- Advertisement -

Róa sig í æsingnum

Gagnrýna má stjórnendur bankans fyrir að fara hugsanlega of geyst, kannski óvarlega.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Eftir að stóru bankarnir þrír birtu uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá hafa sumir verið með æsing, hneykslun. Hagnaðurinn á víst að vera yfirdrifinn. En er það svo?

Ef við skoðum Landsbankann þá hagnaðist bankinn um 7,6 milljarða króna á fyrstu þrem mánuðum ársins. Inn í hagnaðinum er bakfærsla á varúðarmati lánasafns bankans upp á 2.5 milljarða króna. Þessi upphæð var gjaldfærð á síðasta ári og leiddi til taprekstrar á sama fjórðungi síðasta árs. Núna er sama færsla tekjufærð vegna þess að þeir sem bera ábyrgð á rekstri bankans meta horfurnar tryggari en í fyrra. Meiri vissa ríkir um rekstur bankans í dag en við upphaf faraldursins. Á ferðinni er einföld samlokufærsla vegna þess að metið er að viðskiptavinir geti betur staðið í skilum með sín lán en áður. Allir ættu að fagna því.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nafnarðsemi eiginfjár á því tímabili sem til skoðunar er var 11,7 prósent. Að teknu tilliti til þeirrar miklu áhættu sem fólgin er í bankarekstri þá telst þetta vart vera óhóf. Ef við tökum síðan þessa samlokufærslu út fyrir sviga því nettó áhrif færslunnar yfir 12 mánaða tímabil eru engin þá mælist arðsemi eiginfjár á fyrstu þremur mánuðunum vera 7,8 prósent. Síðan á eftir að taka tillit til verðbólgunnar, sem er á flugi um þessar mundir. Ef ég námunda þetta lauslega þá áætla ég að árleg raunarðsemi hafi verið 3,8 prósent. Þessar tölur kalla ekki á neinn æsing.

Ef við leggjum saman nafnarðsemi fyrsta ársfjórðungs þessa árs og í fyrra þá er niðurstaðan 5,8 prósent arðsemi eða í námunda við 2 prósent raunarðsemi. Það er hóflegt, jafnvel lélegt. Sjálfur hef ég meiri áhyggjur af öðru í rekstri bankans. Hlutdeild á íbúðalánamarkaði hefur aukist úr 22 prósentum í 26,8 prósent. Hin hliðin á peningnum er að bankinn er áhættumeiri en áður. Hann er viðkvæmari fyrir ágjöf á fasteignamarkaði og vaxtahækkunum Seðlabankans. Gagnrýna má stjórnendur bankans fyrir að fara hugsanlega of geyst, kannski óvarlega. Þannig að menn þurfa að skoða heildarsamhengið, fara á dýptina, áður en hrópað er.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: