- Advertisement -

Rökvilla Gylfa Zoega

Jóhann Þorvarðarson.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir há laun í ferðaþjónustu geti valdið vandamálum. Varar hann við óhóflegum launahækkunum. Segir ferðamenn muni frekar sækja önnur lönd heim ef Ísland verður of dýrt heim að sækja.

Áhyggjurnar hljóta að eiga við um allt hagkerfið, en ekki einungis láglaunafólk í ferðaþjónustu. Það eru aðrir sem hafa togað launakaðalinn upp á við, t.d hann sjálfur.

Ef prófessorinn vill hafa taumhald á launaþróun í landinu þá er ágætt að benda honum á að grunnlaun prófessora í Póllandi eru um 270.000 krónur. Það er ekkert vandamál að stunda frábærar hagfræðirannsóknir frá Póllandi. Það myndi lækka opinber útgjöld og auka launaframlegð landsins. Hvoru tveggja sem atvinnurekendur dreymir um.

Taka má þetta enn lengra. Hvað með að færa alla kennslu til Póllands og notast við fjarkennslu. Og hvað með tannlækningar. Landinn hefur til dæmis í auknu mæli farið til Ungverjalands til að fá sínar tannlækningar. Það hefði aldeilis jákvæð áhrif ef öll sú þjónusta flyttist þangað. Verðbólguþrýstingur heyrði þá sögunni til. Launaframlegðin yrði í heimsmetum. Þá yrði prófossor Gylfi væntanlega í skýjunum þar sem hann væri búinn að koma sér vel fyrir í Varsjá, höfuðborg Póllands. Ísland væri þá orðið að verstöð og sumarleyfisstað fyrir þá sem eiga íslenskar rætur. Ekki ósvipað og Hornstrandirnar eru í dag.

Sem betur fer fyrir Ísland þá eru erlendir ferðamenn á höttunum eftir íslenskri náttúru, menningu, norðurljósum og ferðaöryggi. Allt hlutir sem ekki er hægt að flytja í burtu. En það er alltaf hægt að flytja hagfræðirannsóknir og kennslu burt með tiltölulega einföldum og ódýrum hætti.

Síðan gleymir prófessorinn að íslensk ferðaþjónusta er á höttunum eftir efnameiri túristum sem geta borgað. Landið þarf ekki alla túrista heimsins til sín og mun aldrei keppa við sólarstrendur Spánar.