- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn vill haftabúskap og frelsið burt

Tilgangurinn er að verja krónuna, sem tapað hefur erindi sínu fyrir löngu síðan.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Með Evrópska efnahagssvæðinu þá komst á fjórfrelsi milli aðildarlanda svæðisins og úr varð þriðja stærsta menningar- og markaðssvæði veraldar. Fjórfrelsið byggir á frjálsu og hindrunarlausu flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns milli aðildarlandanna. Óumdeilt er að aðild Íslands hefur fært almenningi mikla hagsæld. Kraftar frelsis leystu letjandi haftabúskap af hólmi og ýttu þeir undir mikla atvinnu-, menningar- og verðmætasköpun á Íslandi. Á síðustu öld þegar höft voru á öllum sviðum samfélagsins þá réðu klíkutengsl við leyfisveitendur miklu um framgang fólks og lífsviðurværi þess.

Nú hefur fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp sem vegur að grunnstoð fjórfrelsisins um leið og miklu valdi verður þjappað saman inn í Seðlabanka Íslands. Verði frumvarpið að lögum þá mun bankinn geta stöðvað eða sett upp háar girðingar sem takmarka fjármagnsflæði til og frá landinu. Valdið gerir bankanum mögulegt að taka gangverk hins frjálsa markaðar úr sambandi að hluta eða að öllu leyti. Tilgangurinn er að verja krónuna, sem tapað hefur erindi sínu fyrir löngu síðan. Sjálfstæðisflokkurinn er augljóslega tilbúinn að kosta hverju sem er til að halda uppi ónýtum gjaldmiðli. Reynir nú á aðra flokka að verja frelsin fjögur.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vöru- og þjónustuviðskipti í heiminum fara að 86 prósent hluta fram í evrum eða Bandaríkja dollar samanber myndin sem fylgir. Sömu hlutföll eiga við um Ísland. Krónan er því í raun ekki sjálfstæður gjaldmiðill heldur táknmynd haftabúskapar liðinnar tíðar. Seðlabanki Evrópu og Bandaríkjanna reka meginstraums gjaldmiðlana tvo, evru og dollar, og fara þannig með peningastjórn veraldar. Seðlabanki Íslands og krónan eru alveg áhrifalaus og eykur bara viðskiptakostnað og áhættu í viðskiptum landsins. Að tvær myntir ráði för í heiminum er skynsamleg niðurstaða enda endurspeglar hún besta val jarðarbúa og fyrirtækja vítt og breytt um veröldina. Evran og dollar eru taldir öruggustu og hagkvæmust gjaldmiðlarnir í  alþjóðaviðskiptum.

Samþjöppun valds upp í Seðlabanka, verði lagafrumvarpið samþykkt, er ólýðræðislegt og einstaklega óheilbrigt. Stjórnendur bankans eru ekki kosnir af þjóðinni, en er samt veitt alræðisvald yfir markaðnum. Verði Sjálfstæðisflokknum að ósk sinni þá er stutt í önnur höft eins og innflutningstolla á matvæli sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir. Mikið efnahagslegt óhagræði og tjón myndi hljótast af og bitna á heimilum landsins enda hefur haftabúskapur hvergi gengið upp. Í stað þess að semja flókið regluverk um alvald til Seðlabankans þá er til önnur farsæl lausn á skaðræðinu sem krónan veldur. Hún er einfaldlega sú að taka upp annað hvort evru eða dollar sem gjaldmiðil. Við erum hvort sem er að nota myntirnar nánast í öllum okkar erlendu viðskiptum og mörg fyrirtæki reka sig á öðrum hvorum gjaldmiðlinum. Meginstraums gjaldmiðill myndi losa okkur alveg undan óstöðugleika krónunnar, ófarsælli íslenskri peningamálastjórn og byggja undir fjármálastöðugleika. Allir landsmenn myndu njóta góðs af.

Nú er spurningin hvort Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sem Óli Björn Kárason stjórnar, hleypi frumvarpinu í gegn. Ef svo er, hvað gerir Alþingi þá? Hér er stór mál á ferðinni, sem getur haft óafturkræfar afleiðingar.   


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: