- Advertisement -

Sjúklegt hugarfar Styrmis Gunnarssonar

Þarna var lagður grundvöllur að þeim friði og þeirri hagsæld sem byggst hefur upp í Evrópu æ síðan.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Styrmir Gunnarsson skrifar ógeðslega grein í Mogga helgarinnar. Ræðst hann á Evrópusambandið og líkir stjórnarháttum þess við aðferðir forseta fyrrum Júgóslavíu og flokksfélaga hans. Styrmir bætir síðan gráu ofan á svart og segir kannski lítinn mun þar á og á stjórnarháttum Þriðja ríkisins, ríki Adolfs Hitlers. Í þessu samhengi þá segir Styrmir orðrétt „Það er ljóst að Evrópusinnar eru að sækja í sig veðrið. Þeir boða enn aðild að ESB. Í mörg undanfarin ár hefur verið alveg skýrt hvað ESB er. Það er aðferð til þess að losna við lýðræðið og tryggja völd umboðslausra og andlitslausra embættismanna“. Síðan brýnir hann fyrir hægri öfgaöflum innan Sjálfstæðisflokksins að kveða niður boðskap ESB sinna.

Hér sýnir Styrmir enn og aftur yfirgripsmikið þekkingarleysi á málum og til að breiða yfir sjálfan sig þá heldur hann út viðbjóðslegum áróðri. Það þarf vart, og bara alls ekki, að rifja upp að nasistar stráfelldu milljónir gyðinga með því til dæmis að safna þeim saman í gasklefa. Upphaf Evrópusambandsins nær aftur til ársins 1951 þegar Kola- og stálbandalagið var stofnað. Tilgangurinn var að draga úr milliríkjadeilum og möguleikum á stríði. Auðvelda átti millilandaviðskipti öllum til heilla. En það var til dæmis skortur á aðföngum sem mótaði útvaldastefnu nasista. Þarna var lagður grundvöllur að þeim friði og þeirri hagsæld sem byggst hefur upp í Evrópu æ síðan. Í dag þá hefur aldrei verið friðsælla og friðvænlegra í Evrópu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Styrmir skrifar óhróður um nágranna Íslands.

Lýðræði í Evrópu hefur aldrei staðið traustari fótum en í dag. Lýðræðislegar kosningar til Alþingis aðildarlandanna eru á fjögurra ára fresti. Síðan er kosið til Evrópuþingsins með sama árabili. Forseti Evrópusambandsins er valinn af lýðræðiskjörnum leiðtogum aðildarþjóðanna til fimm ára í senn og verða þingmenn Evrópuþingsins að samþykkja valið eftir ítarlega eigin athugun á valinu. Þegar búið er að samþykkja forseta þá velur hann sé samstarfsmenn sem eru skipaðir eftir að hver og einn hefur farið í gegnum sama valferlið og forsetinn. Valið er afar gagnsætt og miklar kröfur gerðar til aðila. Hægt er að víkja forsetanum frá telji leiðtogarnir það nauðsynlegt ef upp koma mál sem krefjast þess. Ekki er langt síðan að jafnaðarmaðurinn Jósé Barroso frá Portúgal  var forseti.

Leiðtogi Evrópuráðsins, sem er vettvangur samstarfs leiðtoga aðildarlanda Evrópusambandsins, er í dag Belgi. Á undan honum þá var það Pólverji sem fór fyrir embættinu. Þannig að lönd sem ekki hafa á sér orð fyrir að vera voldug, yfirgangssöm eða stór hafa mikil áhrif innan Evrópusambandsins. Aðildarlöndin hafa fjölmargar leiðir til að móta lagasetningu Evrópusambandsins með beinni aðkomu að gerð lagafrumvarpa. Meira að segja Ísland getur haft mótandi áhrif í gegnum aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu.   

Það kemur svo sem engum lengur á óvart að Morgunblaðið skuli birta svona óhróður enda grefur málflutningur blaðsins og Styrmis undan lýðræði, friði og hagsæld. Markmið áróðursins er að skapa óeiningu og úlfúð. Kveikja ófriðarbál. Styrmir er pikkfastur í veröld sem var fyrir 40-70 árum síðan. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Styrmir skrifar óhróður um nágranna Íslands. Þjóðir sem í samstarfi við Ísland hafa svo sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar um að bæta hag almennings með því að fella niður múra einangrunar og ánauðar. Styrmir virðist til dæmis ekki átta sig á því að Berlínarmúrinn var rifinn niður árið 1989. Það hlýtur einhver nákominn Styrmi að geta bent honum á að hann er fastur í gamalli fortíð. Hann man hana kannski betur en nútíðina.  


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: