
Jóhann Þorvarðarson:
Ég veit núna aftur og fyrir víst að það sem fer upp kemur einhvern veginn og einhvern tíma aftur niður. Ég var nefnilega búinn að gleyma þessu því ég er svo frostbitinn í hausnum.
Það sem fer upp kemur aftur niður. Þetta hafa börn lært. Óvissan snýr bara að því hvenær og hvernig komið er aftur niður. Tröppugangur barna er gott dæmi. Spurningin er bara hvort barnið komist klakklaust niður. Verður niðurgangan greiðlega eða þarf barnið stuðning vegna þess að fæturnir eru ekki orðnar styrkar.
Í nýjustu grein sinni þá slær Þorsteinn Pálsson um sig þegar hann segir orðrétt „Verðbólga á eftir að lækka og vextir að síga“. Svo fer hann bara að tala um eitthvað annað og skilur lesandann eftir í trans yfir auðsýndri speki sinni.
Þorsteinn setur ekki fram tímasetta spá um niðurgönguna né hversu langt niður þessar tvær hagstærðir munu ganga áður en staðnæmst er. Þrátt fyrir ágallann þá er vert að þakka Þorsteini fyrir þessa tímamóta uppgötvun sína. Ég veit núna aftur og fyrir víst að það sem fer upp kemur einhvern veginn og einhvern tíma aftur niður. Ég var nefnilega búinn að gleyma þessu því ég er svo frostbitinn í hausnum.