- Advertisement -

Rokkstjarnan við Arnarhól

Nú hefur krónan tapað meira en 22 prósent af verðgildi sínu frá áramótum gagnvart evru og stefnir í enn meira fall.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Tilteknir aðilar á fjármálamarkaði hafa verið duglegir undanfarið að kvarta yfir efndarleysi seðlabanka landsins um magnbundna íhlutun á skuldabréfamarkaði. Á vormánuðum þá lýsti seðlabankastjóri því ítrekað yfir að bankinn ætli að kaupa upp ríkisskuldabréf fyrir 150 milljarða króna. Tilgangurinn var að auka peningaframboð og lækka vaxtarstig til að örva hagkerfið. Aðgerðin hefði aukið lausafé og haft jákvæð áhrif á atvinnusköpun. Markaðurinn brást vel við í fyrstu og lagði trúnað á orð rokkstjörnunnar, sem hefur verið dugleg að mæti í fjölmiðla á undanförnum mánuðum með alls konar tjáningar. Sumar einkennilegar og aðrar jafnvel rangar. Vextir hneigðust niður á við. Efndarleysi stjörnunnar er aftur á móti farið að snúast upp í andhverfu sína og Íslandsbanki hefur hækkað vexti á íbúðalánum. Fleiri gætu fylgt á eftir. Þróunin er í andstöðu við þarfir hagkerfisins, sem reynir að finna viðspyrnu. Efndarleysið ýtir undir áhættufælni vegna vaxandi óvissu um stjórn hagkerfisins.

Rokkstjarnan er með þá ranghugmynd að telja að hún geti talað markaðinn til, en svo er ekki. Efndarleysið veldur að trúverðugleikinn er þverrandi og var svo sem ekki úr háum söðli að falla. Minna verður hlustað á rokkstjörnuna í framtíðinni. Söngurinn er farinn að hljóma falskur vegna þess að röddin er ofnotuð um leið og verkin standa á sér. Ein af ástæðum þess að seðlabankanum hefur snúist hugur er að hann er að missa tökin á atburðarásinni. Leikplanið sem rokkstjarnan setti upp á vormánuðum gengur ekki upp, mörkin eru hætt að koma. Krónan fellur og fellur, dag efir dag, þrátt fyrir tugi milljarða inngrip á gjaldeyrismarkaði. Nú hefur krónan tapað meira en 22 prósent af verðgildi sínu frá áramótum gagnvart evru og stefnir í enn meira fall. Staðan er orðin þannig að bankinn þorir ekki að stuðla að frekari vaxtalækkun því þar er því trúað krónan muni þá veikjast enn frekar. Það er rangt orsakamat við núverandi aðstæður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Minna verður hlustað á rokkstjörnuna í framtíðinni.

Ég varaði strax við því á vormánuðum að krónan væri stærsti áhættuþátturinn í hagkerfinu nú um stundir. Rokkstjarnan við Arnarhól var á annarri skoðun og hélt að eigin sjarmi, meintur trúverðugleiki og ólögmæt markaðsinngrip myndi bjarga öllu. Að röddin ein myndi halda öllu í skefjum svona eins og að menn væru í lotningu að hlusta á Pavarotti syngja aríu. Þetta hefur leitt til þess að umræðan er orðin óheilbrigð á fjármálamarkaði. Tala sumir um að erlend lántaka eða yfirlýsing um slíkt muni styrkja krónuna. Örvænting er hlaupin í menn. Stuðningur við gjaldmiðil getur aldrei verið réttlæting fyrir erlendri lántöku. Aðrar forsendur liggja að baki þeirri ákvörðun. Búið er að margreyna úrræðið á fjármálamörkuðum heimsins. Erlend lántaka eða yfirlýsing um slíkt gæti veitt  örlítinn varma í mjög skamman tíma, en svo kólnar hratt. FX-markaðir heimsins eru ekki óskilvirkir og sjá fljótt í gegnum einfeldnina. Krónan yrði fljótt fyrir árás.

Ég hef sagt það áður og get endurtekið að það sem er allra best fyrir alla gjaldmiðla er trúverðugleiki og stöðugleiki. Íslenska krónan býr yfir hvorugu og ekki er hægt að tala slíkt upp, jafnvel þó þú teljir sjálfan þig vera rokkstjörnu. Í þessu sambandi þá hef ég ítrekað birt línurit þar sem ég ber saman frammistöðu króna á Norðurlöndunum. Íslenska krónan skipar fallsæti í þeim samanburði. Eina trúverðuga úrræðið í vor, og er enn tiltækt, er að taka krónuna af markaði og stjórna henni í gegnum bandvídd upp á 2,5 prósent í hvora átt fyrir sig. Þetta gera Danir og Kínverjar svo ég nefni tvö dæmi. Að taka krónuna af markaði þarf ekki að þýða að gjaldeyrishöft verði tekin upp, en aðstæður eru fordæmalausar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: