- Advertisement -

Sjálfshól Ágústar Bjarna er þrugl

Jóhann Þorvarðarson:

Hvort þetta er toppurinn á ísjakanum í þeirri viðleitni landa að grípa til einangrunarhyggju til að efla eigið fæðuöryggi er áríðandi spurning því öfgarnar eru ekkert að fara.

Framsóknarþingmaðurinn óreyndi, Ágúst Bjarni Garðarsson, þakkar aðgerðum stjórnvalda að verðbólga er að koma niður. Þingmaðurinn veður reyk með tjáningunni.

Verðlag lækkaði ekki í júlí heldur stóð það í stað samanborið við júnímánuð svo því sé haldið til haga. Það leiddi til lækkunar ársverðbólgu niður í 7,6 prósent því fleiri mánuðir eru nú með lægri mæligildi að jafnaði en fyrir mánuði síðan. Til samanburðar þá er bólgan aðeins 2,5 prósent í Danmörku. Þannig að stjórnvöld hafa ekki skapað Íslendingum sömu skilyrði og Danir búa við í þessum efnum. Verðbólga í heiminum er síðan almennt á niðurleið burt séð frá því hvað íslensk stjórnvöld gera.

Það sem veldur helst stöðnun verðbólgunnar í júlí eru árlegar útsölur, sem einnig hafa ekkert með stjórnvöld að gera. Og svo er það smávægileg lækkun reiknaðrar húsaleiga. Hefðu stjórnvöld staðið sig í stykkinu í húsnæðismálum þá hefði fasteignarverð aldrei rokið upp úr öllu valdi á umliðnum árum. Eldtungur verðbólgunnar hefðu þá ekki teygt sig til himna. Að tala svo um að aðgerðir stjórnvalda séu að virka er eins og að klappa brennuvargi lof í lófa fyrir að hjálpa til við að slökkva eldana sem hann sjálfur kom af stað. Ágúst Bjarni er því staðinn að aumlegri tilraun til að hampa brennuvörgum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Segja má því að staðan sé bæði snúin og tvísýn.

Þingmaðurinn áttar sig ekki heldur á því að blikur eru á lofti því undirliggjandi verðbólga hefur sýnt þrjósku víða í kringum okkur alveg eins og á Íslandi. Hún jókst til dæmis um 0,4 prósent samkvæmt nýjustu mælingum evrusvæðisins og veldur því að almenna bólgan er jöfn kjarnaverðbólgu. Áþekka sögu má segja um Bretland. Þetta er áhyggjuefni því heimsmarkaðsverð á olíu er á miklu skriði upp á við á sama tíma og lönd eins og Indland setur útflutningsbann á hrísgrjón vegna uppskerubrests af völdum veðuröfga. Hvort þetta er toppurinn á ísjakanum í þeirri viðleitni landa að grípa til einangrunarhyggju til að efla eigið fæðuöryggi er áríðandi spurning því öfgarnar eru ekkert að fara.

Staðan sem gæti komið upp er að framboð minnki án þess að eftirspurn breytist og ekki er endilega víst að hægt sé að finna staðkvæmdarvörur og þá í nægilegu magni. Þetta veldur að öllu öðru jöfnu nýrri verðbólgu. Ógnin bætist ofan á hótanir Rússa um að stöðva útflutning á landbúnaðarvörum frá gresjum Úkraínu. Segja má því að staðan sé bæði snúin og tvísýn.

Þá hingað heim, en kjarasamningar losna brátt og þá mun launþegahreyfingin krefjast hækkana sem í það minnsta mun bæta upp umfram verðbólgu á yfirstandandi samningstíma og að auki taka tillit til verðbólguvæntinga, sem eru miklar nú um stundir.

Við gætum því verið að horfa upp á nýja verðbólgudrífu, sem leggst ofan á verðbólgugólf sem liggur hátt. Jafnvel á þriðju hæð frekar en niður í kjallara. Risið á verðbólgugólfinu er afleiðing slæmrar efnahagsstjórnunar valdhafa og ekki er uppi neitt tilefni til að dansa húlúdans stjórnvöldum til dýrðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: