
Jóhann Þorvarðarson:
Verst af öllu er þó það að allt of margir kjósendur láta blekkjast, en það hefur valdið heimilum efnahagslegum stórskaða undanfarna áratugi.

Maður þarf ekki að rýna sögulegar verðbólgutölur lengi til að átta sig á að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru sannkallaðir verðbólguflokkar. Eru óstöðugleikaflokkar þó svo að þeim hafi tekist að halda öðru fram með fölskum áróðri. Verst af öllu er þó það að allt of margir kjósendur láta blekkjast, en það hefur valdið heimilum efnahagslegum stórskaða undanfarna áratugi.
Árið 1990 var gerð þjóðarsátt gegn stjórnlausri verðbólgu og tók það um fimm ár að njörva hana niður. Þegar best lét í árslok 1994 þá mældist bólgan núll prósent. Þar að baki voru fórnir og öguð hegðun landsmanna. Hér hjálpaði líka til að Ísland naut góðs af nýfenginni aðild að Evrópska efnahagssvæðinu: fjórfrelsið og afnám viðskiptamúra.
Sérhagsmunir og græðgi er sett ofar almannahagsmunum.
Taumarnir sem héldu verðbólgunni niðri byrjuðu aftur á móti að trosna þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn voru búnir að undirbúa jarðveginn fyrir innrás nýfrjálshyggjunnar og einkavinavæðingu Búnaðar- og Landsbanka. Frá aldamótum og fram til hruns nýfrjálshyggjunnar árið 2008 þá vor árlegar verðhækkanir að jafnaði yfir 6 prósentum á Íslandi á sama tíma og þær fóru vart yfir 2 prósentin í Danmörku. Tímabilinu lauk síðan með tæplega 19 prósent bólgu samanber myndin sem fylgir.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tókst að koma verðbólguskrattanum niður undir 3 prósentin í eftirmála fjármálahrunsins þar sem taka þurfti krónuna af frjálsum markaði og leggja inn á gjörgæsludeild Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í Washingtonborg. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn komust síðan aftur að ríkisstjórnarborðinu árið 2013 og er verðbólgan aftur komin yfir 10 prósentin. Hér leggja Vinstri græn auðvitað sitt lóð á vogarskálina með óverjandi ákvörðunum um mönnun æðstu starfa hjá Seðlabanka Íslands.
Það er í raun alveg sama hvernig horft er á verðbólgutölur landsins því seta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar við ríkisstjórnarborðið leiðir landið ætíð í ógöngur svo ég nefni nú ekki hið hnignandi siðferði. Sérhagsmunir og græðgi er sett ofar almannahagsmunum. Týra er þó fram undan þar sem æ fleiri hallast að aðild að Evrópusambandinu.