
Nauðsynlegt er að taka ekki mark á orðum sérgræsluhvutta eða öðrum áróðri Fréttablaðsins.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Helgi Vífill Júlíusson, sonur Júlíusar Vífils sem fengið hefur dóm fyrir peningaþvætti, var með áróðursviðtal við tvo hagfræðinga innan úr sérgæslusveit Samtaka atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu í dag. Eins og áður þá eru settar fram hugsanir sem byggja á úreltum hagfræðilausnum. Úrræði sem vinna gegn almannahagsmunum og viðhalda samdrættinum í hagkerfinu, draga atvinnuleysi á langinn. Skoðanir hagfræðinganna eldast mjög illa og eru í raun farnar að sýna djúpar hrukkur hnignunar. Fréttablaðið hirðir ekki um slíkt enda eru eigendur blaðsins framverðir sérgæslu á Íslandi.
Anna Hrefna Ingimundardóttir Engeyjarrós teflir enn og aftur fram hagfræðilegri fortíð. Segir nauðsynlegt að koma atvinnulífinu í eðlilegt horf á sama tíma og hún berst fyrir hlutabótaleiðinni. Leið sem dregur stórlega úr hreyfanleika vinnuafls og seinkar endurskipulagningu ferðaþjónustunnar. Úrræði bindir launafólk vistarböndum við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hlutabótaleiðin og laun í uppsagnarfresti hafa reynst vera hvalreki fyrir ferðaþjónustuna enda er ríkið að niðurgreiða laun innan greinarinnar. Þar inn í eru öll Kynnisferðafyrirtækin sem er í hlutaeigu ættar Önnu Hrefnu og fjármálaráðherra. Og ekki skal Bláa lónið ónefnt þar sem eiginkona utanríkisráðherra er hluthafi.

„Síðan talar elítukonan gegn umsömdum launahækkunum að hætti hússins í Borgartúni 35.“
Síðan talar elítukonan gegn umsömdum launahækkunum að hætti hússins í Borgartúni 35. Hún heldur áfram að bulla og segir að beiting ríkisfjármálanna til að halda uppi atvinnu sé ekki góð leið. Með öðrum orðum þá vill hún heldur draga atvinnuleysi á langinn og minnka eftirspurn meira en orðið er eins og sagði. Hennar hugmyndir stríða gegn skilaboðum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) um að beita skuli akkúrat ríkisfjármálum til að koma hagkerfum heimsins aftur í hagvöxt og til að auka tekjujöfnuð þjóðfélagsþegna.
Síðan er viðtal við Agnar Tómas Möller sjóðstjóra hjá Kvikubanka, sem er stjórnað úr hornskugga af Ármanni Þorvaldssyni hrunameistara Kaupþings. Agnar Tómas teflir líka fram úr sér gegnum hugmyndum og segir orðrétt „Rannsóknir sýna að þegar skuldsetning fer yfir 60-70 prósent af landsframleiðslu byrjar það að hamla hagvexti , með því að ryðja úr vegi einkafjárfestingum“. Hann gleymdi alveg að fjalla um að traust ríki eins og Ísland fá í dag lán með vöxtum sem liggja niður að núll prósentinu. Eitthvað sem ekki var til staðar þegar tilvísaðar rannsóknir voru gerðar, sem þar með ómerkir rannsóknirnar. Bandaríkjamenn hafa ekki áhyggjur af þessu úrelta sjónarmiði og stefnir skuldsetning þar vestra í að nálgast 107 prósent á næsta ári. Í dag þegar fjárfestingar í hagkerfinu hafa dregist saman þá er það einmitt hlutverk ríkisins að stíga inn og sveiflujafna með fjárfestingum. Fjárfesta til dæmis í vegagerð og menntun sem gagnast einkareknum fyrirtækjum.
Nauðsynlegt er að taka ekki mark á orðum sérgræsluhvutta eða öðrum áróðri Fréttablaðsins.