- Advertisement -

Segir þetta alveg galið og er voða hissa

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Og frumábyrgðin liggur hjá Katrínu Jakobsdóttur. Hún fer með málefni Seðlabankans. Fram hjá þessu verður ekki litið sama hversu mikið er reynt að snúa upp á sannleikann.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar er fjólublátt umslag utan um óbreytt ástand.

Elva Hrönn Hjartardóttir, stjórnarmaður í Vinstri grænum, segir í viðtali á Vísi að verðhækkanir á fasteignamarkaði séu galnar. Íbúðarkaup hafa verið á dagskrá hjá henni og manni hennar í á annað ár og hefur þeim ekki tekist að festa kaup á íbúð. Hafi lotið í lægra haldi fyrir yfirboðum. Viðbrögð hennar eru dæmigerð fyrir núverandi stjórnarflokka, sem farið hafa með völd í á fimmta ár. Flokkarnir aðhyllast viðbragðastjórnun í stað fyrirhyggju, stefnumörkunar og breytinga á grunnskipulagi hagkerfisins. Sáttmáli ríkisstjórnarinnar er fjólublátt umslag utan um óbreytt ástand. Aðeins verður brugðist við óþægilegum dægurflugum, sem eru í brennidepli hverju sinni.

Elva Hrönn segist hafa fylgst með fasteignamarkaðnum í á annað ár og því getur þróun mála ekki komið henni á óvart. Að hún tali um galna stöðu er það sem er í raun galið. Svo er það hitt að ég hef ekki tekið eftir að hún hafi látið fasteignamál sig varða í opinberri umræðu fyrr en hún sjálf lendir í hríðarbylnum. Storminum sem herjar á fasteignamarkaðinn.  Elva Hrönn er svo sem eins og aðrir stjórnarmenn Vinstri grænna því það má ekki gagnrýna hina heilögu Katrínu Jakobsdóttur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á árinu 2019 þá var altalað að það stefndi í offramboð á fasteignamarkaði og bankarnir drógu í land með lánveitingar. Þetta staðfesta opinber gögn. Síðan gerir Katrín forsætisráðherra og Vinstri græn þau afdrifaríku mistök að skipa mann sem seðlabankastjóra sem á sér vafasama fortíð. Þar á ég ekki við að maðurinn hafi í tvígang verið ásakaður um ritstuld, sem hann hefur ekki geta borið af sér. Heldur hitt að hann býr ekki yfir nauðsynlegum verðleikum til að stýra Seðlabanka.

Núverandi seðlabankastjóri og aðrir ákvarðanatakar innan bankans lækkuðu vexti samhliða því að afnema sveiflujöfnunarauka banka á árinu 2020. Við það losnuðu yfir 300 hundruð milljarðar króna, sem ruddust stjórnlaust inn á fasteignamarkaðinn og sópuðu upp framboðið. Afleiðingarnar voru fyrirséðar. Það dugar því lítt fyrir Elvu Hrönn að þykjast vera hissa. Það væri nær að hún axli ábyrgð á eigin sofandahætti. Yfirreið auðfólks um fasteignamarkaðinn og taumlaus verðbólga er á ábyrgð Vinstri grænna. Og frumábyrgðin liggur hjá Katrínu Jakobsdóttur. Hún fer með málefni Seðlabankans. Fram hjá þessu verður ekki litið sama hversu mikið er reynt að snúa upp á sannleikann.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: