- Advertisement -

Segir Seðlabanka hafa farið út fyrir valdsvið sitt og leitar til umboðsmanns

„Ég vil kvarta yfir því að Seðlabankinn er að mínu viti kominn út fyrir sitt verk- og valdsvið og út fyrir sínar lagaheimildir. Hann er farinn að skipta sér að skipan mála hjá frjálsum samtökum sem lífeyrissjóðir eru. Ég tel að framganga bankans samrýmist ekki fjölmörgum reglum stjórnsýsluréttarins eins og ég rakti hér ofar í bréfinu. Lögmætisregla stjórnsýslulaga kallar á mann, en samkvæmt henni þá hvorki á eða má bankinn fara út fyrir valdsvið sitt að lögum.“

Það er Jóhann Þorvarðarson, sem er lesendum Miðjunnar að góðu kunnur, sem skrifar til umboðsmanns Alþingis vegna afskipta Seðlabankans af deilu Ragnars Þórs Ingólfssonar og formælenda Samtaka atvinnulífsins.

Bréf Jóhanns fer hér á eftir:

Umboðsmaður Alþingis

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þórshamri, Templarasundi 5

101 Reykjavík

Efni bréfs

Afskipti Seðlabanka Íslands af deilu tveggja tilnefningaraðila til stjórnar Lífeyrissjóðs Verslunarmanna (LV). Annars vegar er um að ræða Samtök atvinnulífsins (SA) og hins vegar Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR). Stjórn SA tilnefnir þrjá í stjórn LV og VR tilnefnir fjóra. Félag atvinnurekenda tilnefnir einn stjórnarmann. Stjórnarmenn LV eru átta samtals.

Atburðarásin

Þann 17. júlí síðastliðinn þá sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu og var þeim tilmælum beint til stjórnarmanna LV sem VR skipar í stjórnina að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Í yfirlýsingunni segir að fjöldi félagsmanna VR, sem margir hverjir hafa starfað áratugum saman hjá Icelandair, hafi verið sagt upp störfum á meðan félagið stundar félagsleg undirboð með úthýsingu starfa til landa þar sem réttindi eru fótum troðin. Áfram segir síðan að stjórn VR geti ekki sætt sig við það að eftirlaunasjóðir launafólks séu notaðir til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hvetja til félagslegra undirboða. Það stríðir gegn þeim gildum sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir. Að endingu segir síðan að lífeyrissjóðirnir hafi sett sér alþjóðleg siðferðileg viðmið í fjárfestingarstefnum sínum og ber þeim að fylgja þeim eftir. Yfirlýsingin fylgir með í afriti á fylgiskjali merkt A.

Þessi yfirlýsing VR hangir saman við kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Icelandair, en sama dag kom stjórn og fulltrúaráð FFÍ saman og boðaði allsherjarvinnustöðvun. Afrit af fundargerð stjórnar og fulltrúaráðs FFÍ er einnig að finna á fylgiskjali merkt A. Til frekari stuðnings um tengsl milli yfirlýsinga VR og FFÍ er rétt að benda á blaðaviðtal við Helgu Ingólfsdóttur í Fréttablaðinu 24. júlí 2020 neðst á blaðsíðu 6. Helga er bæði stjórnarmaður í VR og LV. Í viðtalinu segir orðrétt í annarri málsgrein „Ég studdi ákvörðun stjórnar VR að mótmæla harðlega þeirri ákvörðun sem tekin var af Icelandair síðastliðinn föstudag um að segja upp kjarasamningi við Flugfreyjufélag Íslands sem var megintilgangur með þeirri yfirlýsingu sem send var frá stjórn VR. Það er jákvætt að nú hefur sú ákvörðun Icelandair verið tekin til baka“.

Eftir að samningar náðust milli Icelandair og FFÍ þá dró VR yfirlýsngu sína frá því 17. júlí til baka samanber ný yfirlýsing dagsett 24. júlí. Afrit nýju yfirlýsingarinnar er einnig að finna á fylgiskjali A.

Samandregið þá mat stjórn VR það svo að samningsréttinum væri ógnað og Icelandair væri að brjóta lög um vinnudeilur. Segir að samningsrétturinn sé grundvöllur kjarasamninga og stéttabaráttunnar. Í lögum um vinnudeilur stendur að atvinnurekendum sé óheimilt að hafa áhrif á vinnudeilur með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn. Þessi tjáning er studd ofangreindum rökum ásamt vísan í samfélagsleg gild og alþjóðlegar siðareglur. Álit stjórnar VR var að ekki væri réttlætanlegt að fjárfesta meira af lífeyrissparnaði sjóðfélaga LV í áhættufyrirtækinu Icelandair á meðan troðið er á samningsréttinum og fleira.

SA blandaði sér í málið þó samtökin eigi enga lögvarða hagsmuni innan lífeyrissjóðsins. Sjóðsaðilar eða þúsundir launþega eiga LV. Samtökin gangast við þessu í kvörtunarbréfi til Seðlabankans dagsett 21. júlí 2020 samanber afrit á fylgiskjali merkt B. Samtökin vilja aftur á móti hafa mikið um það að segja hvernig iðgjöldum sjóðfélaga er ráðstafað í hinar og þessar áhættufjárfestingar og hvernig stjórn VR tjáir sig. Saga fjárfestinga LV í ýmsum hlutafélögum er þyrnum stráð. Nægir þar að nefna tímabilið fyrir fjármálahrunið og fjárfestingu sjóðsins í Icelandair sem nú glímir við svo mikla erfiðleika að óvíst er með framhald fyrirtækisins. Hægt er að setja fram sterk rök um að flugfélagið sé tæknilega gjaldþrota. Þar má til dæmis nefna viðræður Icelandair við ýmsa lánardrottna um skuldbreytingar. Þá hefur félagið fengið stuðning frá skattgreiðendum landsins í formi greiðslu launa í uppsagnarfresti. Icelandair hefur svo farið þess á leit að skattgreiðendur í gegnum ríkissjóð veiti félaginu ábyrgð fyrir lánalínum. Þannig að það er full ástæða fyrir VR að hafa varann á þegar kemur að væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Iðgjöld sjóðfélaga eru ekki kasínópeningar.

Fjárfestingartap lífeyrissjóða hefur bein áhrif á framtíðarlífeyrir og framfærslugetu aðila á efri árum. Það er því afar þýðingarmikið að leyfð sé opinská og opinber umræða um fjárfestingar lífeyrissjóða og skiptir þá engu máli hvaðan sú umræða kemur. Vart þarf að hafa orð á því að tjáningarfrelsið er varið af stjórnarskrá landsins, en það skal samt gert hér og nú.

Í kvörtunarbréfi SA til Seðlabanans þá eru settar fram óhaldbærar fullyrðingar, jafnvel dylgjur, um áhrif tjáningar stjórnar VR. Í niðurlagi bréfsins er til dæmis gefið til kynna að yfirlýsing VR komi í veg fyrir að stjórnarmenn sem VR skipaði í stjórn LV geti tekið faglega ákvörðun þegar kemur að væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair þar sem hagur sjóðfélaga er hafður að leiðarljósi. Þetta er alrangt og órökstutt, en meira um það síðar í þessu bréfi.

Tveimur málsgreinum fyrir ofan niðurlag bréfsins segir að ef umræddir stjórnarmenn verði við tilmælum stjórnar VR um að greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair að þá hafi hinir sömu gerst brotlegir við ýmis ákvæði samþykkta sjóðsins. Þetta er alröng staðhæfing og rangtúlkun á því hvernig fjárfestingarákvarðanir eru undirbyggðar eins og lýst verður betur neðar í bréfinu.

Í sömu málsgrein segir síðan að tilnefningaraðilar hafi ekki heimild til að afturkalla skipunina. Það er rökstutt og sagt að það sé vegna þess að samþykktir sjóðsins fjalli ekki um þetta atriði. Að eitthvað sé ekki nefnt í samþykktum LV gerir það ekki óheimilt. Þetta er eins og að segja að einstaklingur geti ekki sólbaðað sig vegna þess að það er ekki fjallað um það í samþykktum húsfélagsins þar sem viðkomandi býr. Fyrr má núna vera nauðungin ef allt er bannað sem ekki er nefnt í lögum eða samþykktum.

Fullyrðing SA í þessum efnum er í andstöðu við annan málflutning kvörtunarbréfsins samanber síðasta setning fjórðu málsgreinar á blaðsíðu eitt. Við bætist að Fjármálaeftirlitið komst að niðurstöðu sumarið 2019 sem birt var í dreifibréfi sem sent var lífeyrissjóðum. Í því stendur orðrétt „Samþykktir lífeyrissjóða séu almennt hljóðar um hvort, og þá við hvaða aðstæður, sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna. Óskýrara samþykktir hvað þetta varðar geri ferlið við val og mögulega afturköllun á umboði stjórnarmanna ógagnsætt“. Þrátt fyrir allt þetta þá setur SA fram þess óhaldbæru fullyrðingu um málið. Rökleysa SA endurspeglar fyrst og síðast tilraun til að múlbinda og óvirkja eftirlitshlutverk stjórnar VR með LV. Þar á ég við að líta eftir hagsmunum sjóðfélaga því stjórnarmenn lífeyrissjóða geta gert óafturkræf mistök sem skaðað geta fjárhag lífeyrissjóða og hagsmuni sjóðfélaga.

Í þessu samhengi þá vil ég minnast á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli númer E-2942/2014 þar sem tilteknir stjórnarmenn Lífsverks lífeyrissjóðs fóru út fyrir fjárfestingarheimildir. Eftir dóminn þá endaði málið með sátt þar sem Vátryggingarfélag Íslands samþykkti að greiða 835 milljónir króna í bætur vegna framgöngu fyrrverandi stjórnarmanna sjóðsins. Þetta mál sýnir glöggt hversu miklir hagsmunir eru í húfi. Dómurinn lýsir ágætlega aðstæðum sem geta komið upp í rekstri lífeyrissjóða og þá er nauðsynlegt að tilnefningaraðilar geti brugðist hratt við til að verja hagsmuni sjóðfélaga.

Í kvörtunarbréfinu segir síðan að fjármálaeftirlitið hafi beint tilmælum til sjóða að skýra þetta ferli betur. Aðeins einn lífeyrissjóður hefur orðið við þessum tilmælum enda bara um tilmæli að ræða, en ekki lagaskyldu. Eins og sagði þá setja SA samt fram þá fullyrðingu að afturköllun sé óheimil. Það verður ekki skilið á annan hátt en að það þóknist ekki sérhagsmunum Icelandair, sem ræður miklu innan SA, að LV taki mögulega ekki þátt í væntanlegu og áhættusömu hlutafjárútboði flugfélagsins. Því er reynt að gera tjáningu stjórnar VR tortryggilega um leið og gefið er í skyn að stjórnarmenn lífeyrissjóða séu strengjabrúður aðila út í bæ. Þannig málflutningur dæmir sig sjálfan sem ómarktækur. Áhættan er miklu frekar í hina áttina, þ.e.a.s að stjórnarmenn láti undan þrýstingi frá SA að samþykkja glórulausar fjárfestingar í hlutafélögum sem eiga aðild að SA eða undirfélögum þess.

Aðkoma og framganga Seðlabanka Íslands

Þremur dögum eftir kvörtunarbréf SA þá blandar Seðlabankinn sér í málið með afgerandi hætti. Forsíðu- og breiðsíðuviðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra birtist í Fréttablaðinu 24. júlí þar sem Seðlabankinn tekur undir sjónarmið SA. Þegar langt er liðið á viðtalið þá lýsir seðlabankastjóri því yfir að bankinn vilji fylgja tilmælum Fjármálaeftirlitsins frá því í júlí á síðasta ári eftir með afdráttarlausum hætti. Eins og sagði þá beindi eftirlitið því til lífeyrissjóða að það verði skýrt betur hvernig, hvort og við hvaða aðstæður skipta megi stjórnarmönnum lífeyrissjóða út. Segir Ásgeir að Seðlabankinn ætli að krefjast svara um hvernig sjóðirnir ætli að koma í veg fyrir að umboð stjórnarmanna geti verið afturkallað fyrirvaralaust. Í framhaldinu spyr Ásgeir hvernig stjórnarmaður getur verið sjálfstæður þegar hægt er að skipta honum út hvenær sem er vegna þess að tilnefningaraðilanum líkar ekki við ákvarðanir hans? Síðan lýsir seðlabankastjóri því yfir að hann vilji að bankinn fái auknar heimildir til inngripa. Í því sambandi hefur Ásgeir nefnt nýja lagasetningu svona eins og að hann hafi eitthvað lagasetningarvald í landinu. Af orðum Ásgeirs að dæma þá stefnir hann að ægivaldi yfir frjálsum samtökum á fjármálamarkaði.

Hér tel ég að Seðlabankinn sé kominn út fyrir sitt vald- og verksvið og reyni án lagastoðar að skipta sér að því hvernig frjáls samtök eins og lífeyrissjóðir hagi sínum málum og hvert innihald samþykkta er. Um leið er bankinn að ganga erinda SA sem á enga lögvarða hagsmuni innan lífeyrissjóðanna. Stéttarfélög hafa aftur á móti beina hagsmuni af því að stjórnarmenn starfi eftir þeim viðmiðum sem sett eru og gæti hagsmuna sjóðfélaga og þar með félagsmanna VR. Ef það kemur í ljós að stjórnarmenn eru ekki starfi sínu vaxnir af fjölbreytilegum ástæðum og fara út fyrir heimildir þá verður að vera hægt að skipta þeim út fyrirvaralaust. Í þessu sambandi skal aftur vitnað í áðurgreindan dóm þessu til stuðnings.

Lífeyrissjóðir eru frjálsar og fyrirferðamiklar stofnanir sem fara með geipilega hagsmuni fyrir hönd sjóðfélaga og launþega landsins. Þess vegna verður að vera hægt að afturkalla umboð stjórnarmanna með litlum fyrirvara ef tilefni er uppi. Það er beinlínis hættulegt að skipa málum þannig að ekki sé hægt að gera breytingar á stjórnum innan skipunartíma hennar. Í þessu sambandi þá vil ég enn og aftur nefna ofangreindan Héraðsdóm vegna þess að dæmið er nærtækt og svo lýsandi um aðstæður sem geta komið upp. Hægt væri að vísa í fleiri dóma, en þessi eina tilvísun dugar tilefninu.

Umræddur dómur og sú sátt sem hann leiddi til sýnir vel hversu risavaxnar fjárhæðir eru undir þegar lífeyrissjóðir eru annars vegar. Fjárhæðirnar geta hlaupið á risavöxnum tölum. Dómurinn varpar skýru ljósi á það hversu bráðnauðsynlegt það er fyrir tilnefningaraðila að geta afturkallað umboð stjórnarmanna með stuttum fyrirvara og jafnvel fyrirvaralaust. Ef tillögur SA og þar með Seðlabankans verða að veruleika þá væri ekki hægt að grípa inn í þegar hætta steðjar að hagsmunum sjóðfélaga. Sjóðfélagar gætu verið læstir inni með óhæfa stjórn þar til skipunartími hennar líður hjá. Það út af fyrir sig gæti rýrt inneign sjóðfélaga umfram þann skaða sem þegar gæti hafa átt sér stað vegna skaðlegrar framgöngu stjórnarmanna. Aðstæður gætu verið uppi um að engan tíma megi missa til að verja stóra hagsmuni sjóðfélaga. Það er því hættulegt að stefna að því að skipa málum þannig að ekki sé hægt að bregðast hratt við. Hugmyndir SA og Seðlabankans eru vanhugsaðar og misráðnar. Þær virðast mótaðar af fyrirlitningu í garð tiltekinnar persónu í stjórn VR og þrá SA að ráða yfir lífeyrissjóðum landsins.

Hvað hlutafélög varðar þá geta hluthafar sem hafa til þess atkvæðavægi skipt stjórnarmönnum út með litlum fyrirvara með því að boða til aukafundar hluthafa. Ýmsar veigamiklar ástæður geta legið þar að baki eins og að bjarga verðmætum eða forðast fjártjón. Sama verður að eiga við um skipun stjórnar lífeyrissjóða. Hugmynd Seðlabankans og SA er úr takti við lög um hlutafélög. Tilnefningaraðilar lífeyrissjóða verða að hafa sömu möguleika á inngripum vegna gæslu á hagsmunum sjóðfélaga á sama hátt og hluthafar geta. 

Framganga Seðlabankans er undarleg. Hún ber vott um að bankinn er kominn út í vinnumarkaðspólitík og blandar sér með óyggjandi hætti inn í deilur milli tilnefningaraðila. Deilur sem hann á ekkert erindi í. Á ferðinni eru deilur aðila sem gæta ólíkra hagsmuna. SA er í forsvari fyrir fyrirtæki sem sækjast í fjárfestingafé hjá sjóðunum á meðan VR hlúir að hagsmunum launþega sem eiga sjóðina. Bankinn hefur tekið skýra og stórundarlega afstöðu með SA án þess að leita eftir sjónarmiðum gagnaðilans eða veita honum andmælarétt. Ég hef fengið það staðfest frá formanni VR, samanber afrit af samskiptum á fylgiskjali merkt B, að Seðlabankinn gaf stjórn VR ekki tækifæri til að tjá sig um kvartanir SA. Þar með hefur bankinn ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni og hlutleysi. Hvoru tveggja er grafalvarlegt!

Seðlabankinn er hvorki dómstóll né málsaðili. Hans hlutverk er að gæta að því að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við lög. Hann á ekki að stjórnast í því hvað stendur í samþykktum frjálsra samtaka og sjóða enda hefur hann ekki lagaheimild til þess. Samþykktir LV eru í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti alveg eins og samþykktir hlutafélaga eru almennt.

Lögum samkvæmt þá skal Seðlabankinn vera sjálfstæður í verkum sínum. Hann á líka að stuðla að trausti á fjármálamarkaði og fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög. Með aðkomu sinni og skýrri afstöðu til deilumáls tilnefningaraðila þá hefur bankinn bæði fargað sjálfstæðinu og grafið undan trausti á fjármálamarkaði vegna þess að hann talar máli aðila sem á enga lögvarða hagsmuni innan lífeyrissjóða. Bankinn hefur ekki staðist utanaðkomandi þrýsting sérhagsmunasamtaka og er orðinn leiksoppur deiluaðila. Í þessu samhengi þá lýtur stjórn VR ekki eftirliti Seðlabankans.  Hún má haga sinni tjáningu að vild og afturkalla umboð stjórnarmanna LV ef tilefni er uppi.

Tilburðir Seðlabankans eru til þess fallnir að hamla eftirlitshlutverki stjórnar VR og setja stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi forystumanna stéttarfélaga skorður. Skoða verður hegðun bankans út frá lögmæti og athuga hvort hún falli að lögmætisreglu stjórnsýslulaga, rannsóknarreglunni, hlutleysiskröfunni  sem gerð er til stjórnsýslunnar og reglunni um andmælarétt málsaðila. Síðan má athuga með það hvort seðlabankastjórinn hafi gætt meðalhófs þegar hann rauk í breiðsíðuviðtal hjá víðlestnasta blaði landsins og setti fram bólgnar yfirlýsingar sem stríða gegn hagsmunum sjóðfélaga.  

Sjálfstæði stjórnarmanna

Holt er að skoða stöðu stjórnarmanna út frá þeirra eigin sjónarhóli. Látið er eins og stjórnarmenn búi ekki yfir eigin hyggjuviti og getu til að sortera út réttar og nauðsynlegar upplýsingar til að taka bestu mögulegu fjárfestingarákvörðun hverju sinni. Inn í slíkt mat kemur aragrúi upplýsinga, fjölmörg viðhorf, margvísleg viðmið og tjáning frá hinum og þessum. Ekki er hægt að láta eins og stjórnarmenn lífeyrissjóða búi ekki í sama samfélagi og sjóðsfélagarnir eða í einhverju tómarúmi. Þeir verða varir við gang mála úr öllum áttum og þeir sía síðan út viðeigandi upplýsingar til að undirbyggja ákvarðanir og stöðumat.

Ég leyfi mér að halda því fram að engin sem launþegahreyfingin hefur tilnefnt í stjórnir líti á það sem starfsferil að sitja í stjórn lífeyrissjóðs þó endurgjaldið sé myndarlegt. Telji viðkomandi sig beittan utanaðkomandi þrýstingi sem ekki er hægt að búa við þá á hinn sami alltaf möguleika á því að óska lausnar frá stjórnarsetu. Þetta virkar nefnilega í báðar áttir. Alveg eins og gerist með hlutafélög. Traust til stjórnarmanna hefst með tilnefningu og helst þar til annað kemur í ljós af margvíslegum ástæðum. Þetta traust takmarkar aftur á móti ekki tjáningarfrelsi tilnefningaraðila eða heimild til að skipta stjórn eða stjórnarmanni út þegar slíkt tilefni kemur upp. Það má færa fyrir því sterk rök að stjórnarmenn vilji heyra fjölbreytileg rök með og á móti tilteknum fjárfestingarkostum áður en endanleg fjárfestingarákvörðun er tekin. Augu sjá betur en auga. Þannig er gangverk fjármálamarkaðarins í lýðræðisríkjum sem búa við tjáningarfrelsi. Það er beinlínis heilbrigðismerki að sem flestir tjái sig um málefni lífeyrissjóða á opinberum vettvangi. Það er alla daga ársins betra enn að stunda ráðabrugg í lokuðum klíkuherbergjum um hvernig ráðstafa eigi lífeyrissparnaði landsmanna eins og SA virðist óska sér. Í þessu sambandi nægir að rifja upp reynslu þjóðarinnar frá árunum fyrir hrun og nýleg hryggðardæmi frá Bakka við Húsavík og United Silicon í Helguvík. Þar hefði betur verið hlustað á opinber varnaðarorð frá samfélaginu. Sama á við í dag um Icelandair. Skoða verður allar hliðar mála, en hlusta ekki bara sérhagsmunaáróður.

Stjórnarmenn eru ekki einhverjar strengjabrúður. Á endanum þá leggja stjórnarmenn sig fram um að taka bestu ákvörðun og út frá settum markmiðum sjóðanna og samfélagslegri ábyrgð. Svo má ekki gleyma því að stjórnarmenn bera ábyrgð í samræmi við eigin atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum.

Kvörtunin

Ég vil kvarta yfir því að Seðlabankinn er að mínu viti kominn út fyrir sitt verk- og valdsvið og út fyrir sínar lagaheimildir. Hann er farinn að skipta sér að skipan mála hjá frjálsum samtökum sem lífeyrissjóðir eru. Ég tel að framganga bankans samrýmist ekki fjölmörgum reglum stjórnsýsluréttarins eins og ég rakti hér ofar í bréfinu. Lögmætisregla stjórnsýslulaga kallar á mann, en samkvæmt henni þá hvorki á eða má bankinn fara út fyrir valdsvið sitt að lögum.

Í ársskýrslu sinni frá árinu 2004 þá hafði Umboðsmaður Alþingis þetta að segja um lögmætisregluna „….  Er þetta til marks um að í þessum málum hefur reynt á það álitaefni hvort nægjanleg lagaheimild stæði til afskipta eða ákvarðana stjórnvalda eða hvort það sem gert var af hálfu stjórnvalda hafi verið í samræmi við lög. Í íslenskum rétti er það meginregla að stjórnsýslan er lögbundin og að starfsemi stjórnvalda verður að vera í samræmi við lög og eiga í þeim fullnægjandi stoð. Þessi regla er í fræðunum nefnd lögmætisregla“.

Síðar segir UA orðrétt „Þegar fjallað er um álitaefni sem lúta að því hvort fyrir hendi sé nauðsynleg lagaheimild til tiltekinnar starfsemi stjórnvalda eða afskipta af málefnum borgaranna og hvort athafnir stjórnvalda séu í samræmi við efni laganna verður að gera skýran greinarmun á lagaheimildinni annars vegar og svo hinu hvort viðkomandi starfsemi sé æskileg eða eftirsóknarverð. Það er einfaldlega svo að þar sem lögmætisreglan á við hafa stjórnvöld og þá einstakir fyrirvarsmenn þeirra ekkert val, það verður að fylgja leikreglunum“.

Og að endingu segir UA „mikilvægi þess að þeir sem fara fyrir í störfum stjórnvalda gæti betur að því að skilyrði lögmætisreglunnar séu uppfylltar þegar stjórnvöld hafa afskipti af málefnum borgaranna.  …… Þá vekur UA sérstaklega athygli á mikilvægi þess að stofnanir haldi sig innan valdheimilda sinna og þá einnig gagnvart öðrum stofnunum sem fara með skyld verkefni“.

Ég vil gera þessi orð að mínum um leið og ég góðfúslega óska eftir því að UA taki kvörtun mína til efnislegrar meðferðar og taki af skarið í þessu sérlega mikilvæga máli. Hagsmunir sjóðsfélaga landsins eru undir eða bróðurpartur landsmanna.

Reykjavík 27. júlí 2020

Jóhann Þorvarðarson

Yfirlýsing stjórnar VR frá 17. Júlí 2020

Tilkynning frá Flugfreyjufélagi Íslands frá 17. Júlí 2020

Yfirlýsing stjórnar VR frá 24. Júlí 2020

Fylgiskjal B

Bréf Samtaka atvinnulífsins til Seðlabanka Íslands dagsett 21. Júlí 2020

            Bréfið er að finna undir þessari url slóð:

https://sa.is/media/26883/bref-til-si-vegna-live-21072020.pdf

Samskipti mín við Ragnar Þór Ingólfsson formann stjórnar VR dagsett 27.júlí 2020Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: