- Advertisement -

Sjálfshólsblinda fjármálaráðherra

Ráðherranum þótti ekki ástæða til að minnast á þessa hlið málsins heldur snýr hann öllu á hvolf.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í vikunni þá skrifaði fjármálaráðherra grein í Moggann undir heitnu „Rétta leiðin“. Í greininni segir að í nýlegu skuldabréfaútboði Ríkissjóðs þá hafi árangurinn verið sá að lánið beri núll prósent vexti. Ráðherrann klukkar síðan út með því að fullyrða að þetta sé til marks um að erlendir fjárfestingarsjóðir vilji geyma fé á Íslandi vaxtalaust vegna trausts sem Ísland njóti á erlendum mörkuðum.

Það hefur vart farið fram hjá landsmönnum að erlendir aðilar hafa verið að yfirgefa krónuhagkerfið á umliðnum misserum. Svo hratt hafa þeir viljað yfirgefa krónuna að Seðlabanki landsins sá sig knúinn til að tappa af gjaldeyrisforða landsins og selja krónur fram hjá markaðnum. Krónan þoldi ekki að þessir aðilar yfirgæfu krónu hagkerfið í gegnum gjaldeyrismarkað bankanna. Svo er skuldabréfið sem ráðherrann talar um í evrum og það út af fyrir sig er einnig til marks um að erlendir fjárfestingarsjóðir vilja ekki koma nálægt krónunni. Sjóðirnir hafa ekki áhuga á gengisáhættunni sem fylgir myntinni. Fyrir vikið þá hvílir öll gengisáhætta á herðum Íslendinga. Ráðherranum þótti ekki ástæða til að minnast á þessa hlið málsins heldur snýr hann öllu á hvolf. Talar um minnkun áhættu fyrir Ísland með evru skuldabréfinu. Ráðherrann er þjakaður af sjálfshólsblindu og rangtúlkar hlutina fyrir vikið. Honum þótti heldur ekki tilefni til að minnast á að með erlendu lántökunni þá er verið að styrkja krónuna og halda uppi fölsku gengi. Aftur á móti er um skammgóðan vermi að ræða, sem snúast mun upp í andhverfu sína síðar meir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ráðherrann er þjakaður af sjálfshólsblindu og rangtúlkar hlutina fyrir vikið.

Að skuldabréfið beri núll prósent vexti er ekki til marks um eitthvað traust í garð Íslands. Það er einfaldlega svo að algengt er innan evru svæðisins og víðar að gefin séu út skuldabréf á núll prósent vöxtum. Slík bréf kallast „zero coupon bonds“ og greiðast þau út með afföllum. Það sem ræður útgreiddri fjárhæð er ávöxtunarkrafan sem gerð er til skuldabréfsins. Afföllin eru mismunur nafnverðs bréfsins og núvirði þess metið út frá umræddri ávöxtunarkröfu. Hjá erlendu fjárfestingarsjóðunum þá var bara um venjubundin viðskipti vaxtalauss skuldabréfs að ræða. Ekkert sérstakt var þarna á ferðinni og ekki um íslenska sérsauma að ræða. Ráðherrann gefur þó annað í skyn.

Skuldabréfið sem ráðherrann stærir sig af ber ávöxtunarkröfu upp á 0,117 prósent og er lánið því ekki án kostnaðar. Þegar bréfið var gefið út í janúar þá báru öruggustu skuldabréfin á evru svæðinu aftur á móti neikvæða ávöxtunarkröfu eða mínus 0,679 prósent. Fjárfestingarsjóðir gripu því tækifærið fegins hendi þegar Ríkissjóður Íslands fór í sitt skuldabréfaútboð því möguleiki var á jákvæðri ávöxtunarkröfu. Sjóðirnir bættu þannig lánskjör sín um tæplega 0,8 prósent. Líta ber á bætinguna þannig að Ísland sé talið áhættu meira en flest evrulönd og traust fyrirtæki. Grein ráðherrans var ekkert annað en léleg sölumennska. Gerir ekkert annað en að villa um fyrir fólki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: