- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn og göngustígarnir

Hann og Sjálfstæðisflokkurinn eru á móti framþróuninni bara til að geta verið á móti.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mér er það enn minnisstætt þegar R-listinn sálugi, sem stjórnaði Reykjavík með Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra, ákvað að lagðir yrðu göngu- og hjólreiðastígar með strandlengju borgarinnar og víðar. Samhliða voru lagðar smábrýr til að tengja ólíka bæjarhluta. Þessi staka ákvörðun hefur reynst farsæl og vinsæl meðal borgarbúa. Stígunum hefur bara fjölgað og æ fleiri kjósa að nýta stígana í ýmsum tilgangi á kostnað einkabílsins. Sjálfstæðisflokkurinn í minnihluta undir forystu Björns Bjarnasonar í Reykjavík var á móti. Talað var um bruðl og óþarfa. Skoðanir sjálfstæðismanna hafa elst afar illa og hljóma hlægilegar í dag. Nú er svo komið að önnur bæjarfélög í kringum Reykjavík undir stjórn sjálfstæðismanna eru fyrir löngu farin að herma eftir Reykjavík og leggja stíga sem víðast. Svo vel lukkað er þetta skipulag að ég hef oft séð Björn Bjarna og Davíð Oddsson nota göngustíga borgarinnar með bros á vör. Að vísu aldrei samferða enda ku anda köldu þar á milli samanber ekki svo gamlar ritdeilur.

Í dag þá er Sjálfstæðisflokkurinn samur við sig. Í stað Björns Bjarna þá er Samherjaleppurinn Eyþór Arnalds í forystu fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík. Hann vill veg einkabílsins sem mestan og finnur nútímalegum úrlausnum núverandi meirihluta í samgöngumálum allt til foráttu. Hann og Sjálfstæðisflokkurinn eru á móti framþróuninni bara til að geta verið á móti. Hafa ekki annað erindi!  Eins og forðum þá munu andmæli Eyþórs og Co eldast illa og enda á minjasafni utan um geldar hugmyndir Sjálfstæðisflokksins. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: