- Advertisement -

Röskun forsætisráðherrans

Seðlabankinn hefur reynt að vinda ofan af vitleysunni með loftfimleikum á gjaldeyrismarkaði.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í vikunni þá sagði forsætisráðherra á Alþingi  „Ég held að það skipti máli að við viðurkennum það hér að það hefur gengið gríðarlega vel að halda utan um peningastefnuna í gegnum þennan faraldur“. Mér brá við tjáningu ráðherrans. Verðbólga er hærri á Íslandi en annars staðar á vesturlöndum. Framreikningur verðhækkana síðustu 6 mánaða yfir á ársgrundvöll segir okkur að hækkanirnar stefni á 7 prósent. Markmið bankans er 2,5 prósent verðbólga.

Seðlabankinn gerði þau dýrkeyptu mistök í upphafi faraldursins að taka krónuna ekki tímabundið af markaði. Fyrir vikið þá veiktist hún ótæpilega sem leiddi til mikilla verðhækkana. Umfram það sem rekja mátti til erlendra verðbreytinga. Á tímabili þá hafði krónan lækkað um 22 prósent gagnvart evru. Önnur mistök voru þegar bankinn lækkaði eiginfjárkröfur bankanna. Honum misfórst að hafa áhrif á í hvað viðskiptabankarnir lánuðu nýtilkomið lausafé með því að setja upp girðingar. Nýja lausaféð fór nær eingöngu inn á fasteignamarkaðinn með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði mikið á skömmum tíma. Sú þróun spilar núna yfir í hækkun fasteignamats, sem hvetur verðbólguna áfram.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

…þá getur verðbólgan rokið í tveggja stafa tölu og uppi í 18 prósent.

Seðlabankinn hefur reynt að vinda ofan af vitleysunni með loftfimleikum á gjaldeyrismarkaði. Síðast þegar ég skoðaði þá stefndi í að bankinn hafi notað 200 milljarða króna af gjaldeyrisforða landsins til styrkingar krónunni. Nú er bankinn fastur í vítahring inngripa því erlendar hrávörur hafa hækkað svo mikið. Sem dæmi þá hefur hrávöruvísitala Bloomberg stigið um 50 prósent frá miðbiki síðasta árs og á síðustu vikum hefur mikil hröðun verið í verðhækkunum. Þannig að ef krónan fær ekki áframhaldandi stuðning þá getur verðbólgan rokið í tveggja stafa tölu og uppi í 18 prósent.

Minnkandi gjaldeyrisforði eykur ytri áhættu þjóðarbúsins og þeirri spurningu verður að svara með gagnsæjum hætti hversu langt má ganga í að auka áhættuna. Ef krónan hefði verið tekin af markaði þá væri engin þörf á að halda úti sýndarmarkaði með hundakúnstum upp í svörtuloftum. Hreinlegra hefði verið að handstýra genginu tímabundið á sama hátt og Kína gerir. Þá væri þrýstingur á verðbólgu minni en nú er.

Hún hefur sjálf sagt í hálfkæringi að hún sé haldin mótþróaröskun.

Út af öllu þessu brambolti þá er bankinn byrjaður að hækka stýrivextina á undan öðrum seðlabönkum í heiminum. Það eru slæmar fréttir fyrir skuldara. Til skemmri tíma litið þá örva stýrivaxtahækkanir verðbólguna, sem kallar aftur á meiri vaxtahækkanir. Þarna er annar vítahringur sem Seðlabanki Íslands skapaði sjálfur. Samantekið, þá hefur ekki gengið gríðarlega vel að halda utan um peningastefnuna eins og forsætisráðherra trúir. Það hefur ekki heldur gengið vel. Nær væri að tala um dómgreindarbrest, alvarleg mistök, hjá bankanum. Staðan á verðþróuninni er að landið gæti staðið frammi fyrir hamförum í verðlagsmálum á næstu misserum.

Mér finnst það loða við forsætisráðherra að hún gengst aldrei við ógóðri frammistöðu á neinu sviði. Ekki heldur þegar Kári Stefánsson leist ekki á seinagang varðandi skipulag skimana í fyrra. Hann tilkynnti, þegar ráðherrann var í sumarfríi, að Erfðagreining myndi draga sig út úr skimunum að viku liðinni. Ráðherrann snéri skyndilega til baka úr fríi og teknar voru ákvarðanir sem ráðherrann ætlaði að bíða með til haustsins. Ég man ekki eftir að Katrín Jak hafi viðurkennt linlega frammistöðu í málinu. Hún hefur sjálf sagt í hálfkæringi að hún sé haldin mótþróaröskun. Ætli það sé ekki bara málið. Hún sýnir staðreyndum sem blasa við undarlegan mótþróa. Ýmsir kalla það afneitunaráráttu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: