Fréttir

Skandall í hvítbókinni

By Miðjan

January 14, 2019

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, er ekki ýkja hrifinn eftir lestur hvítbókarinnar.

„Var að glugga í hvítbók um fjármálakerfið. Finn varla stafkrók í þeirri skýrslu um þýsku samfélagsbankana „sparkassen“ sem hafa verið kjölfesta í þýsku efnahagslífi í meira en hundrað ár og njóta mikils trausts hjá almenningi. Nefndin fékk ítarlega kynningu á þýsku samfélagsbönkunum en fjallar samt ekkert um kosti þeirrar leiðar. Hún vitnar í álit Ásgeirs Jónssonar um samfélagsbanka, en hann hefur verið mótfallinn þeim hugmyndum og fjallar ekkert að gagni hvort sparkassen útfærslan gæti gagnast hér. Þetta er skandall í ljósi þeirrar miklu umræðu sem hefur verið um þetta fyrirkomulag hérlendis. Fyrst nefndin klúðraði þessu svona rækilega hlýtur ríkisstjórnin að gera sérstaka úttekt á því hvort þetta fyrirkomulag geti skilað ávinningi hér á landi.“

Þá er tilefni til að rifja upp orð Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanns Vg, hér á Miðjunni:

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir: „Við Vinstri græn höfum rætt mikið um samfélagsbanka og tel ég að þá hugmynd þurfi að ræða betur.“

„Við Vinstri græn höfum rætt mikið um samfélagsbanka og tel ég að þá hugmynd þurfi að ræða betur.“

Eins sagði hún.

„Hvítbókin er ágætis innlegg í umræðuna og nær markmiðum sínum sem voru að vera grundvöllur umræðu um stefnumótun og ákvarðanatöku í samræmi við stjórnarsáttmálann. En hvítbókin er ekki, og var aldrei ætlað að vera einhver heilagur sannleikur um hvað skyldi gera í þessum málum til framtíðar.“