Greinar

Sjáið þið ekki veisluna?

By Gunnar Smári Egilsson

March 13, 2021

Gunnar Smári skrifar:

Sjáið þið ekki veisluna! hrópaði Árni Mathiesen á þingi stuttu fyrir Hrun þegar stefna Hrunstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var gagnrýnd. Í vikulokum Ríkisútvarpsins áðan kom Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar með viðlíka upphrópun; vildi fagna viðreisn íslensks hagkerfis með því að benda á metsölu í pallaefni og heitum pottum. Eins og Árni fyrir Hrun kveikir Sigurður Ingi ekki á að eyðsla hinna betur settu er ekki merki um hagsæld, oftast þvert á móti. Hækkandi húsnæðisverð og metsala á pallaefni eru einkenni vondrar efnahagsstjórnar þar sem aðstoð hins opinbera fer ekki til hinna þurfandi heldur eykur fjárráð hinna best settu og ýtir undir eyðslu þeirra, sem þenur upp eignaverð og veldur bólgueinkennum. Slík stefna eykur vandann, sem er fyrst og fremst aukinn ójöfnuður sem grefur undan samfélaginu.