- Advertisement -

Segir forsetinn af sér?

Tilraun Benedikts til að bæta ímynd Hæstaréttar í viðtalinu var alveg misheppnuð.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Forseti Hæstaréttar Benedikt Bogason veitti örvæntingarfullt breiðsíðuviðtal hjá Fréttablaðinu seint á síðasta ári. Gekk viðtalið út á að verja orðspor Hæstaréttar. Rétturinn hefur oftar en ég nenni að rifja upp verið staðinn að vafasömum vinnubrögðum. Brögð sem eru hrein lögbrot og ganga freklega gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Bara eitt mjög nýlegt dæmi er þegar Sigurður Tómas Magnússon taldi sig ekki vanhæfan þegar hann fjallaði um mál sem tengist hans eigin vinnuveitanda til fjölmargra ára. Hann þáði enn laun þegar umrætt mál var til meðferðar réttarins. Til að nefna annað dæmi um óhlutleysi þá er í gangi endurupptekið mál fyrir dómstólum eftir að Mannréttindardómstóllinn úrskurðaði að Viðar Már Matthíasson fyrrverandi dómari geti ekki talist hlutlaus til að dæma í tilteknu hrunamáli. Ástæðan er hans eigið fjárhagstap vegna háttsemi annars málsaðilans. Er það metið svo að hefndarhugur geti hafa truflað dómarastörf Viðars Más. Hægt er að rifja upp fjölmörg önnur dæmi. Listinn er langur og ógeðfelldur. Það er því engin tilviljun að landsmenn gefi dómstólum landsins ítrekað falleinkunn í viðhorfskönnunum Gallup.  

Letimenning Hæstaréttar eftir að Landsréttur tók til starfa er nýtt vandamál sem grefur enn frekar undan áliti þjóðarinnar á dómstólum.  Afar fá mál fá áfrýjunarleyfi. Latir dómarar eru óhræddir að hafna umsóknum þó öll lagaskilyrði séu uppfyllt fyrir áfrýjunarleyfi. Sem sagt, letimenningin er sjálfsköpuð. Ástandið er svo slæmt að Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar og dómari við réttinn í aldarfjórðung, sagði orðrétt í viðtali við Lögmannablaðið „Mér leið bara eins og ég væri kominn í 25 prósent starf“. Að slóra dagana langa var eitthvað sem hann kærði sig ekki um og yfirgaf hann því  réttinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Benedikt á augljóslega erfitt með að þola að þjóðin hefur lítið álit á dómstólum. Hann verður samt sem áður að horfast í augu við þá staðreynd að hann sjálfur hefur mótað orðsporið. Hann er gerandi og ekki góð heimild um ástandið innan veggja Hæstaréttar. Honum ber að axla ábyrgð sem forseti í stað þess að vera með innistöðulausan áróður í fjölmiðlum.

Ég hjó sérstaklega eftir því að Benedikt þurfti að hafa mörg orð um það í viðtalinu hvað honum þætti dómarabekkurinn vel skipaður. Þessu eru ekki allir sammála. Rétt tengslanet tryggði framgang sumra inn á bekkinn frekar en hæfni umfram aðra umsækjendur. Tilraun Benedikts til að bæta ímynd Hæstaréttar í viðtalinu var alveg misheppnuð. Annað og meira þarf að koma til ef auka á hróður Hæstaréttar. Sjálfstignun og sjálfshól er ekki þar innifalið. Álit almennings á dómstólum mótast af verkum dómara og með hvaða hætti þeir eru skipaðir. Landsréttarmálið segir allt sem segja þarf um að klíkutengsl ráða miklu um skipun dómara. Og ekki er verra að vera í ættartengslum við hinn arga Davíð Oddsson.

Nú í vikunni þá féll dómur í makalausu máli Benedikts gegn Jóni Steinari fyrrverandi Hæstaréttardómara þar sem Benedikt fékk ólíkt mörgum landsmönnum áfrýjunarleyfi frá vinnufélögum sínum. Hann tapaði málinu þriðja sinni og efast ýmsir um lagalega þekkingu Benedikts. Í kjölfar dómsins þá mætti þrefaldi taparinn aftur í spjall hjá Fréttablaðinu þar sem hann var með aumkunarvert harmakvein. Prófessor Þorvaldur Gylfason skrifaði eftirfarandi á fésbókarvegg sinn „Hæstaréttardómari sem höfðar mál gegn samborgara sínum og tapar því í Hæstarétti er bersýnilega ekki nógu vel að sér í lögfræði og ætti því að sýna samborgurum sínum þá kurteisi að segja af sér“. Eins og margir þá tek ég undir orð Þorvaldar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: