Fréttir

Segir Sigríði Andersen ljúga

Björn Leví Gunnarsson spyr hvort siðareglur séu einungis til skrauts. „Eru siðareglur ráðherra bara kökuskraut?“

By Miðjan

January 30, 2018

Alþingi „Svo er það vandi dómsmálaráðherra vegna málsins um skipan dómara, hvernig sá ráðherra hefur logið um atkvæðagreiðslu heils þingflokks, hvernig sá ráðherra hefur aftur og aftur komið fram í fjölmiðlum með villandi skilaboð, þvælu og ásakanir um að mál séu öðrum að kenna og allir aðrir skilji málið bara rangt,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata á Alþingi fyrr í dag, þegar hann talaði um siðareglur ráðherra.

„Mér finnst augljóst að siðareglur ráðherra hafi verið brotnar og að forsætisráðherra eigi að leiðbeina ráðherrum á einhvern hátt í svona málum,“ sagði hann.

„Eru siðareglur ráðherra bara kökuskraut? Kökuskraut af því að þrátt fyrir augljóst brot eru bara skipaðar nefndir, málin þvæld, tafin og gert lítið úr þeim með óljósum samanburði við fyrri dæmi, sem voru þvæld og tafin á sama hátt til þess að forðast ábyrgð og leiða af sér áframhaldandi afskipta- og ábyrgðarleysi. Með því að axla ekki ábyrgð núna eru ráðherrar að búa til fordæmi fyrir framtíðina, framtíð þar sem þeir munu heldur ekki kunna að axla ábyrgð, framtíð þar sem áfram verða stofnaðar nefndir sem gera síðan ekki neitt, þrátt fyrir siðareglur, þrátt fyrir fögur fyrirheit um ábyrgð og traust.“