því að auka frelsi, bæði í innflutningi en líka frelsi hér innan lands, því að við sem trúum á samkeppni trúum því að það muni á endanum skila sér í buddu fólksins í landinu, heimilanna í landinu. Það sýnir reynslan og með því að sigta á frelsið, veðja svolítið á frelsið, þá sjáum við líka að heimilunum farnast betur. Heimilin í dag þurfa á þessu að halda, öllum aðgerðum til þess að lækka álögur á heimilin. Við eigum að nýta þær aðgerðir, nýta þau vopn. En það er ríkisstjórnin því miður ekki að gera.“