Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Á dögunum ritaði Gylfi Zoëga „Nauðsynlegt er að virkir vextir Seðlabankans hækki nægilega til þess að raunvextir hans verði jákvæðir að nýju“. Þetta er sama viðhorf og Katrín Ólafsdóttir setti fram á umliðnu ári er hún sagði „Við getum ekki verið með neikvæða raunvextir til lengri tíma“. Ef við horfum til Bandaríkjanna þá hafa raunstýrivextir verið neikvæðir í um 70% tímans sem af er öldinni, samanber línuritið. Á sama tíma minnkaði atvinnuleysi, fyrir utan tíma fjármálahrunsins og kóvít-19 faraldurinn. Framleiðni hagkerfisins jókst öll árin fram að faraldri.
Sömu sögu er að segja af evrusvæðinu. Landið sem trónir síðan á toppi framleiðninnar í heiminum er evrulandið Lúxemborg. Þar hafa raunstýrivexti verið neikvæðir stóran hluta aldarinnar. Danmörk hefur einnig verið með neikvæða stýrivexti síðan árið 2014. Það sama má segja um Svíþjóð svo ég dragi enn annað land upp úr hattinum.
Í umræðu um verðbólgu í heiminum þá hafa seðlabankar allt í kringum okkur aldrei nefnt, svo ég hafi tekið eftir, nauðsyn þess að stefna á jákvæða raunstýrirvexti. Skoðun Gylfa og Kristínar er því séríslensk jaðarskoðun og vaknar spurning um hverra erinda þau ganga. En skiptir þetta máli? Já, Gylfi situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem ákvarðar stýrivexti í landinu. Og Kristín sat í nefndinni þar til nýlega. Jaðarskoðunin hefur því greiðan aðgang inn á fundi nefndarinnar. Ef bankinn stefnir á jákvæða raunvexti þá erum við að horfa á stýrivexti sigla upp undir 10% á næstu tveimur til þremur misserum því verðbólga er ekki í rénum. Jafnvel þó verðbólga taki að hjaðna á næsta ári þá munu stýrivextir vera í kringum 6% um nokkra hríð því við munum ekki sigla inn í lágverðbólgu umhverfi eins og var lengi á síðasta áratug.
Í samhenginu þá vil ég minna á að stýrivextir fóru upp í 18% við fjármálahrunið og það tók bankann um 2 ár að ná stýrivöxtunum niður fyrir 5%. Hann átti síðan í hinum mestu erfiðleikum með að halda þeim undir þessum 5%. Það var ekki fyrr en í aðdraganda heimsfaraldursins að bankanum tókst að fara neðar með vextina enda var það eitt af síðustu verkum Más Guðmundssonar, þáverandi seðlabankastjóra, að búa í haginn fyrir þær vaxtalækkanir sem urðu á árunum 2019 til 2021.