- Advertisement -

Samhljómur milli Bretlands og Íslands

Jóhann Þorvarðarson:

Tilvera þúsundir íslenskra heimila er í húfi og þá dettur Vinstri grænum ekkert betra í hug en að hnoða í ólöglegt hvalveiðibann þar sem fjöldinn missti lífsviðurværi sitt vegna glapræðis Svandísar Svavars.

Bank of England eða seðlabanki Breta hækkaði vexti um hálft prósent í dag eða helmingi meira en væntingar voru um. Standa breskir stýrivextir þá í 5 prósentum. Á meðan ekki dregur hressilega úr verðhækkunum þá munu stýrivextir halda áfram að hækka að sögn bankans.

Verðbólgutölur gærdagsins komu bankanum á óvart en þær hófu fjallaklifur sitt að nýju í maí eftir stutta dvöl í hvíldarbúðum á skör einni. Eins og oft áður þá segir bankinn að sig sé í nánd, en klifunina hefur ríkisstjórn Rishi Sunak dúettað um langt skeið án þess að aðgerðir fylgi máli. Áréttingarnar eru svo jaskaðar að fjármálamarkaðurinn hefur hækkað vænta ávöxtunarkröfu á þriggja ára ríkisbréfum úr 4 og upp í 5,5 prósent á aðeins um einum mánuði. Í heimi skuldabréfa þá er um hraðakstur að ræða.

Bresk stjórnvöld trúa því að lækkandi orkukostnaður reddi málum og leiði til verðlækkana á framleiðsluhliðinni. Það er vissulega rétt að vísitala sem mælir verðbreytingar framleiðslukeðjunnar hefur hjaðnað vegna lækkandi olíuverðs. Á móti ber að líta á að myndast hefur verðgólf á olíu í námunda við 70 dollara á Texas olíutunnuna og þrýstingurinn er síðan upp björgin frekar en að bjargsig sé í kortunum.  Það er því afar veik forsenda að treysta á að olíuverði haldi stillingu sinni til lengri tíma litið miðað við stöðu heimsmála og hversu almennar verðhækkanir eru. Annað og meira þarf til ef negla á verðbólguna niður við fjallsrætur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fram undan er því þörf á að hanna rammgerða skjaldborg utan um áhættusett heimili.

Á meðan Ísland glímir við háa verðbólgu, mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi þá er Bretland á öðrum stað þar sem árlegur hagvöxtur er innan við 1,5 prósent um þessar mundir. Þannig að endurteknar vaxtahækkanir eru líklegar til að kalla fram kreppu og aukið atvinnuleysi. Miðað við yfirlýsingar þá er það í forgrunni að hemja verðbólguna hjá Bretum og bankinn boðar fleiri hækkanir eins og nefnt var.  

Það er augljós samhljómur óraunsæis á milli íslenskrar og breskrar stjórnvalda gagnvart verðbólgunni. Báðir aðilar hafa ítrekað talað um skammtímavanda og kenna öðrum en sjálfum sér um slaka hagstjórn. Ríkisstjórnir beggja landa neita síðan að axla ábyrgð og að boða til kosninga vegna forsendubrests  hagstjórnarinnar. Á næstu misserum eru horfur á sársaukafullum tíma hjá skuldurum beggja landa því byrjað er að fjara undan vaxtafestunni. Mun það leiða hrylling af sér ef klettaklifur verðbólgumóra stöðvast ekki. Fram undan er því þörf á að hanna rammgerða skjaldborg utan um áhættusett heimili.

Ekkert landsmál er eins aðkallandi eða stórt í sniðum og skuldahengjan sem vofir yfir Íslandi og er tilvist hennar alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Því miður þá er ríkisstjórnin ófær um að takast á við vandann og í stað þess að boða til kosninga þá hagar stjórnin sér eins og skálkur. Dýrmætum tíma er ráðstafað í rifrildi um mál sem verða neðanmálsgreinar í samanburði við afleiðingar hengjunnar fái hún að falla varnarlaust. Tilvera þúsundir íslenskra heimila er í húfi og þá dettur Vinstri grænum ekkert betra í hug en að hnoða í ólöglegt hvalveiðibann þar sem fjöldinn missti lífsviðurværi sitt vegna glapræðis Svandísar Svavars.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: