- Advertisement -

Skúli WOW vill ekki hætta

Það er svo auðvelt að trúa öllu sem Skúli segir.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég held að Skúli Mogensen njóti sín allra best í vindhræringi. Þá eru allir ventlar á fullu gasi.

Hann er endalaust bjartsýnn. Er eins og hann hafi fundið upp hugarástandið. Hann hlýtur að hafa einkaleyfi fyrir bjartsýni. Það bara blasir við finnst mér.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er svo auðvelt að trúa öllu sem Skúli segir. Í það minnsta vill maður trúa honum. Það var nú ekki fámennur hópur sem var auðtrúa. Hjúkrunarfræðingar, kennarar og háskólanemar féllu fyrir Skúla flugdreka og ákváðu að klæðast fjólubláu. Vildu vera partur af glaumnum og framtíðinni. Fjölgaði hratt í sértrúarsöfnuði WOW air. Inntökupóf voru þreytt og vöðvar þjálfaðir. Meira að segja gullaldardanskan var rifjuð upp til að geta sprokað smá dönsku við farþegana.

Skúli minnir á hinn ósigrandi James Bond. Hans uppáhalds gír er sjálfur túrbóinn. Hann þeytist áfram og klýfur meira að segja glerhýsi á nýburstuðum spariskónum. Ekkert fær hann stöðvað. Þeir sem reyna að vera skynsamir og toga flugdrekann neðar í ósonlagið víkja. Svona eins og Trump þegar hann rekur stjórnendur hægri og vinstri. Milljarðatap breytir engu fyrir Skúla. Hagnaðurinn er bara alltaf alveg að koma, er rétt handan við hornið.

Reyndustu lánadrottnar lágu líka flatir við fótskör Bondsins. Þó flugið væri lóðrétt niður mátti alltaf lána aðeins meira þó það væri nú bara út á bjartsýnina. Þannig gat partíið haldið áfram á meðan heil þjóð og ríkisstjórn hélt niðri í sér andanum.

En Skúli er enginn töframaður, hann tapaði illa. Fyrst var það fyrirtækið OZ og núna fjólubláa WOW.

En þar sem Skúli er einkaleyfishafi á bjartsýnina þá er hann allt annað en hættur. Nú skal farið í hópfjármögnun og seilst í vasa þeirra sem ekkert þekkja til flugrekstrar og muna ekki eftir OZ eða WOW air. Ég segi nú bara við Skúla „take it easy“.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: