- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn breytir um grundvallarstefnu

Sem sagt, Bjarni Ben ætlar að leika guð og ákveða hvaða fyrirtæki lifa eða deyja.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Bjarni Ben fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var í viðtali hjá Kjarnanum og staðfesti að Sjálfstæðisflokkurinn hafi breytt um grundvallarstefnu. Flokkurinn aðhyllist í dag „fyrirtækja-sósíalisma“. Markaðslausnir eru á burt. Metur flokkurinn það svo að einkaframtakið sé ófært um að leysa vandamál atvinnulífsins og endurskipuleggja sig í kjölfar Covid-19 veirunnar. Af þessum ástæðum vill blái flokkurinn aðkomu ríkisins. Í viðtalinu er haft eftir Bjarna að það verði til að mynda að horfast í augu við það að sum fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi ekki verið að ganga nægilega vel. Síðan segir orðrétt „Við verðum að gæta að því hversu langt við göngum í að halda lífi í þeim. Um það snýst meðal annars umræðan um að við viljum fyrst og fremst styðja við lífvænleg fyrirtæki.“

Sem sagt, Bjarni Ben ætlar að leika guð og ákveða hvaða fyrirtæki lifa eða deyja. Markaðurinn má ekki hreinsa sig sjálfur af óvænlegum fyrirtækjum. Goðkonungurinn hefur opnað allar gáttir ríkissjóðs og ætlar að bjarga vildarvinum sínum hjá Hræsnarasamtökum atvinnulífsins. Ríkisvæða ruglið og einkavæða gróðann.

Allt eru þetta aðgerðir sem fresta bara vandanum.

Það skiptir engu máli hvað aðgerðirnar heita: hlutabótaleið, brúarlán, greiðslufrestur skatta, greiðsla launa í uppsagnarfresti og svo framvegis. Allt eru þetta aðgerðir sem fresta bara vandanum. Síðan verður nýjum snúningum bætt við í framhaldinu. Allt þar til vildarvinirnir eru komnir í skjól. Eftir það þá getur restin átt sig og farið í þrot. Ríkið situr þá uppi með miklu meira tap en ella. Allt þetta er gert með samþykki Vinstri grænna. Framsókn kemur engum á óvart og fylgir eins og áður öllu rugli sem kemur frá Sjálfstæðisflokknum. Þannig var þetta fyrir hrun, svona er þetta í dag og verður áfram á morgunn.

Þegar gosið í Eyjafjallajökli gekk yfir þá var fyrirtækjum gert að bjarga sér sjálf fyrir utan flott erlent markaðsstarf. Sjálfstæðisflokkurinn hefur breytt þessari stefnu sinni og tekið upp „fyrirtækja-sósíalisma“.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: