- Advertisement -

Skyrslettur Helga Magnússonar

Ekki veit ég hvaðan maðurinn hefur þessa alhæfingu enda er hún órökstudd.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Bláa lóns hluthafinn og aðaleigandi Fréttablaðsins og DV hann Helgi Magnússon skrifaði nýverið breiðsíðugrein í Fréttablaðið í tilefni áramóta. Greinin speglar mann sem skortir geð og rænu til að sýna auðmýkt og þakklæti gagnvart miklum fjárgjöfum úr ríkissjóði til Bláa lónsins á kóvít-19 tímum. Helga finnst sæmilegra að tala opinbera starfsemi og stjórnmálamenn niður sem staðið hafa vaktina á erfiðum tímum. Í greininni setur vanþakklátur Helgi fram alvarlegar rangfærslur um leið og hann opinberar yfirgripsmikla vanþekkingu sína á klukkuverki hagkerfisins.

Í fyrirsögn að grein Helga segir „Gegndarlaus útþennsla ríkisbanksins er ógnvekjandi“. Í upphafi greinarinnar segir síðan „Fyrir utan veirufjandann sem hrjáð hefur landsmenn er taumlaus útþennsla ríkisbanksins ein helsta ógnin við íslenska hagkerfið nú sem stendur“. Þessi orð Helga eru vart birtingarhæf enda hreint bull, þvaður og þvæla. Þegar gögn um opinberan rekstur eru skoðuð þá fer það ekki fram hjá sæmilega læsum manni að opinber rekstur sem hlutfall af umsvifum hagkerfisins hefur lækkað síðan um aldamótin. Þegar óvænta atburði ber að garði þá vilja svona hlutföll raskast tímabundið eins og gerðist í fjármálahruninu, en heildarmyndin sýnir að hlutföllin eru á niðurleið. Núna þegar efnahagsáfall vegna veirunnar kemur inn í myndina þá mun hlutfallið færast úr stað, aftur aðeins tímabundið, en leita fljótt aftur í langtíma þróunina. Að hlutfallið hafi farið lækkandi er ekki einungis rakið til stærri þjóðarköku heldur einnig til betri árangurs í opinberum rekstri.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Miðað við gífuryrði Helga þá hefði maður haldið að fjömiðlafyrirtæki Helga, Torg ehf, væri góð fyrirmynd í rekstri. Svo er ekki eins og viðvarandi taprekstur þess sannar. Maður hefði einnig talið að maðurinn myndi vísa í safarík dæmi um óráðsíu í opinberum rekstri máli sínu til stuðnings. Svo var heldur ekki og skilaði Helgi í raun auðu. Eitt af dæmunum sem Helgi tiltók var að útgjöld forsætisráðuneytisins til jafnréttismála væri merki um útþennslustefnu. Fetaði hann þar með í fótspor eigin málpípu á DV og ævisagnaritara síns Björns Jóns Bragasonar. Sá hefur verið með ámóta vitleysu í nýlegum skoðanapistlum í DV. Aukin útgjöld til jafnréttismála eru vart í tal færandi svo lág eru þau og alveg sérstaklega þegar heildarsamhengið er skoðað. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að málaflokkurinn eykur félagsauð þjóða og stuðlar að sjálfbærari hagvexti en ella. Þegar máttur kvenna er leystur úr læðingi þá eflist hagkerfið sem fær um leið undir sig fjölbreyttari stoðir. Sjálfur tel ég að jafnrétti leiði til meiri verðmætasköpunar en nýsköpun.

Mér reiknast til að útgjöld forsætisráðuneytisins til jafnréttismála sem fara svona svakalega í taugarnar á Helga nemi um 75 krónum á mánuði á hverja konu á aldrinum 18-70 ára. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hver einasta kona telur peningunum vel varið. Hrútskoðanir Helga og Björns Jóns eru aftur á móti ógn við framfarir og eiga ekki erindi í samtímann.

Helgi nefndi síðan tvö önnur hjárænuleg dæmi. Hvorugt verðskuldar ávarp svo smánarleg voru þau. Ég ætla samt að tæpa á öðru þeirra vegna þess hve ógeðfellt það er. Helgi alhæfði að landsmenn væru móðgaðir og dofnir yfir því að þingmenn hafi aðstoðarmenn til að sinna þingmannsstörfum sínum. Ekki veit ég hvaðan maðurinn hefur þessa alhæfingu enda er hún órökstudd. Í samhenginu fannst Helga smart að ráðast sérstaklega á Flokk fólksins, sem hefur þrjá aðstoðarmenn og tvo þingmenn. Báðir þingmennirnir eru með skerta starfsgetu af ástæðum sem þingmennirnir sjálfir hafa upplýst þjóðina um. Helgi segir fjárútlátin vera dæmi um óþarfa ríkisúgjöld. Þetta er ískaldur löðrungur í andlit þeirra sem minna mega sín og byggja ekki lífsafkomu sína á myndarlegum arfi. Sjálfur er Helgi einn af erfingjum málningaverksmiðjunnar Hörpu. Þetta er einnig spark í klof þeirra sem ekki hafa áhuga á að auðgast á innherjaupplýsingum, en Helgi hefur legið undir ámælum um innherjaviðskipti samanber þessi grein hér Áframhaldandi árásir Fréttablaðsins og Helgi Magnússon.

Árásir Helga eru ófyrirleitnar því hann sjálfur er líklega meðal þeirra einstaklinga á Íslandi sem þegið hafa hæstu  fjárgjafirnar úr ríkissjóði á veirutímum í gegnum eignarhald sitt í Bláa lóninu. Lón sem fengið  hefur hundruðir milljóna króna afgreiddar á hraðskreiðu færibandi beint innan úr ríkissjóði. Ágætt er að hafa í huga að skyrskvettirinn er einn af stofnendum Viðreisnar og áhrifamaður í flokknum. Svo ég noti hans eigin samlíkingu um að limirnir dansi eftir höfðinu þá er ágætt að kjósendur muni hvaða flokki hann tilheyrir í kosningunum í haust.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: