- Advertisement -

Samfylkingin á leið inn í skápinn

Jóhann Þorvarðarson:

Því miður fyrir hinn óreynda formann þá eru pólitísk stefnumið ekki verslunarvara, sem ganga kaupum og sölum.

Samfylkingin er á leið inn í skápinn ef marka má stefnuræðu nýs formanns, Kristrúnar Frostadóttur. Vegna kolrangrar greiningar á ástæðum fylgishruns flokksins verða stefnumál, sem aðgreint hafa Samfylkinguna  frá öllum öðrum stjórnmálaöflum landsins nema Viðreisn, jaðarsett. Brunaútsala er hafin svona eins og þegar fyrirtæki rýma fyrir nýjum vörum. Því miður fyrir hinn óreynda formann þá eru pólitísk stefnumið ekki verslunarvara, sem ganga kaupum og sölum.

Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evrunnar er orðið að feimnismáli, sem formaðurinn vill geyma inn í skáp þar til hugsanlega og kannski og einhvern tímann í framtíðinni tækifæri gefst til að spyrja þjóðina. Þetta er veikleikamerki og sýnir ónægt sjálfstraust.

Sömu örlög bíða nýju stjórnarskrárinnar, sem þjóðin er búin að kjósa sér. Hana á að búta niður og geyma í aðskildum skjalaskápum þar til einhvern tímann. Katrín Jakobsdóttur er búin að reyna leiðina í mörg ár og henni mistókst herfilega. Engin þörf er á að endurtaka hroðann.

Samfylkingin varð að smáflokki vegna yfirgangs Kvennalistans.

Nóg er til af stjórnmálaöflum, sem hafna báðum málum og er því ástæðulaust fyrir Samfylkinguna að klæðast stolnum fjöðrum til að breiða yfir rætur fylgishrunsins. Samfylkingin varð að smáflokki vegna yfirgangs Kvennalistans innan Samfylkingarinnar og glórulauss samstarfs Ingibjargar Sólrúnar við Sjálfstæðisflokkinn. Áhrifin af samstarfinu voru tafin vegna hrunsins, en hafa svo sannarlega sýnt sig undanfarin 10 ár. Brotthlaup atkvæðabærra manna frá Samfylkingunni nær jafnt til kvenna og karla enda fylgið á stundum vart athyglinnar virði. Flóttinn var ekki vegna stefnumála og því ástæðulaust að hefja brunaútsölu.

Yfirgangur Þórunnar Sveinbjarnardóttur þegar hún ruddi Guðmundi Andra Thorssyni úr fyrsta sætinu í Suðvesturkjördæmi er dágott dæmi um yfirgang Kvennalistans, sem olli miklu fylgishruni og veldur enn. Að Kristrún skuli ekki koma auga á þetta fær mann til að hugsa hvort hún sé föst í sálarangist afneitunar?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: