- Advertisement -

Skrökvuðu Katrín og Bjarni að þjóðinni og AGS?

Þetta er ótækt og óboðlegt enda ber ráðuneytinu lagalega skylda til að afhenda umrædd gögn.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í apríl sem leið þá fjallaði RÚV um nýbirtar upplýsingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) um sérstök viðbrögð þjóða við heimsfaraldrinum. Kjarninn fylgdi umfjöllun RÚV eftir. Í yfirlitinu þá voru ráðstafanir vegna kóvít sem hafa bein áhrif á ríkissjóð teknar saman og þær settar í hlutfall við landsframleiðslu viðkomandi lands. Samkvæmt listanum þá lenti Ísland í neðsta sæti með þjóðum sem gripu til vægustu aðgerðanna. Í þeim flokki eru þjóðir sem eyða minna en 2.5 prósent af landsframleiðslu í ýmsar kóvít aðgerðir. AGS mat það svo að aðgerðir Íslands mældust vera aðeins 2,1 prósent af landsframleiðslunni og setti landið í flokk þjóða sem við berum okkur aldrei saman við: Afríku, Austur Evrópu og Mexíkó.

Á sama tíma voru þjóðirnar í kringum okkur að raða sér mun ofar á listann. Í efsta sætið með hlutfall yfir 10 prósentum af landsframleiðslu voru ensku mælandi lönd ásamt Þýskalandi og Austurríki: Norður Ameríka, Bretland, Ástralía og Nýja Sjáland. Þarna má einnig sjá Japan. Í næst efsta flokkinn, þar sem hlutfallið liggur á bilinu 7,5 til 10 prósent, eru síðan þjóðir á meginlandi Evrópu, Danmörk og Brasilía.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég saknaði þess að RÚV og Kjarninn fylgdu þessu ekki eftir með gagnrýnum hætti.

Þegar upplýsingarnar voru opinberaðar þá mættu forsætis- og fjármálaráðherra óðara í viðtöl hjá fjölmiðlum þar sem bæði höfnuðu flokkun AGS. Sögðu hana víðs fjarri raunveruleikanum. Eins og hendi væri veifað þá þaut Ísland upp listann og hafnaði í næst efsta flokknum með hlutfall upp á 9,1 prósent. Ég saknaði þess að RÚV og Kjarninn fylgdu þessu ekki eftir með gagnrýnum hætti. Óskuðu ekki eftir að fá í hendur afrit af uppfærðum útreikningum fjármálaráðuneytisins sem sent var til AGS. Sjálfum fannst mér þetta ótrúverðug þróun á málum. Alveg sérstaklega þegar fyrir lágu opinberar upplýsingar sem gáfu til kynna að hlutfallið gæti ekki verið 9,1 prósent.

Ég setti mig því í samband við fjármálaráðuneytið. Óskaði eftir afriti af nákvæmum útreikningum sem lágu til grundvallar að hlutfall Íslands væri skyndilega orðið 9,1 prósent af landsframleiðslunni. Ég hef ekki fengið aðgang að þessum gögnum þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Svör ráðuneytisins hafa verið fátækleg þar sem mér er aðallega bent á hvar ég geti huganlega leitað fanga. Ég á sem sagt að geta mér til um hlutina hvað gæti legið til grundvallar útreikningum ráðuneytisins. Þetta er ótækt og óboðlegt enda ber ráðuneytinu lagalega skylda til að afhenda umrædd gögn. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað úrskurðað um rétt landsmanna um aðgang að gögnum. Þar inn í teljast til minnisblöð og útreikningar sem liggja til grundvallar ákvörðunum og tilkynningum.

Tregða ráðuneytisins vekur upp spurningar og framkallar ekki tiltrú.

Tregða ráðuneytisins vekur upp spurningar og framkallar ekki tiltrú. Eitthvað sem landsmenn eru orðnir vanir þegar núverandi fjármálaráðherra á í hlut. Þekktur fyrir að stinga skýrslum undir teppi og draga úr hömlu að birta upplýsingar. Þar má til dæmis nefna úrskurð Kjararáðs um launabreytingar ráðamanna fyrir síðustu kosningar. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá sagði upplýsingafulltrúi ráðuneytisins orðrétt í nýjasta svarinu til mín „Svo má benda á að í síðustu viku voru kynntar nýjar aðgerðir“. Svarið er athyglisvert í ljósi þess að þegar ráðuneytið sagði AGS að hlutfallið væri 9,1 prósent að þá höfðu enga ákvarðanir verið teknar um þær aðgerðir sem fulltrúinn vísar nú til.

Þetta virkar allt á mig eins og að ráðuneytið eigi í mestu vandræðum með að sýna fram á með sannreynanlegum hætti að hlutfallið sé í raun 9,1 prósent. Þar til þá er ekki óvarlegt að telja að mögulega hafi Katrín og Bjarni skrökvað að þjóðinni og AGS. Ég segi nú bara eins og Ragnar Reykás, það er skítalykt af málinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: