- Advertisement -

Seðlabankinn brotlentur

Miðjan var sannspá. Hún birti eigin hagspá á síðasta ári um að verðbólgan væri að stefna á 4,5 prósent.

Jónann Þorvarðarson skrifar:

Seðlabankinn var að hækka stýrivexti upp í 1 prósent úr 0,75 prósentum í umhverfi þar sem atvinnuleysi og verðbólga er hærri en alls staðar í kringum okkur. Í kjölfarið var fjölmiðlafundur streymdur frá Arnarhóli. Ef ég nefni eina setningu sem kom óþægilega oft fyrir í tali bankans um verðbólguna þá er það þessi setning „við spáðum vitlaust“. Spár geta aldrei verið nákvæmar, en þegar boltanum er sparkað langt fram hjá markinu, jafnvel út að hornfána, þá er eitthvað alvarlega brotið. Og til afsökunar þá sagði bankinn að allir hefðu spáð vitlaust eins og að það afsaki sína eigin frammistöðu. Ég hnaut um þetta því að Miðjan var sannspá. Hún birti eigin hagspá á síðasta ári um að verðbólgan væri að stefna á 4,5 prósent á sama tíma og aðrir spáðu hækkun upp á 2,5 prósent. Í dag þá mælist bólgan 4,6 prósent. Seðlabankinn getur ekki kennt fótboltaskónum um slaka spyrnu eða leikmönnum annarra liða. Sá sem klæðist skónum er vandamálið.

Ég get endurtekið það sem ég hef áður sagt hér á Miðjunni að ég óttast að bólgan geti farið í 7 prósent á næstu mánuðum. Hér er þó ekki um formlega spá að ræða, en stefnan er upp á við enn um sinn að mínu mati. Seðlabanki Íslands er ósammála og telur verðhækkanir hafa náð hámarkinu. Spurningin er þá þessi, er sami leikmaðurinn í fótboltaskónum?   

Þú gætir haft áhuga á þessum

KRÓNA ER NEFNILEGA VALDUR AÐ STÓRUM HLUTA VERÐBÓLGUNNAR.

Það var annað mjög athyglisvert sem kom fram á fundinum. Bankinn viðurkennir loksins að gömul kenning um öfugt samband milli verðbreytinga og atvinnuleysis er ekki lengur það sama og áður var talið. Sambandið hefur breyst. Hærri verðbólga stuðlar ekki að aukinni atvinnu. Þannig að sú bábilja Sjálfstæðisflokksins hefur verið leiðrétt opinberlega. Um leið þá hefur bankinn viðurkennt hagstjórnarmistökin að taka krónuna ekki tímabundið af markaði vegna fordæmalausra aðstæðna. Króna er nefnilega valdur að stórum hluta verðbólgunnar.

Undir lok fundarins þá sagði bankinn að stýrivextir yrðu hækkaðir eins og þyrfti til að koma taumhaldi á verðbólguna. Þetta eru alvarleg skilaboð því óhófleg hækkun vaxta stuðlar í sjálfu sér að hækkun neysluverðs. Bankinn hlýtur að hafa mismælt sig því önnur stjórntæki eru betur til þess fallin að hemja verðhækkanir.     


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: