- Advertisement -

Skólabókardæmi um sjúklega áhættu ásælni?

Jóhann Þorvarðarson:

HSBC banki gefur sér að ansi margt þurfi að ganga upp á sama tíma og það liggur fyrir að hátt vaxtarstig er ekki að fara gefa eftir í bráð. Háir vextir eru einmitt það atriði sem hrundi af stað falli SVB.

Á föstudag fyrir viku þá tilkynntu bresk fjármálayfirvöld að þau hefðu tekið yfir breska starfsemi hins bandaríska Silicon Valley Bank (SVB), en hann féll einmitt sama dag. Ýmsir breskir bankar hófu strax viðræður við yfirvöld um kaup á bresku starfseminni. Seint á sunnudagskvöld var síðan ljóst að aðeins HSBC UK hafði áhuga á kaupunum. Varð síðan úr að bankinn keypti starfsemina á eitt pund eða 170 krónur. Mat bankans er að starfsemi SVB í Bretlandi falli vel að stefnu HSBC UK um að hasla sér völl í bankaþjónustu við nýsköpunarfyrirtæki. Telur bankinn að með kaupunum styttist sóknartíminn um tvö til þrjú ár.

Undrun hefur vakið að bankinn tók sér aðeins 5 klukkustundir í að meta áreiðanleika eigna hinnar föllnu starfsemi. Þar spilaði inn í að aðilar voru í kappi við tímann að koma með traustvekjandi fréttir áður en markaðir opnuðu á mánudag til að sefa viðskiptavini SVB.

Bankinn hefur sagt að sjötíu prósent eigna séu þess virði að eignast, á meðan erfitt sé að henda reiður á afganginn. Miðað við framkomnar upplýsingar þá er virði eignasafnsins talið vera meira en ellefu hundruð milljarðar íslenskra króna og því leikur vafi á hvað endurheimtist af um þrjú hundruð og fimmtíu milljörðum króna. Að baki hinum óræðu eignum eru skuldir bankans við innistæðueigendur sem ekki hverfa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vitað er að nýsköpunarfyrirtæki eru áhættusamasti viðskiptavinurinn.

Ofan á umrædda áhættu þá bætist óvissan við um hvort takist að halda í lykilstarfsfólk, sem býr yfir sérhæfðri þekkingu á sviði nýsköpunar. Spekileki gæti því orðið umtalsverður ef ill helst á málum. Og svo er það áhættan um hvort viðskiptavinir haldi áfram sínu brotthlaupi. Á meðan HSBC banki hefur á sér orð að vera íhaldssamur og rótgróinn þá var SVB hinum megin á stikunni. Þótti glæfralegur og áhættusækinn eins og örlög hans bera vitnisburð um. Ólík bankamenning gæti þannig einnig skapað vanda.

Þegar allt er vegið og metið þá finnst mér sem að HSBC banki sé að taka illa ígrundaða ákvörðun þegar áhættan er annars vegar. Ef kapallinn gengur upp þá gæti ávinningurinn orðið mikill, en ég tel að löngunin eftir skjótri aðkomu að nýsköpunarfyrirtækjum hafi verið skynsömu áhættumati yfirsterkari. Þetta segi ég alveg sérstaklega þar sem enginn annar banki hafði áhuga á rekstri SVB á Bretlandseyjum. Og vitað er að nýsköpunarfyrirtæki eru áhættusamasti viðskiptavinurinn.

HSBC banki gefur sér að ansi margt þurfi að ganga upp á sama tíma og það liggur fyrir að hátt vaxtarstig er ekki að fara gefa eftir í bráð. Háir vextir eru einmitt það atriði sem hrundi af stað falli SVB. Síðan tel ég nokkuð ljóst að núllvextir í heiminum séu ekki á sjóndeildarhringnum. Þess vegna spyr ég hvort kaup HSBC banka séu skólabókardæmi um sjúklega áhættu ásælni?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: