- Advertisement -

Ríkisstjórnin getur lært þetta af bandaríska þinginu!

Einkaneysla atvinnulausra tók vel við sér og er 10 prósent yfir því sem hún var fyrir veirufaraldurinn.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ríkisstjórnin getur lært þetta af bandaríska þinginu!

Þegar Covid-19 faraldurinn hóf yfirreið sína á útmánuðum þá rauk atvinnuleysi upp í 14,7 prósent í Bandaríkjunum og meira en 23 milljónir manna urðu án vinnu. Hagkerfið varð fyrir eftirspurnaráfalli. Einkaneysla atvinnulausra drógst strax saman um 22 prósent og neysla þeirra sem héldu störfum minnkaði á sama tíma um 15 prósent. Þetta eru niðurstöður glænýrrar athugunar á vegum University of Chicago sem unnin var í samvinnu við stærsta einkabanka heims, JP Morgan Chase. Til samanburðar þá minnkar einkaneysla um 7 prósent við atvinnumissi í venjubundnu árferði og þegar ástandið er talið tímabundið. Í dag þá er staðan hvorki venju- né tímabundin.      

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fjárhæðin leggst ofan á grunnbæturnar, sem eru 504 dollarar á viku í New York fylki.

Þingmenn beggja flokka á Bandaríkjaþingi tóku höndum saman og gripu til umfangsmikilla aðgerða í vor til að verja eftirspurnarhlið hagkerfisins og vinna gegn niðursveifluspíralnum. Samþykkt var að hækka atvinnuleysisgreiðslur um 600 dollara á viku eða um 2.400 dollara á mánuði í fimm mánuði til að byrja með. Þetta samsvarar hækkun upp á 331 þúsund krónur á mánuði miðað við gengi dagsins í dag. Fjárhæðin leggst ofan á grunnbæturnar, sem eru 504 dollarar á viku í New York fylki. Samtalan er því vel yfir 610 þúsund krónur á mánuði hjá þeim sem mest fá. Viðbótargreiðsla upp á 600 dollara á viku er ætluð öllum atvinnulausum, líka þeim sem af þekktum og óþekktum ástæðum standa utan kerfis.

Árangurinn er athyglisverður. Einkaneysla atvinnulausra tók vel við sér og er 10 prósent yfir því sem hún var fyrir veirufaraldurinn. Á sama tíma er neysla þeirra sem héldu störfum 10 prósent undir eyðslu fyrir faraldurinn. Hvoru tveggja er á uppleið eins og stefnt var að. Hér þarf samt sem áður að stíga varlega til jarðar í túlkunum því hluti aukningarinnar hjá atvinnulausum getur verið vegna þess að fólk hinkraði með einkaneyslu þar til lausafjárstaðan batnaði. Neysla atvinnulausra og fór því mögulega meira niður en hjá hinum hópnum. Svona „catch up“ ástand getur hafa myndast. Viðbótargreiðslurnar lagfærðu lausafjárstöðu atvinnulausra og alveg sérstaklega láglaunafólks sem er með háa jaðarneysluhneigð. Sá hópur er með óuppfyllta neysluþörf og fékk þarna kærkomið tækifæri til að fylla upp í hana. Samantekið þá stjakar þetta við hagkerfinu. Nýjar tölur um atvinnuleysi endurspegla ávinning af aðgerðunum. Í dag stendur atvinnuleysi í 10,2 prósentum. Tæplega 7 milljónir manna hafa snúið aftur til vinnu þrátt fyrir að faraldurinn sé á uppleið í landinu og ekki án áhættu að snúa til starfa. Þetta mælist vera 29 prósent lækkun á atvinnuleysi, sem verður að teljast harla gott. Fleiri þættir spila hér inn í eins og það að stýrivextir eru núll prósent.

Þessar ráðstafanir samrýmast vel nútíma hagstjórn og veldur ekki verðbólgu í núverandi ástandi þar vestra.

Til viðbótar aukagreiðslunum þá fengu fjölmargir eingreiðslu upp á 1.200 dollara eða 166 þúsund krónur, frestur var síðan veittur á greiðslu íbúðalána, leiguliðar fengu sýna vernd og frysting námslána án viðurlaga er í boði fyrir þá sem þess óska. Þannig að margt hefur verið gert þar vestra til að efla eftirspurnarhlið hagkerfisins með því að bæta lausafjárstöðu atvinnulausra. Þessar ráðstafanir samrýmast vel nútíma hagstjórn og veldur ekki verðbólgu í núverandi ástandi þar vestra. Eftirspurnarþrýstingur er ekki fyrir hendi og framboðshlið hagkerfisins er rúmleg og spennulaus.  

Nú er samtal í gangi á bandaríska þinginu sem gengur hægt venju samkvæmt. Demókratar vilja halda 600 dollara greiðslunum áfram þar til rofa fer til með þessa veiru, en repúblikanar vilja byrja lækkun greiðslna. Forsetinn hefur stígið inn þó efasemdir séu um lagaheimild þar um. Hann hefur skipað svo fyrir að aukagreiðslur næstu 5 mánuði verði 400 dollar á viku ofan á hefðbundnar atvinnuleysisgreiðslur. Þar með er komið gólf sem ekki verður farið undir. Endanlegt samkomulag þingmanna verður því á bilinu 400-600 dollarar. Svona heldur þetta síðan áfram þar til eðlilegt ástand er komið á hagkerfið. Fjárhæðin, 400 dollarar, sem forsetinn miðar við er ekki dregin tilviljanakennt upp úr hattinum. Hún miðar að því að neysla atvinnulausra nái sama stigi og hún var fyrir veiruna. Eins og sagði þá er einkaneysla þessa hóps núna 10 prósent fyrir ofan það viðmið. Það þarf ekki að vera óæskilegt því eitthvað af neyslunni gæti verið þessi „catch up“ neysla á sama tíma og mikill eftirspurnarslaki er í hagkerfinu. Hlutirnir jafna sig síðan betur út þegar á líður.

Ég tel að það blasi við að Bandaríkin séu byrjuð þá vegferð að greiða mannsæmandi laun í atvinnuleysi þannig að allir geti lifað með sæmd. Þetta tengist síðan óbeint umræðu þar vestra um fjórðu iðnbyltinguna.

Ríkisstjórn Íslands valdi að fara gamaldags hagstjórnarleið. Leið sem mun reynast dýrari  á endanum og ekki skila þeim hraða ávinningi sem aðgerðir á eftirspurnarhliðinni gera. Atvinnuleysi mun því taka lengri tíma að minnka með tilheyrandi kostnaði.

Þessi aðgerð tefur bara fyrir endurskipulagningu innan ferðaþjónustunnar.

Ríkisstjórnin er með athyglina á framboðshlið hagkerfisins, en þar liggur bara ekki vandinn. Það varð ekkert framboðsáfall. Hótelin eru á sínum stað, flugfélög eru tilbúin að fljúga meira, vel rekin rútufyrirtæki og veitingahús bíða eftir auknum viðskiptum og svo framvegis.  Ríkisstjórnin ákvað að verja frekar eignarhlut hluthafa í fyrirtækjum burt séð frá því hvort þau séu lífvænleg eða ekki. Yfirskinið var að verið væri að vernda ráðningarsamband launafólks í gegnum hlutabótaleiðina. Það breyttist síðan að mestu leyti yfir í greiðslu launa í uppsagnarfresti á sama tíma og óvíst er með endurráðningar hjá ólífvænlegum fyrirtækjum. Þessi aðgerð tefur bara fyrir endurskipulagningu innan ferðaþjónustunnar. Verið er að stöðva markaðinn í að hreinsa sig af vanfjármögnuðum fyrirtækjum sem eiga sér ekki rekstrargrundvöll. Á sama tíma eru hátt í 8 prósent vinnuafls á strípuðum töxtum atvinnuleysis. Eins og í Bandaríkjunum þá hefði verið efnahagslega skynsamlegt að hækka atvinnuleysislaun þessa hóps tímabundið enda dregur það úr eftirspurnaráfallinu hratt. Stjórnmálamenn þar vestra vita sem er að engin verðmæti skapast án eftirspurnar. Þetta einfalda orsakasamband á sér ekki málsvara við ríkisstjórnarborðið miðað við þær aðgerðir sem gripið var til.

Á vormánuðum þá ritaði ég nokkrar greinar á Miðjuna þar sem ég lagði til að gripið yrði til aðgerða á eftirspurnarhlið hagkerfisins samanber „hér“ og „hér“. Ríkisstjórn Íslands ætti að veita aðgerðum Bandaríkjaþings athygli því henni ber að verja almannahagsmuni, en ekki sérhagsmuni fárra!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: