- Advertisement -

Sjálfsblekkingin

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það sem við sjáum núna er birtingarmynd sjálfsblekkingar um að íslensk króna gagnist til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Þorri þjóðarinnar er að greiða það dýru verði að valdhafar lifa í blekkingu.

Seðlabanki Íslands hélt áfram leiðangri sínum og hækkaði stýrivexti fyrr í dag. Íslensku vextirnir turna nú vexti allt í kringum okkur samanber gula súlan á myndinni. Hátt vaxtarstig á Íslandi verður ekki réttlætt með hærri verðbólgu en hjá samanburðarlöndunum. Hún er til dæmis hærri í Bandaríkjunum og álíka mikil og í Kanada samanber taflan.

Aðeins einn annar þróaður seðlabanki hefur séð ástæðu til að hækka stýrivexti, en það gerði Seðlabanki Nýja Sjálands í nótt. Vextirnir öndvert eru hálft prósent eða þrefalt lægri en á Íslandi. Öll samanburðarlöndin búa við sömu ytri aðstæður: framboðsbrestur, hækkandi olíuverð og aukinn flutningskostnaður vegna ástandsins í Austur Asíu. Hagkerfi heimsins eru brothætt og hefur fasteignaverð hækkað víðar en á Íslandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í yfirlýsingu Seðlabanka Nýja Sjálands þá telur bankinn ekki ástæðu til að fara með stýrivextina hærra þó svo að bankinn spái að verðbólga fari yfir 4 prósent á næstu mánuðum. Þá spyr maður sig, af hverju eru íslensku vextirnir miklu hærri? Á því er bara ein skýring, ótrúverðug íslensk króna.

Seðlabankinn hefur haldið uppi fölsku gengi með fordæmalausum inngripum á gjaldeyrismarkaði. Ég tel að bankinn sé kominn í þá stöðu að geta ekki gripið mikið meira inn í án þess að það valdi óverjandi ytri áhættu hagkerfisins, þjóðhagsvarúð. Til að styrkja krónuna og draga úr verðbólguþrýstingi þá er ábyrgðinni núna varpað á skuldug heimili og fyrirtæki. Hliðarverkunin er að vaxtahækkanirnar kalla fram aukið atvinnuleysi að óbreyttu, en það er einmitt það sem vinir okkar á Nýja Sjálandi hafa áhyggjur af. Síðan draga hærri vextir en annars staðar úr samkeppnishæfni landsins.

Það sem við sjáum núna er birtingarmynd sjálfsblekkingar um að íslensk króna gagnist til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Þorri þjóðarinnar er að greiða það dýru verði að valdhafar lifa í blekkingu.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: