- Advertisement -

Sænsk sending frá Sjálfstæðisflokknum

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sjúkratryggingar eiga síðan að borga spítölum fyrir hvert viðvik og þjórfé verður greitt að auki ef starfsfólkið hleypur nógu andskoti hratt.

Það kom enn betur í ljós í gærkvöld að Sjálfstæðisflokkurinn er með tangarhald á Ríkisútvarpinu. Stjórna dagskránni þegar þeim hentar með tengslum sínum við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur. Fréttatengd dagskrá gærkvöldsins var hönnuð í kringum áróður flokksins. Ballið byrjaði með léttum fordrykk þegar sýnt var í kvöldfréttum brot úr viðtali við formann Sjálfstæðisflokksins í þættinum Forystusætið, sem var á dagskrá eftir Kastljós. Í brotinu lýsti Bjarni Ben því yfir að flokkurinn hefði áhuga á að taka yfir heilbrigðisráðuneytið svo hægt væri að einkavinavæða alla heilbrigðisþjónustu.

Að loknum fréttum var komið að öðrum tveggja aðalrétta kvöldsins, Kastljósi. Í boði var drottningarviðtal Jóhönnu Vigdísar við Björn Zoëga forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Framreiddar voru spurningar sem leggjast vel að gagnrýni Sjálfstæðisflokksins á Landsspítalann. Björn var nefnilega fluttur til landsins á dögunum af dótturfélagi Sjálfstæðisflokksins, Samtökum atvinnulífsins, til að tala á ráðstefnu um hvernig hægt væri að einkavæða sjúkrahús. Viðtalið var tvískipt. Fyrst reyndi Jóhanna Vigdís ítrekað að hrauna yfir Landsspítalann með neikvæðum spurningum og síðan var Björn dásamaður fyrir hvað hann ætti nú auðvelt með að reka fólk úr starfi.

Megininntakið er að reka skuli sjúkrahús eins og hvert annað hótel þar sem herbergjanýting skiptir öllu. Fleiri sjúklingar jafnast á við fleiri hótelgesti eins ósmekkleg og sú nálgun er. Sjúkratryggingar eiga síðan að borga spítölum fyrir hvert viðvik og þjórfé verður greitt að auki ef starfsfólkið hleypur nógu andskoti hratt. Athygli vekur að engum var boðið frá Landsspítalanum til að verjast hraunstraumum Jóhönnu Vigdísar. Á ferðinni var áróðursþáttur par excellence sem ekki mátti trufla. Meira að segja Jóhanna Vigdís sleppti öllu gjammi og hlustaði af kristilegri lotningu á boðskap æðsta prestsins frá Stokkhólmi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann lauk störfum eftir að upplýstist að hann var með tvöföld laun á við forsætisráðherra og tók þar með þátt í að sprengja öll launaviðmið heilbrigðiskerfisins.

Jóhönnu Vigdísi datt ekki í hug að spyrja sænsku línusendinguna af hverju Karolinska sjúkrahúsið hafi undirritað viðhaldssamning við tvö einkafyrirtæki, Swedish Hospital Partners og Coor Service Management, til hvorki meira né minna en 22ja ára. Samningurinn útilokar alla samkeppni og felur í sér að það kosti sænska skattborgara 18 milljónir íslenskra króna að skipta um venjulega hurð svo eitt dæmi sé tekið. Jóhönnu Vigdísi og vinum hennar í Sjálfstæðisflokknum þykir það líklega vera góða ráðstöfun á almannafé. Þá geta flokksgæðingar grætt á daginn og grillað á kvöldin.  

Hinn aðalréttur kvöldsins var viðtal við formann Sjálfstæðisflokksins í þættinum Forystusætið eins og áður sagði. Um miðbik þáttarins þá vitnaði hann auðvitað til orða Björns Zoëga um hvernig reka mætti Landsspítalann.

Vert er að minna á að þessi sami Björn Zoëga var fyrir 7 árum forstjóri Landsspítalans og hefur því haft mikið um það að segja í hvaða stöðu spítalinn er í dag. Hann lauk störfum eftir að upplýstist að hann var með tvöföld laun á við forsætisráðherra og tók þar með þátt í að sprengja öll launaviðmið heilbrigðiskerfisins. Um leið tryggði hann viðvarandi og útbreidda óánægju meðal starfsmanna spítalans. Hann yfirgaf spítalann og hóf samstarf við hrunameistara Íslands, Hannes Smárason, hjá fyrirtækinu WuXi NextCode áður en hann hóf störf hjá Karolinska.

Þetta er maðurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn teflir fram ef flokkurinn kemst í ríkisstjórn. Þá má búast við að Björn taki aftur við starfi forstjóra Landsspítalans. Sýnir Björn þá væntanlega úr hverju hann er gerður og segir starfsfólki upp í hrönnum og hefur einkavinavæðinguna. Kjósendur geta forðað þessu með því að kjósa rétt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: