- Advertisement -

Samtökin og ístöðulaus ríkisstjórn

Dómur sögunnar um skefjalausa sérhagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar á ögurstundu verður ófallegur.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands sendu frá sér hagspá í maí á síðasta ári. Settar voru fram þrjár sviðsmyndir varðandi samdrátt hagkerfisins á síðasta ári sem fengu heitin: talsvert högg, mikið högg og mjög þungt högg. Í sömu röð þá var spáð 8, 13 eða 18 prósent samdrætti. Grunnsviðsmyndin var það sem nefnt er mikið högg eða 13 prósent samdráttur í landsframleiðslu. Nú hefur Hagstofan birt fyrstu Þjóðhagsreikninga vegna nýliðins árs og var samdráttur í landsframleiðslu 3,5 prósent (nafnlækkun). Miðjan birti eigin hagspá samanber þetta hér Miðjan / Ný hagspá fyrir árið 2020 og spáði 4,9 prósent nafnverðslækkun landsframleiðslunnar.

Ástæðan fyrir því að Miðjan birti eigin hagspá einn allra miðla var hversu ótrúverðug hagspá Samtakanna og Viðskiptaráðs var. Spá aðilanna litaðist af hræðsluáróðri og var innlegg í peningaplokk frá ríkinu handa hluthöfum vildarfyrirtækja Sjálfstæðisflokksins. Spáskekkjan er upp á rúm 271 prósent á meðan spáskekkja Miðjunnar er 40 prósent. Munurinn er nærfellt sjöfaldur, Miðjunni í vil. Það er svo sem ekkert nýtt að Samtökin máli skrattann á vegginn. Í kringum viðræður um nýja kjarasamninga þá er atvinnulífið gjarnan á heljarþröm samkvæmt Halldóri Benjamín Þorbergssyni. Hans sérsvið er nefnilega heimsendaspár. Það er því löngu tímabært að fjölmiðlar hætti að leita álits í Borgartúninu. Samtökin og Viðskiptaráð eru vondar heimildir. Spáhæfileikarnir eru einfaldlega ekki til staðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ríkisstjórnin stóð ekki í lappirnar og gaf atvinnulífinu 25 milljarða.

Það voru fleiri sem sendu frá sér lélegar hagspár um miðbik síðasta árs. Arion banki spáði að samdrátturinn yrði 8,2 prósent, Íslandsbanki 9,2 prósent og Landsbankinn 8,7 prósent. Síðan spáði Seðlabankinn 8 prósent samdrætti og Hagstofan 8,4 prósent. Þetta eru alvarleg feilskot í ljósi þess að fyrirtæki, stofnanir og heimili reiða sig á spárnar. Þetta hefur allt keðjuverkandi áhrif.

Síðan er það hitt, sem er enn alvarlegra. Ríkisstjórnin horfir mikið til Samtakanna við landsstjórnina enda náið talsamband þarna á milli við Bjarna Ben fjármálaráðherra, Kristján Þór sjávarútvegsráðherra og Guðlaug Þór utanríkisráðherra. Svo er fyrrum aðstoðarmaður fjármálaráðherra framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands í dag. Þetta er fámennur hópur sem á auðvelt með að fanga kastljós fjölmiðla í grimmri sérhagsmunagæslu fárra á kostnað almannahagsmuna. Álit sérhagsmunaaflanna smitast síðan auðveldlega inn á ríkisstjórnarfundi. Á sama tíma er sama og ekkert rætt við launþegahreyfinguna. Nýjasta dæmið er auðvitað þegar Halldór Benjamín kom purkunarlaus fram í fjölmiðlum í haust og hótaði uppsögn kjarasamninga. Ríkisstjórnin stóð ekki í lappirnar og gaf atvinnulífinu 25 milljarða króna í auka afslátt af ýmsu eins og til dæmis tryggingargjaldinu. Gjald sem á að renna í atvinnuleysistryggingasjóð. Það var sorglegt að sjá hvernig oddvitar ríkisstjórnarinnar voru í gíslingu Samtakanna í 2-3 daga meðan á hafaríinu stóð.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar voru að miklu leyti hannaðar hjá Samtökunum. Sjálfvirku færibandi frá Marel var komið fyrir beint inn í ríkissjóð þar sem peningum var til dæmis dælt í Bláa lónið þar sem eiginkona Guðlaugs Þórs utanríkisráðherra er hluthafi. Og peningum var einnig dælt inn í rútufyrirtæki fjölskyldu fjármálaráðherra. Aðgerðirnar vernduðu hluthafa, en ekki launafólk sem hópast hefur á atvinnuleysisskrá. Uppburðar- og ístöðuleysi ríkisstjórnarinnar er einnig á ábyrgð Sigurðar Inga formanns Framsóknarflokksins og Katrínar Jak formanns Vinstri grænna. Og við skulum ekki láta eins og formennirnir séu óvitar. Það sama á við um þingmenn flokkanna. Dómur sögunnar um skefjalausa sérhagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar á ögurstundu verður ófallegur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: