Bjarni Benediktsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Samsett mynd.

Fréttir

Samherjamálið til umfjöllunar í Namibíu – Framsal vel mögulegt: „Vitum að mútur voru greiddar í Namibíu og Angóla“

By Ritstjórn

June 24, 2022

Vefmiðillinn DV segir frá því að namibíska dagblaðið The Villager fjallar um áhyggjur þær sem yfirmaður vinnuhóps OECD gegn mútum hefur af vinnubrögðum á Íslandi þegar kemur að rannsókn á hinu alræmda Samherjamáli.

Bjarni kyssir hönd Þorsteins Más á frægu málverki eftir Þránd Þórarinsson sem málað var eftir að mál Samherja í Namibíu komst í hámæli.

Um málið er fjallað í forsíðufrétt blaðsins sem birtist í fyrradag undir yfirskriftinni: „Fishrot handling by Iceland is embarassing: OECD.“

Eða á okkar ástkæra ylhýra: „Vandræðalegt hvernig Ísland tekur á Samherjamálinu: OECD.“

Samherjamálið er þekkt sem Fishrot í ýmsum öðrum löndum, og hefur vakið mikla athygli víða um veröld.

Yfirmaður vinnuhóps OECD gegn spillingu, Drago Kos, telur að það sé afar vandræðalegt fyrir Ísland að það sé Namibía sem dragi vagninn í málinu; að þetta líti illa út fyrir íslensk stjórnvöld.

Atli Þór Fanndal.

Áðurnefnt dagblað vitnar í viðtal við Atla Þór Fanndal – sem er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, á Eagle FM í Namibíu vegna málsins.

Þar segir Atli að Ísland sé í aðalhlutverki í málinu; það sé íslenskt fyrirtæki sem sé sakað um mútugreiðslur:

„Við vitum að mútur voru greiddar í Namibíu og Angóla.“ Atli kom einnig inn á heimsókn utanríkisráðherra Namibíu, Netumbo Nandi-Ndaitwah, til Íslands á dögunum, en á meðal þess sem hún ræddi við íslenska ráðamenn var mögulegt framsal íslenskra einstaklinga til Namibíu vegna Samherjamálsins.

Hins vegar eru Ísland og Namibía ekki með tvíhliða framsalssamning sín á milli; bæði ríkin eru þó aðilar að samingi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu; en í 44. grein samningsins er gerð grein fyrir framsali milli aðildarríkja: Jafnvel án tvíhliða framsalssamning.

Fram kom í máli Atla að það hefði komið honum mikið á óvart hversu mikil leynd hafi verið yfir fundum namibískra ráðamanna með þeim íslensku, fyrr í þessum mánuði.

Atli segist hafa vonast til að íslensk yfirvöld myndu boða til blaðamannafundar þar sem hægt væri að spyrja spurninga; það hafi ekki verið gert.

Hann hefur áhyggjur af því að ekkert verði af umræddu framsali, enda hafa íslenskir ráðamenn lagst afar hart gegn því; hreinlega fullyrt að engar slíkar heimildir séu til staðar.

Atli segir að fyrirtækið Samherji hafi „gríðarleg pólitísk áhrif á Íslandi“ og hafi til dæmis notað aflsmuni sína gegn sjálfum Seðlabanka Íslands.

„Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu“ sagði sonur Þorsteins Más, Baldvin, við Má Guðmundsson þáverandi seðlabankastjóra.

Þá er fært í tal að þegar upp komst um Samherjamálið hafi formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sagt að vandamálið væri „veikburða og spillt stjórnvöld í Namibíu.“

Atli gaf lítið fyrir þessi ummæli Bjarna og taldi þau „furðulega heimskuleg“ og sýni bersýnilega rasisma og algeran skilningsskort af hálfu ráðherrans hvað þetta mál varðar; Atli segir að því sé stundið haldið fram á Íslandi af Íslendingum að spilling geti vissulega numið land á Íslandi, en spillingin sé aldrei heimatilbúin.

Drago Kos.

The Villager vitnar í íslenska fjölmiðla, þar sem kemur fram að Drago Kos sé meira en furðu lostinn yfir því að embætti héraðssaksóknara sé undirfjármagnað í ríku og vel stæðu landi sem Ísland vissulega er:

„Stjórnvöld þurfa að finna fjármagn og útvega skrifstofu héraðssaksóknara allt sem þar til að hægt sé að ljúka málinu sem fyrst,“ segir Drago Kos.

Undir lok greinarinnar bendir The Villager á að Samherjamálið sé stærsta spillingarmál sem hefur komið upp í landinu frá því Namibía öðlaðist algert sjálfstæði í mars árið 1990; sem hefur leitt til þess að saksókn hafi farið í gang gegn háttsettum viðskiptamönnum; lögmenn hafi einnig blandast í málið: Auk þess sem tveir ráðherrar hafi þegar sagt af sér.