- Advertisement -

Sjúkleikamerkið við Arnarhól

Jóhann Þorvarðarson:

Fjármálaráðherra hefur aftur á móti klastrað saman eigin kenningu og segir litla sem enga verðbólgu vera sjúkleikamerki. Hann hefði betur sleppt því að útvarpa þvælunni.

Það hefur löngum verið sagt þegar talað er af kurteisi um vanþekkingu einstaklings að viðkomandi sé ekki beittasti hnífurinn í skúffunni. Þegar kemur að fjármálaráðherra landsins þá er réttlætanlegt að grípa til sterkara orðalags þegar hann tjáir sig um efnahagsmál. Ég læt það hins vegar eiga sig því hans eigin orð fella hann. Nýverið þá sagði ráðherrann orðrétt í sjónvarpsviðtali „Það er ekki eftirsóknarvert að búa í landi með núll prósent verðbólgu, það er sjúkleikamerki. Það er sjúkleikamerki“. Hann tvítók heimskuna!

Núll prósent verðbólga endurspeglar fullkomið jafnvægi í þjóðarbúskap í verðslegu tilliti. Það er eftirsóknarvert í sjálfu sér. Verðbólga aftur á móti er ávísun á sóun í þrengstu og víðustu merkingu orðsins. Því hærri sem bólgan er því meiri er sóunin. Þetta þekkir launafólk á Íslandi of vel. Verðbólga étur upp áunnar kauphækkanir og aukinn kaupmátt. Verðbólga étur líka upp aukna framlegð hagkerfisins. Verðbólga veldur síðan því að framleiðsluþættir þjóða eru vannýttir og það leiðir til aukins atvinnuleysis. Sem sagt, verðbólga dregur samkeppnishæfni þjóða niður. Fjármálaráðherra hefur aftur á móti klastrað saman eigin kenningu og segir litla sem enga verðbólgu vera sjúkleikamerki. Hann hefði betur sleppt því að útvarpa þvælunni. Hærri verðbólga endurspeglar óstjórn og hann er að reyna fela eigið árangursleysi!

Sú þjóð sem álitin er samkeppnishæfust í veröldinni er Danmörku. Um það er ekki deilt! Danir hafa verið svo gáfaðir að binda sína krónu með rembihnút við evruna til að tryggja verðstöðugleika því hann veldur miklu um yfirburðastöðu Dana í heiminum. Verðbólga á Íslandi í dag er þrefalt hærri en í Danmörku. Frá aldamótum þá hefur bólgan í Danmörku að jafnaði verið undir tveimur prósentum á meðan íslenska bólgan daðrar mikið við fimm prósentin. Ef það er eitthvað sem er sjúkleikamerki á Íslandi þá er það sú árátta fjármálaráðherra landsins að tala eins og óviti um efnahagsmál. Þjóðin á betra skilið og kosið verður um það hvort við viljum gáfaða landsstjórn eða sjúka.    

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: