- Advertisement -

Sláturhúsið við Arnarhól lætur ekki deigan síga

Jóhann Þorvarðarson:

Útlitið er grafalvarlegt og tel ég að enginn velkist lengur í vafa um að stóran hluta vandans má rekja beint til hagstjórnarmistaka Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar, sem aldrei viðurkennir mistök.

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 1,25 prósentustig í dag og eru þeir þá komnir í 8,75 prósentustig. Jafnframt, þá ákvað bankinn að tvöfalda bindiskyldu viðskiptabanka og sparisjóða sem er ígildi vaxtahækkunar til lengri tíma litið. Að óbreyttu þá hafa líkur á að gamall uggur minn um að stýrivextir fari í 10 prósent aukist til muna, en þar ræður miklu hvernig verðlag þróast í sumar.

Tíðindi dagsins eru slæm ef ekki tekst að hemja verðbólgumóra því fjöldi heimila með fasta vexti á íbúðalánum mun brátt standa frammi fyrir vaxtaendurskoðun. Mun mikill fjöldi því neyðast til að færa sig yfir í verðtryggð lán og sætta sig við að eigið fé íbúðar muni í auknu mæli færast yfir til lánenda í takti við verðbólguna. Á mannamáli þá heitir þetta eignaupptaka. Vegna hárra vaxta þá mun margt fólk ekki hafa val og þá verður neyðin mest hjá þeim sem lægstu launin hafa.

Á seinni hluta þessa árs þá er gert ráð fyrir að 60 milljarðar króna í íbúðalánum losni undan föstum vöxtum, 260 milljarðar króna á næsta ári og 280 milljarðar króna á árinu 2025. Samtals, þá eru við að horfa á um 600 milljarðar króna snjóhengju sem vofir yfir heimilum. Og þá eru lán fyrirtækja og hins opinbera ótalin. Það þarf því vart að hafa orð á því að landið stendur frammi fyrir krísu ef ekki tekst að losna við verðbólgukýlið. Heilt yfir þá mun þróunin, ef af verður, hafa bein áhrif á fjármálastöðugleika Íslands, öll lánsfjármögnun landsins verður dýrari. Jafnvel óviðráðanleg.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það út af fyrir sig kippir stoðum undan samkeppnishæfni Íslands og nýsköpun. Gætum við þá verið komin inn í miðjan hvirfilvind sem eirir engu. Útlitið er grafalvarlegt og tel ég að enginn velkist lengur í vafa um að stóran hluta vandans má rekja beint til hagstjórnarmistaka Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar, sem aldrei viðurkennir mistök. Einnig liggur mikil ábyrgð hjá efsta launalagi þjóðarinnar sem skammtað hefur sér ótæpilega laun með hreinni sjálftöku. Hegðunin hefur haft fordæmisgefandi áhrif á kjaraviðræður og fram undan eru nýjar viðræður. Þetta lítur illa út.

Vegna þess að tiltekinn þingmaður Samfylkingarinnar, sem enn er að hlaupa af sér þingmannshornin, fullyrti án rökstuðnings að annar gjaldmiðilill sé ekki töfralausn við verðbólgunni og efnahagsvanda Íslendinga þá bendi ég á meðfylgjandi mynd. Þar er verðbólga og stýrivextir á Íslandi bornir saman við það sem Danir búa við. Ágætt er að hafa orð á því að Danir eru aðilar að Evrópusambandinu og binda sína krónu með rembihnút við evruna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: