- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkur skilaði auðu: Bryndísi og Sigríður út úr kú

Þekking þeirra á efninu var bara ekki til staðar, það var áberandi.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í dag var umræða á Alþingi um eitt mikilvægasta efnahagsmál Íslendinga, sem er hvort taka eigi upp evru í stað krónunnar. Við umræðuna þá tóku einungis tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks til máls, Bryndís Haraldsdóttir og Sigríður Andersen. Maður gat ekki annað en ályktað að þarna væri þingflokkurinn að tefla fram sínu besta fólki í málefninu. Ég lagði því vel við hlustir, en verð að játa að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Þekking þeirra á efninu var bara ekki til staðar, það var áberandi.

Stikklum á stóru. Á einum stað þá sagði Bryndís orðrétt „Það er ekki eins og Evruríkin séu okkar stærstu viðskiptalönd. Það eru jú Bandaríkin og svo Bretland sem hvorugt eru með evru“. Því háttar nú þannig til í heiminum að 86 prósent allra milliríkjaviðskipta fara fram í evrum eða bandarískum dollar. Ísland er þar engin undantekning. Evran og danska krónan, sem bundin er með rembihnút við evruna, þekja 46 prósent allra viðskipta á meðan dollarinn þekur 40 prósent. Síðan er að um og yfir 70 prósent af öllum útflutningi frá Íslandi er til landa innan Evrópusambandsins á sama tíma og um 11 prósent fara til Bretlands og 7 prósent til Bandaríkjanna. Þannig að fullyrðing Bryndísar er út úr kú.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Aftur virðist afneitum á staðreyndum og þekking á hagfræði hrjá þingkonurnar.

Sigríður Andersen sagði nokkurn veginn að gengisáskoranir hafi ekkert með myntina að gera heldur eru sveiflurnar afleiðing einhvers annars vanda, en myntin er ekki vandinn sem slíkur. Þeir sem þekkja til alþjóðlegra gjaldeyrismarkaða (Forex) vita að þetta er tóm vitleysa hjá Sigríði. Hagsaga heimsins er uppfull af dæmum um hið gagnstæða þegar kemur að smá myntum. Það á vart að þurfa að rifja það upp að svo til gereyðing krónunnar í fjármálahruninu var að stærstum hluta vegna skorts á tiltrú alþjóðamarkaða til krónunnar. Hún sem slík var vandamálið, enginn vildi eiga viðskipti með krónuna. Þess vegna þurfti að setja á gjaldeyrishöft og óska eftir neyðarbjörgun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Eitthvað virðist minni Sigríðar vera þjakað af alvarlegri afneitun á staðreyndum.

Stöllurnar héldu því báðar fram að sveiflur í gengi krónunnar tryggði stöðugleika í atvinnustigi. Aftur virðist afneitum á staðreyndum og þekking á hagfræði hrjá þingkonurnar. Ekki þarf annað en að líta til dagsins í dag um að Ísland glímir við bæði veikari krónu og atvinnuleysi í áður óséðum hæðum. Hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um öfugt samband gengisfellingar (lesið verðbólga) og atvinnustigs er úrelt kenning. Hún átti kannski við fyrir 30-50 árum, en ekki lengur af ástæðum sem ég hef rakið í eldri greinum. Í þessu sambandi er athyglisvert að horfa til árangurs Finna sem tóku upp evru árið 1999 eftir fjögurra ára aðlögunartíma. Atvinnuleysi var þá um 17 prósent en var komið niður í 5 prósent þegar fjármálahrunið skall á. Það fór í kjölfarið mest upp í tæplega 12 prósent, eins og það er á Íslandi í dag, en var komið niður undir 5 prósent þegar veiran reið yfir heiminn. Í dag þá stendur atvinnuleysið í 8 prósentum. Evran hefur reynst Finnum vel.

Þingkonurnar sögðu báðar að engin ein mynt blasi við til að koma í stað krónunnar og gáfu í skyn að tengja mætti krónuna við körfu mynta. Þetta er úrelt hugmynd. Vitnisburðurinn að tvær myntir, evra og dollar, þekja svo til öll milliríkjaviðskipti í heiminum segir okkur að aðeins þessar tvær myntir koma til greina. Jarðarbúar hafa valið. Af ástæðum sem ég rakti hér að ofan þá liggur beinast við að evran verði ofan á. Við bætist síðan að Ísland er Evrópuþjóð, sem á meira sameiginlegt með álfunni en Bandaríkjunum. Það hefur líka sýnt sig í faraldrinum að Bandarísk stjórnvöld hafa litið til úrræða Evrópu til að mæta efnahagslegum afleiðingum veirunnar. Landið hefur meira að segja gengið lengra með sömu úrræðin. Þannig að hagstjórn landa innan Evrópusambandsins er leiðandi í heiminum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: