- Advertisement -

Smiðurinn á Skipalóni


Prófsmíð Þorsteins í Kaupmannahöfn: Saumakassi úr mahogny með inngreyptum skreytingum, spónlagður og póleraður. Kassann gaf hann konu sinni. Hann er nú í Iðnminjasafninu.

Eldra fólk kannast við Þorstein Daníelsson á Skipalóni eða Daníelsen á Lóni, eins og hann var nefndur af samtímamönnum. Þó eru þeir sárafáir ofar moldu, sem sáu hann og heyrðu. Af Þorsteini gengu ýmsar sögur, því að maðurinn þótti sér um margt og bar á ýmsan veg höfuð og herðar yfir samtíð sína, og þeir, sem voru að vaxa úr grasi á árunum fyrir aldamótin, hlustuðu á eldra fólkið ræða um þennan kynlega kvist og umþráttaða mann, sem var dáður og elskaður af sumum samtímamönnum, en hataður og fyrirlitinn af öðrum. Slíkt varð einmitt hlutskipti ýmissa forfeðra hans, og skal nú farið nokkrum orðum um ætt og uppvöxt Þorsteins.

Þóroddur Þórðarson heyrari við Hólaskóla var um skeið höfuðandstæðingur Skúla sýslumanns, síðar landfógeta. Hann þótti framgjarn maður „og óvæginn í orðum jafnan“, „örorður og hvatur mjög, heldur lítill vexti, en harðgjör“. Svipaðan  vitnisburð  fær  tengdafaðir hans, séra Illugi prestur á Auðkúlu. Þegar Þóroddur var að láta af kennarastörfum við Hólaskóla með fram sökum ósannaðra sakargifta á Skúla sýslumann, hóf hann búskap á Þóroddsstöðum í Ólafsfirði, og þar lést hann. Á ýmsu hafði oltið fyrir honum um dagana, en þótti um margt mikilhæfur maður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Synir þeirra Þóroddsstaðahjóna voru þeir Þórður hag- og búfræðingur, Þóroddur beykir á Vatneyri, Sigurður bóndi á Þóroddsstöðum og Ólafur í Tungu í Tálknafirði, og kemur hann ekki við þessa sögu, en fyrir hinum verður gerð nokkur grein.

Þórður Þóroddsson (Thoroddi) var til mennta settur og lagði stund á náttúruvísindi,  hagfræði og búvísindi við Hafnarháskóla og síðar í Uppsölum, þar sem hinn heimskunni náttúrufræðingur Carl Linné var kennari hans. Var Þórður eini Íslendingurinn, sem stundaði náttúrufræðinám um þessar mundir og sérstaka alúð lagði við hvers konar búvísindi, enda var hann lærðari miklu í þessum greinum en nokkur landa hans, og mun svo lengi hafa verið. Áhugi á náttúrufróðum er mikill í þessari ætt, en kunnasti frændi Þórðar á þessu sviði er Þorvaldur Thoroddsen, en Þórður var langafabróðir hans.

Þóroddur beykir á Vatneyri var og mikilhæfur maður. Hann var hagur á hendur sem þeir bræður allir, ör í lund og harðduglegur, en kannski óþarflega gefinn fyrir sopann. Hann átti átta syni og sigldu sjö þeirra og lærðu sína handiðnina hver. Sonarsonur Þórodds var Jón Thoroddsen, sýslumaður og skáld. Verður ekki annað sagt um þessa ætt, að þar sé smiðsgáfan óvenjurík. Sumir gerðust listasmiðir á tré og járn, aðrir á sögur, ljóð, leikrit eða lög.

Sigurður á Þóroddsstóðum þótti hinn mesti merkismaður. Hann var kappsmaður mikill eins og þeir frændur fleiri, skapheitur, en hreinskiptinn og hreinskilinn, svo að orð fór af. Hann var efnabóndi og fyrirmaður í sinni sveit, og samkvæmt þeirrar tíðar venju var nafn hans „daniserað“, var kallaður Thoroddsen, og mun Thoroddsennafnið eiga uppruna sinn að rekja til þeirra Þóroddsstaðabræðra. Sigurður bóndi átti dóttur eina, Guðrúnu að nafni, mikilhæfa gáfukonu, og verður hennar nánar getið síðar, því að hún var móðir Þorsteins Daníelssonar. Kona Sigurðar, en móðir Guðrúnar, Ásta Jónsdóttir, var og talin gáfuð og dugandi.

II.

Margrét Þorláksdóttir og Þorsteinn Danílesson.

Á 18. öld ofanverðri bjó á Vatnsenda í Ólafsfirði bóndi sá, er Daníel hét Andrésson, og var hreppstjóri þar í sveit um skeið. Kona hans var Þóra Þorsteinsdóttir frá Reykjarhóli í Haganeshreppi (Holtshreppi). Foreldrar Daníels, Andrés Jónsson og Guðrún Einarsdóttir, voru í samtímaheimildum talin vel greind og mikilhæf. Þau Þóra og Daníel áttu þrjú börn, sem upp komust, og er af þeim komið margt þjóðkunnra manna.

Upp úr Móðuharðindum flyst Daníel að Hvammi í Arnarnesshreppi, og missir konu sína eftir nokkurra ára búskap þar. Fljótlega eftir lát hennar, árið 1791, fer Daníel að svipast um eftir kvonfangi. Hvarflar hugurinn heim til ættstöðvanna, í Ólafsfjörðinn. Sigurður bóndi á Þóroddsstöðum átti dóttur, Guðrúnu að nafni, sem fyrr er getið. Hún þótti hinn besti kvenkostur. Daníel þekkti Guðrúnu að frábærri skerpu. Skapstór var hún að vísu, skartkona mikil og leit stórt á sig, en Daníel sjálfur hæggerður, dulur, vinnugefinn, en enginn áhlaupamaður.

Þau voru næsta óskaplík, Daníel og Guðrún, en hafi Daníel gert sér nokkra grein fyrir því, hefur hann ekki látið slíkt á sig fá, og ekki stóð í löngu þófi fyrir honum að fá konunnar, því að þau voru gefin saman í hjónaband árið 1792, og gekk Guðrún þá með barni hans.

Nú flyst Daníel enn búferlum, sest að á Skipalóni á Þelamörk og kaupir þá jörð. Fjóra sonu eignast þau á fjórum árum, en missa alla úr landfarsótt. Og segir sagan, að Daníel hafi tekið sér missi þennan svo nærri, að hann hafi ekki tekið á heilum sér síðan. Guðrún verður nú þunguð í fimmta sinn, og í fyllingu tímans, 17. nóv. 1796, fæðir hún son, sem hlýtur nafnið Þorsteinn, er þjóðkunnur varð undir Daníelsensnafninu, eins og áður greinir.

Árið 1798 fæðist þeim Skipalónshjónum dóttir, sem skírð var Ásta Þórunn. Aldamótaárið fæðist þeim svo sonur, sem hlýtur í skírninni nafn Þórðar, föðurbróður húsfreyju. Fleiri urðu ekki börn þeirra Skipalónshjóna, en þessum þremur, sem á legg komust, varð óvenju langs lífs auðið. Þau komust öll á níræðisaldur, og öll höfðu þau að heimanfylgju kosti þá, sem einkenna þóttu Lónsheimilið á búskaparárum foreldra þeirra.

III.

Árið 1814 markar á ýmsan hátt tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar. Það ár eru drög lögð að því, að Jóni, syni Þorláks Hallgrímssonar í Skriðu, er boðið utan til búnaðarnáms, en Þorlák má kalla föður íslenskrar trjáræktar, auk þess sem hann er einn þjóðkunnasti hugvitsmaður, sem íslensk bændastétt hefur alið.

Um þessar mundir er að vaxa úr grasi stór hópur efnilegra manna og kvenna í Glæsibæjar- og Skriðuhreppum. Börn Þorláks í Skriðu og Margrétar konu hans eru að nálgast fullorðinsaldur. Öll hafa þau hlotið ágætt — og raunar fágætt uppeldi. Á Lóni eru börn Daníels og Guðrúnar, mannvænleg í besta lagi. Séra Jón Jónsson, þjóðkunnur merkisklerkur, fylgist mjög vel með uppvaxandi kynslóð.

Fyrir nokkrum árum hefur hann skrifað um Þorstein á Lóni: „Mikill nokkuð fyrir sér, líklega efnilegur“. Þetta herrans ár, 1814, getur sóknarpresturinn hiklaust borið lofsorð á þennan pilt frá Lóni. Hann fær um þessar mundir þann vitnisburð, að hann sé smiður góður og efnilegasti ungur maður sóknarinnar, og er þá mikið sagt.

í Lögmannshlíð er um þessar mundir piltur, Björn, sonur fyrrnefnds prests. Hann varð upphafsmaður að blaðaútgáfu á Norðurlandi. Systur átti hann, Guðnýju að nafni, en hún varð ein efnilegasta skáldkona okkar. Lítill tappur, aðeins sjö ára um þessar mundir. Jónas Hallgrímsson átti eftir að kynna þjóðinni skáldskap Guðnýjar. Um þessar mundir og á þessum slóðum er líka viðloða piltur, Hjálmar að nafni Jónsson, góðkunningi Þorsteins á Lóni. Hann varð síðar þjóðkunnur undir nafninu Bólu-Hjálmar.

Sá hefur löngum orðið hlutur kvenna í íslenskri sögu síðari tíma, að þeirra er þá helst getið, ef frægar hafa orðið að endemum. Heimasæturnar að Skriðu og Lóni, Ásta Þórunn og Margrét Þorláksdóttir, þóttu á sinni tíð í röð mikilhæfustu kvenna. Listfengi var  aðalsmerki þeirra. Einkum er því við brugðið, hve listhög Margrét Þorláksdóttir hafi verið.

Námsför Jóns frá Skriðu, sem áður er minnst á, varð til þess, að stjórnarvöldin buðu utan til búnaðarnáms einum pilti úr hverju amti. Úrskurður konungs um þetta efni var gefinn 1817, og áttu sýslumenn að vera amtmönnum til leiðbeiningar um val námssveina. Úr norður- og austurumdæminu var, þótt undarlegt kunni að virðast, valinn piltur úr nágrenni Jóns frá Skriðu, Þórður, sonur þeirra Skipalónshjóna. Lætur að líkum, að Guðrúnu hafi fallið vel þessi tilhögun og vænst þess, að sonurinn héldi á loft því merki, sem föðurbróðir hennar hafði hafið.

Um þessar mundir var Þorsteinn á Lóni með hugann allan við smíðar, en þó féll það í hans hlut að verða frumkvöðull að nýjum og betri búnaðarháttum.

IV.

Um heimilislíf á Lóni eru ekki miklar heimildir. Börnin hafa orðið að vinna hörðum höndum í uppvextinum, og aginn var strangur. Vel var séð fyrir menntun þeirra allra til munns og handa. Heimiliskennari var fjöldamörg ár á Lóni, því alltaf voru einhverjir unglingar, sem kennslu þurftu. Ástæða er til að ætla, að heimilislífið hafi verið stormasamt. Má í því sambandi geta þess, að Daníel var reglumaður á vín framan af ævi, en hneigðist á efri árum mjög til drykkju, kom jafnvel drukkinn til kirkju sinnar. Sögn er um, að Daníel hafi eitt sinn við messugjörð á Möðruvöllum verið mikið drukkinn sem oftar og mókti undir ræðunni, sem raunar mun ekki hafa verið fátítt í þá daga. í svefnmókinu varð honum á að þrífa til brennivínsfleygsins í stað tóbakspontunnar og hella í nef sér, en vaknaði að vonum við vondan draum, en mistök þessi ollu helgispjöllum. Ódrukkinn var Daníel hins vegar hið mesta prúðmenni.

Guðrún var aftur á móti hvassyrt og lét flest fjúka, er henni þótti. Verða hér tilfærð ummæli, sem henni eru eignuð, hvort sem með réttu er eða ekki, því að þau eru til vitnis um það orð, sem af henni hefur farið. Sá hneykslisatburður gerðist á Lóni aldamótaárið, að Guðrún, fyrri konu barn Daníels, eignaðist tvíbura með manni nokkrum, sem verið hafði viðloða á Lóni. Segir sagan, að henni hafi gengið erfiðlega að fæða og barmað sér, og þá hafi Guðrún húsfreyja undið sér að henni með nokkrum þjósti og sagt: „Þetta kemur nú á eftir hinu ganinu ykkar“.

Fleira mætti til tína, sem bent gæti til þess, að nokkuð stormasamt hafi verið á heimilinu, en hér verður staðar numið.

Daníel á Lóni var góður smiður, og kenndi hann Þorsteini smíðar framan af, en síðar nam hann hjá Eyjólfi hinum forvitra, uns hann fluttist austur á land árið 1819. Þorsteinn varð þá eftir á Akureyri og ganga óljósar sagnir um, að vist hans þar hafi lokið með skjótum og óvenjulegum hætti. Hann kvað hafa verið dæmdur brottrækur úr bænum fyrir að eiga barn með giftri konu. Barnið var þó í kirkjubókinni talið skilgetið. Þessi úrskurður var að vísu ógiltur síðar af æðri dómstóli, en Þorsteinn varð þó að hverfa úr bænum. Nokkur uppreist mun honum samt hafa þótt, að sjálfur amtmaðurinn á Möðruvöllum tók hinn dæmda mann upp á arma sína, því að honum þótti mikið til Þorsteins koma og mun hafa stuðlað að því, að Þorsteinn fór utan til frekara náms þetta haust.

Engar sögur fara af útivist Þorsteins, en heim kom hann snikkari eftir ársdvöl ytra með hugann fullan af nýjungum og skyldi nú tekið til óspilltra málanna, velt í rústir og byggt á ný! En svo er að sjá sem brottreksturinn frá Akureyri hafi ekki orðið Þorsteini nógsamleg áminning, því að þetta ár — 1820 — fæðist honum dóttir. Um móður að henni veit ekki sá, er þetta ritar, en barnið tók Þorsteinn til sín. Er auðsætt, að nokkurt fjöllyndisorð hefur farið af Þorsteini um þessar mundir, enda mun hann hafa borist nokkuð á, verið vínhneigður og haldið sig ríkmannlega, en vann þó af kappi. Er varla að efa að ástarævintýri hans hafa mjög á hann fengið, svo ungan mann og næmgeðja, en fár mun hafa vitað í hugann.

Hér fór sem fyrr, að skammt var að bíða uppreistar, því að einn merkasti bóndi landsins, Þorlákur í Skriðu, gefur honum dóttur sína, Margréti, sem áður er getið. Þau voru gefin saman með konungsleyfi 21. júlí 1821. Fyrst voru þau á Akureyri, en árið 1823 flyzt Margrét út að Lóni ásamt vinnuhjúum, en Þorsteinn dvelst enn í bænum, flyzt út eftir árið eftir. Þetta vor kaupir hann vísi að bústofn af föður sínum og að auki nokkurt innbú.

Er Þorsteinn flyzt í Lón hefur hann þegar stórfelldar framkvæmdir á ábýlisjörð sinni. Torfbær var á Lóni hólfaður í fimm hluta: 2 búr, göng, eldhús, baðstofu og eldiviðargeymslu. Yfir fremra búrinu var loft, sem gengið var í úr eldiviðarhúsinu, en skemma norðan við bæinn. Þessi húsakynni munu Þorsteini hafa þótt í órífasta lagi, og hefst þess vegna handa um smíði timburhúss, stofu, eins og kallað var í þá daga. Svo vel var vandað til smíðarinnar, að hús þetta stendur enn og er notað til íbúðar, lítt breytt hið innra. í Lónsstofuna lét hann þegar koma fyrir veggofnum til upphitunar. Allt bar vott um smekkvísi og hagsýni. í bestu stofu er spjaldaloft og spjaldveggþil í stofunni allri, og spjöldin máluð tveim litum, en gluggar á húsinu fleiri og stærri en tíðkanlegt var  áratugum síðar, og var hægt að setja hlera fyrir alla glugga á neðri hæð. í norðurenda hússins var verkstæði. Uppi á loftinu var gestaherbergi, svefnherbergi pilta og geymslur. Stiginn upp á loftið er viðamikill og sterklegur. Á honum er handrið og kefli til hægri handar við skörina, þá upp er gengið, en járnvör framan á þrepum.

Þegar upp kemur á stigabrún getur að líta til vinstri handar rimlagrind, sem er til þess ger, að ekki verði gengið fram af skörinni, og eru nokkrir renndir pílárar í grindinni. Í matargeymslunni var öllu sem haganlegast fyrir komið. Hilla mikil var á öðrum langvegg, en bekkur  neðar, og undir honum voru skúffur margar, sem höfðu að geyma brauð og ýmiss konar matvöru aðra, og var sitt hólfið fyrir hverja tegund, en auk þess var þarna grunn skúffa fyrir smádót.

Hvarvetna á loftinu getur enn að líta trésnaga, hillur og syllur. Á vesturloftinu, sem kallað var, höfðu stúlkur dót sitt og svo þeirra, er þær þjónuðu, og hafði hver vinnukona þar afmarkað rúm með hirslum og snögum, en hins vegar sváfu þær niðri í daglegu stofu. Á suðurlofti var gestaherbergi, og lítið súðarherbergi austur af. Yfir þessum herbergjum er svo hanabjálkaloftið, og voru tóskaparáhöld og annað þess konar geymt þar, en kvistur var upphaflega enginn á húsinu.

Hér hefur orðið að fara fljótt yfir sögu, því að í stuttri grein verður ekki gefin nákvæm lýsing á öllum framkvæmdum Þorsteins Daníelssonar. En þess má geta, að svo mikið þótti til Lónsstofunnar koma og annarra framkvæmda á Lóni, að það var segin saga að fara þangað með góða, erlenda gesti, sem til Akureyrar komu, svo að þeir mættu líta alla dýrðina, og hafa sumir getið komu sinnar og lokið miklu lofi á. Það mun hafa verið nær einstakt hérlendis í þá daga, að koma á sveitabæ, þar sem hlaðið er allt hellulagt, svo sem enn sér merki, og er dyrahella mikil við aðaldyr og á hana klappað ártalið 1821, en bæjarnafn og ártal er líka yfir dyrum.

Þegar hér er komið sögu, er Þorsteinn ekki þrítugur, en þegar orðinn kunnur maður fyrir óvenjulega framtakssemi, hagsýni og snyrtimennsku, þótt misjafnlega mæltist fyrir. En hann lét ekki hér staðar numið. Á næstu árum hefst hann handa um að byggja upp öil peningshús, að minnsta kosti fimm talsins og hlöðu við hvert hús. Öll voru peningshúsin svo vel viðuð og vel til alls vandað, að þau hafa staðið til skamms tíma. Brunn lét hann grafa innan dyra í fjósi og hafði vindu á, og á sama hátt var gengið frá bæjarbrunninum. Öll voru húsin háreist og mun bjartari en venja var um fénaðarhús.

Fleiri járn hafði Þorsteinn í eldi á þessum árum. Hann reisti timburhús að Hofi í Hörgárdal 1828, og hefur verið búið í því til þessa. Á þessum árum lagði hann og mjög stund á hvers konar aðrar smíðar, þó ekki í sama mæli og síðar varð. Hann smíðaði mikið af hjólbörum og hóf notkun þeirra til vegs og virðingar í Eyjafirði. Hvers konar húsgögn og búsáhöld smíðaði hann og var ekki laust við, að ýmsum þætti búandkörlum stafa nokkur fjárhagsleg hætta af iðnverinu á Lóni, því að húsgögnin gengu í augun og margur freistaðist til að kaupa. Það var og segin saga að fá Þorstein til að smíða utan um heldri menn, þannig smíðaði hann kistu Stefáns amtmanns Þórarinssonar, og er þess sérstaklega getið í samtímaheimildum, að snilld hafi verið á smíðinni.

Er Þorsteinn hafði búið nokkur ár á Lóni, er honum falið umboð Möðruvallaklaustursjarða og svo kirkjunnar, en þær voru rétt um 60 talsins, og er þó hjáleigum sleppt. Sjálfur hlaut hann nokkrar jarðir í arf eftir foreldra sína um 1830 og eignaðist brátt fleiri, og hefur því lengst af ævinni haft umsjá og eftirlit með um 100 jörðum, sem dreifðar voru um þrjár sýslur. Þótt Þorsteinn væri ekki nema rúmlega þrítugur um þessar mundir, þótti alþýðu vel við hæfi að svipta hann skírnarnafni og titla hann framandlega: upp frá þessu hét hann Daníelsen, og verður því nafni haldið hér eftir.

Þótt hagur Skipalónshjóna stæði um þessar mundir með miklum blóma, lifðu þau þyngstu raunir ævinnar á þessum árum. Þau eignuðust dóttur árið 1826, og dóttir Daníelsens, sem fyrr er getið, fædd 1820, var og á heimilinu. Skæður andarteppufaraldur geisar um sveitina, og missa þau hjón telpurnar báðar síðla árs 1827. Fékk þetta mjög á þau hjón bæði, einkum þó Daníelsen, því að hann varð aldrei samur maður. Fleiri urðu börnin ekki, en þau hjón ólu upp að meira og minna leyti fjölda barna.

Þegar Daníelsen hafði byggt upp öll hús á Lóni fór hann að hugsa fyrir girðingu um túnið, svo og að færa það út. Um 1835 hafði hann lokið við að gera torfgarð mikinn kringum það, vel gerðan, en hann gafst þó illa og var að mestu fallinn eftir nokkur ár, en mold úr honum spillti sprettu. Ekki gafst Daníelsen upp við svo búið. Honum var ljóst, að túnrækt átti enga framtíð nema því aðeins, að bændur tækju plóginn í þjónustu sína. Um 1850 var aðeins einn plógur til í öllu norður- og austurumdæminu, og munu leifar hans enn til. Daníelsen brá sér í kynnisför til Danmerkur haustið 1849 og var þar af veturinn. Vorið eftir kemur hann svo út með danskan mann, þaulvanan plægingum og iðnaðarstörfum, hefur með sér aktygi til tveggja hesta og fjórhjólaðan vagn — og þótti skrítið uppátæki í veglausu landi. Nú var þegar hafist handa um að girða túnið að nýju og stækka það. Var nýr garður hlaðinn og nú að mestu úr grjóti, og stendur mikið af honum enn. Lengd hans er 1025 m, þar af 116 m torfgarður; hæðin 1.25 m og breidd að neðan 1.60 m. Vegir voru ruddir, þar sem fara þurfti með vagninn. Engjaheyskapur reyndist nú langt um auðveldari en áður, því að öllu útheyi var ekið heim á vagninum. Flutningar allir urðu léttari og minni þörf fyrir marga hesta. Vor ið 1850 hófust plægingar, sléttun og sáning. Lét hann meðal annars sá til hafra, hörs og korns, en hafði auk þess alltaf allmikla garðrækt. Hafrarnir spruttu vel, en hörinn og kornið náði ekki að þroskast til fullnustu, enda ekki nógu snemma sáð um vorið. Árangur af túnasléttuninni kom þegar í ljós: Skák, sem fimm menn voru fjóra daga að slá áður, léku nú tveir menn sér að að slá á sama tíma. Alls mun Daníelsen hafa sléttað 8—10 dagsláttur, og mun engum þykja mikið nú, en var einstakt þá. Þessi tilraun varð til þess, að áhugi manna fyrir túnrækt glæddist mjög, enda vann hinn danski plægingamaður að túnasléttun í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, og sjást enn merki verka hans.

V.

Hér að framan hefur stuttlega verið gerð grein fyrir ýmsum framkvæmdum, sem Daníelsen stóð í fram undir 1850, er þó langt frá því, að öll kurl séu til grafar komin. Bakkakirkju í Öxnadal byggði hann 1842 og bæinn sömuleiðis. Árið 1843 smíðar hann Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd og hefur hún verið notuð allt til þessa. Ári síðar smíðar hann Munkaþverárkirkju, sem enn stendur, allbreytt. „Búðina“ á Raufarhöfn, stórhýsi mikið, sem brann fyrir nokkrum árum, reisti hann laust fyrir 1850. Vissa er fyrir, að hann hefur á þessum árum staðið að fleiri byggingum, og verður hér sérstaklega getið smíðahússins á Lóni („Pakkhússins“), er hann lauk við árið 1843, mikið hús og traustlega byggt, og stendur það enn. Er nú í ráði að varðveita það sem elstu minjar sinnar tegundar um iðnmenningu á 19. öld. Þegar Daníelsen hafði komið þessu mikla smíðaverkstæði á fót, skapaðist honum ágæt aðstaða til að stunda hvers konar smíðar úr tré og járni. Hafði hann jafnan um sig flokk lærlinga og iðnlærðra manna, er fór sveit úr sveit og vann að húsasmíðum undir eftirliti hans. En jafnan var á boðstólum heima fyrir hvers konar smíðavarningur úr tré og járni. Mun óhætt að fullyrða, að enginn einstaklingur í hópi iðnaðarmanna á 19. öld hafi haft slík umsvif sem Daníelsen á Lóni.

VI.

Útgerð hafði Daníelsen stundað öll sín búskaparár. Þegar hákarlaveiðin hófst að marki við Eyjafjörð um 1850, var tíðum sótt langt á opnum skipum og útivist löng og ströng. Það lætur að líkum, að kaldsamt hafi oft verið fyrir skipshafnir á fleytum þessum. Slys voru líka mjög tíð, en dauðsföll af vosbúð hafa sennilega verið enn tíðari.

Veturinn 1850—1851 vinnur hann ásamt öðrum að því að setja þilfar í gamalt hákarlaskip. Var smíðinni lokið um vorið 1851 og markaði tímamót í útgerðarsögu Norðurlands, því að þilskip hafði ekki verið smíðað þar síðan Eyvindur Jónsson (Duggu-Eyvindur) smíðaði duggu sína, svo sem frægt er af sögum. Ísinn hafði verið brotinn, og var nú hvert skipið smíðað af öðru og aflinn, sem á land barst var svo mikill, að „gengur næst sem að grafa í gullnámum Kaliforníu eða Ástralíu“, svo að notuð séu ummæli blaðsins Norðra frá þessum árum. Daníelsen mun hafa smíðað að minnsta kosti sjö þilskip, fimm fyrir sjálfan sig og tvö fyrir aðra, en auk þess keypti hann eitt þilskip frá útlöndum. Vitað er, að tvö þessara skipa voru gömul og í þau sett þilfar. Svo töldu merkir samtímamenn, að vel hefði verið til skipa þeirra vandað, er Daníelsen byggði frá grunni, en að sjálfsögðu átti skipasmíðin eftir að taka miklum framförum. Árið 1865 hefur hann misst fjögur skip, þrjú, sem hann hefur smíðað sjálfur og auk þess skip það, er hann keypti erlendis, en það strandaði, og talið er, að eitt þessara skipa hafi farist í ís, sem ávallt var hér á miðum á þessum árum, en um afdrif hinna er ekkert vitað. Daníelsen á þá ekkert skip eftir. Tók hann sér þetta mjög nærri að vonum, enda fórst með skipum þessum margt sveitunga hans, vandamenn og vinir.

Óvildarmenn hans hafa síðan notað sér þetta áfall og kennt því um, hve illa skipin hafi verið úr garði ger, og Daníelsen hafi jafnvel hvorki hirt um eða tímt að hafa frágang þeirra betri. Auðsætt er, að skipin hafa á mælikvarða síðari tíma verið léleg, en það er svo með flesta frumsmíð, að hún stendur til bóta, en á þessum árum þætti vel að verið. Ég læt nægja að vitna hér til ummæla merkisklerksins Davíðs prófasts Guðmundssonar á Hofi, en hann segir, að hann hafi „breytt til mikils batnaðar bátalagi og má teljast frumkvöðull þilskipaveiðanna við Eyjafjörð, sem síðan tók svo miklum framförum og hafa orðið svo stórkostleg auðsuppspretta fyrir þetta hérað“. Árið 1871 eignast hann aftur hlut í þilskipi, en 1874 á hann eitt og mun það vera Víkingur, síðasta skipið, sem hann smíðaði að öllu, og varð skipa elst. Útgerðina stundaði hann til æviloka.

Hér að framan er getið um húsasmíðar Daníelsens fram til 1850, en hann átti enn eftir að ljúka miklu verki á því sviði. Hann hafði unnið mjög að endurbótum á Möðruvallaklausturskirkju, en er hún brann árið 1865, var Daníelsen falið að reisa nýja kirkju á staðnum og var sú kirkja vígð 5. ágúst 1866, og stendur hún enn og þykir með fegurstu kirkjum þessa lands. Veturinn 1861—62 vann Daníelsen að smíði húss fyrir H. P. Tærgesen, kaupmann á Akureyri, og var stórhýsi á þeim tímura, 24 álna langt, 14 á breidd og „14 á hæð, þar af 3 álnir í þakskegg með 8 tveggja álna háum gluggum á hverri hlið, tvídyrað“. Síðasta húsið, sem Daníelsen smíðaði svo að kunnugt sé, var „ráðhúsið“ á Akureyri, byggt 1874.

Um fyrirhugaða smíði segir Daníelsen í bréfi: „Mætti ég ráða, skyldi Bakkus verða sá fyrsti sem kæmi inn í sellurnar. Þær eiga að þiljast innan með þriggja þumlunga plönkum“. En Daníelsen var sem alkunnugt er ákafur andstæðingur Bakkusar, enda þótt hann blótaði hann lítils háttar sjálfur fram á elliár. Þegar hér er komið sögu — eða um 1870 — eiga Eyfirðingar einvalalið smiða, en þó er meistaranum gamla í hárri elli falið að byggja þau hús, sem vel skal vanda. Og eru það ekki kyn, þegar orða Tryggva Gunnarssonar um Daníelsen er minnst: „Þorsteinn var sá fyrsti, sem byrjaði að smíða þiljubáta til hákarlaveiða, því að hann var þjóðhagi mesti bæði á tré og járn“. Þess er getið í upphafi þessarar greinar, að Daníelsen hafi af sumum samtíðarmönnum verið dáður og elskaður, en af öðrum fyrirlitinn og hataður. Þessi fjarstæðu viðhorf til mannsins eiga rætur að rekja til hátta hans, fastmótaðra skoðana, örrar skapgerðar og óvenjumikillar hreinskilni, sem hann beitti við hvern, sem í hlut átti. Daníelsen var ekki metnaðargjarn maður, en fram úr hófi ráðríkur, vinnuharður, hlutsamur um mál manna, hvassyrtur og kunni að haga skeytum svo, að undan sveið. Hann hafði óvenjumikinn áhuga á að gera gott, og jaðrar við, að sá áhugi hans verði sjúklegur. Þar sem hann varð var við, að menn sýndu dugnað og framtak, var segin saga, að hann vildi stofna til samskota í viðurkenningarskyni og gaf þá ríflega sjálfur. En þeir, sem litla viðleitni sýndu til sjálfsbjargar, áttu sér sjaldnast hjálpar von hjá Daníelsen, þó gat brugðið út af því, því að maðurinn var brjóstgóður, en þá sKorti heldur ekki góð ráð með gjöf. Oft sárnaði honum mjög, þegar félitlir menn státuðu í fötum úr erlendum efnum, þótti þó ýmsum sem Daníelsen færist illa að finna að klæðaburði á þennan veg, því að sjálfur var hann jafnan fyrirmannlega búinn, enda orðlagt snyrtimenni. Var því stundum viðkvæðið hjá Daníelsen: „Nennið að vinna, klæðist hver að efnum“. Fræg eru orðtök hans við vinnuhjú sín: „Farðu heim og greiddu þér“ og „farðu heim og þvoðu þér“ — og rak þau jafnvel heim af engjunum. Eitt sinn sem oftar kom nafngreindur gestur til Daníelsens og býður húsbóndi honum inn. Eftir andartak kallar hann í gestinn fram á verkstæði og stendur þá þvottaskál á hefilbekknum og hjá henni handklæði og sápa. Stynur þá Daníelsen upp: „Ja, Kristján, það eru reyndar orðnar mosavaxnar á þér augabrýrnar af skít.“ Síðan skipaði hann honum að þvo sér.

Fátítt mun það og ekki hafa verið, að Daníelsen sendi vinnuhjú sín eða greiddi úr eigin vasa vinnuhjúum annarra fyrir að þrifa til á heimilum og var ekki alltaf vel þegið. Letin var höfuðfjandi í augum Daníelsens, og taldi hann, að landinn yrði að stíga fyrsta sporið til að varpa af sér verslunarokinu, en það yrði aðeins gert með því móti, að menn sýndu meiri reglusemi, dugnað og hagsýni, og þá væri hægt að bjóða kaupmönnum byrginn. Margar sögur ganga því um baráttu Daníelsens við letina.

Einhverju sinni tók bóndi nokkur hóglífur að sér að standa fyrir verslun, en veiktist skömmu síðar Daníelsen fréttir þetta og segir við pilta sína: „Vitið þið, piltar, af hverju hann N. veiktist?“ Margs var til getið, en ekki rétt að Daníelsens hyggju og sagði hann því: „Nei, nú skal ég segja ykkur það. Maðurinn þurfti að snúa sér við í búðinni, en hann kunni það ekki.“

Eitt sinn spurði Daníelsen aðkomumann frétta. Gesturinn kvaðst engar fréttir hafa að segja aðrar en þær, að landseti hans einn, sem hann nafngreindi, væri dáinn. „Ójá, svo hann er dáinn; hefur ekki nennt að anda lengur, greyið.“ „Mikið er að sjá óhirtnina á sumum bæjunum,“ sagði Daníelsen eitt sinn, er hann kom úr ferðalagi. „Ekki er von, að landið blessist eða menn haldi heilsu og efnum, meðan svona gengur“ — „Þér vex nú allt í augum, Daníelsen minn,“ varð einhverjum að orði. — „Vex í augum! Já, þú skyldir hafa verið nótt með mér á einum bæ nýlega. Þar voru flærnar komnar á fertugsaldur.“

„Ástandið hjá okkur er þó ekki eins vont og þú segir.“

„Svo? En hefurðu þá séð grasið framan í honum Sigga?“

„Nei, hvað áttu við með því?“

„Jú, það er svo langt síðan hann þvoði sér, að skófin er orðin svo þykk, að það er farið að vaxa gras framan í honum.“

Maður hét Gísli og bjó á Pétursborg, næsta bæ sunnan við Skjaldarvík. Harðduglegur maður, en efnalítill, er þessi saga gerðist. Daníelsen hittir Gísla eitt sinn í fjörunni milli Skjaldarvíkur og Borgar. Gísli var klæddur skinnstakki miklum og þótti Daníelsen hann framsettari en eðlilegt væri. Vildi Daníelsen fá að sjá, hvað hann bæri undir stakknum og varð Gísli að leysa bandið og duttu þá æðarkollur fyrir fætur Daníelsens, en hann átti æðarvarp gott og lét sér mjög umhugað að auka það sem mest. Varð Daníelsen yggldur á brúnina, gat þess þó, að fuglarnir væru fallegir, en mæltist til þess að fá að líta á byssuna, skoðaði hann hana sem gerst og mælti af stundu: „Lélegt verkfæri, Gísli.“ Síðan skilja þeir og heldur hver sína leið. Um kvöldið er kvatt dyra á Pétursborg og er þar kominn Daníelsen á Lóni og gerir boð fyrir Gísla. Daníelsen heilsar honum vingjarnlega og skákar til hans nýrri byssu, hinum besta grip og segir: „Eigðu hana þessa. Þú átt það skilið. Þú nennir alltént að bjarga þér.“ Síðar höfðu gárungarnir orð á við Daníelsen. að hann hefði gefið Gísla á Borg byssu, svo að hann gæti banað sem flestum æðarkollum. „Hann átti þetta skilið, greyið. Hann nennti að bjarga sér,“ varð D. að orði.

Ekki er vitað til, að Daníelsen hafi lagt mikla rækt við skáldskaparíþróttina um dagana, en þó er með vissu vitað, að hann unni skáldskap. Tryggvi Gunnarsson segir þó, að hann hafi samið eina skáldsögu og var hún um Bakkus og Letina. „Hann lætur þau mælast á förnum vegi,“ segir Tryggvi, „lýtast strax vel hvoru á annað og giftast stuttum tíma síðar. Þau eignuðust þrjú börn. Drengurinn hét Armóður og dæturnar Örbirgð og Subba. Nærri má geta, hvernig búskapurinn gekk og hvernig barnabörnin urðu,“ bætir Tryggvi við.

Daníelsen á Lóni dó að kvöldi 7. des. 1882, 86 ára gamall, en maddama Margrét árinu áður. Hún var orðinn löng þessi leið frá vöggu til grafar, þó hafði aldrei verið linnt á sprettinum, því að skapgerðinni var þannig háttað. Glöggum mannþekkjara, sem vel hafði fylgzt með Daníelsen í uppvextinum, duldist ekki, að hér gæti úr orðið gott mannsefni. En þessi strákur frá Lóni var snemma mikill nokkuð fyrir sér og erfitt að skera úr um, á hvern veg krókurinn mundi beygjast, meðan hann enn var á milli vita. Frá borgaralegu sjónarmiði leit svo út um skeið, sem orka hans og ástríður mundu ekki finna annan farveg en þann, sem auðfarnastur er mönnum með ríka listamannslund, en lítið þrek hafa til að beizla orkuna. Hann var á unga aldri glaðvær maður — og raunar alla ævi öðrum þræði, skrafhreyfinn, talaði sig heitan og var logandi skemmtilegur, þegar hann ræddi áhugamái sín. Ymislegt frá æskuárum hans bendir til þess, að hann hefði getað orðið drykkfelldur listasmiður og kvenhollur í betra lagi, en aldrei orðið neitt við hendur fast, svo sem títt var um ýmsa starfsbræður hans. Oft virðist það vera tilviljun ein, sem straumhvörfum veldur í lífi manna. Utanlandsför og góðra manna brýning verður til þess, að honum opnast nýir heimar.

Iðnsveininum frá Lóni verður á að bera saman háreist húsin í kóngsins Kaupinhöfn og moldargrenin heima á Þelamörkinni. Og honum hleypur kapp í kinn. Og um þessar mundir — veturinn 1819—1820 — gerir ungur landi upp reikningana við sjálfan sig. Hann hefur fundið takmark í lífinu. Hann ætlar að byggja upp sveitina sína, Þelamörkina, nei, sýsluna alla, helzt landið allt. Hann ætlaði að kenna fólkinu að lifa mannsæmandi lífi. Hann skyldi ekki þurfa að bera kinnroða fyrir að vera íslendingur. Þessi ákvörðun hefur ekki verið sársaukalaus, en henni varð ekki þokað. Brottför hans frá Fróni hafði líka verið með þeim hætti, að gott var að koma með hugann fullan af hugsjónum og fara eldi um landið á nýjan leik. Svo hefst ævistarfið, sem stuttlega hefur verið lýst hér að framan. Hann varð fyrir mörgum og þungbærum áföllum á langri ævi, og eftir lát dætra sinni náði hann sér aldrei. Síðar ól hann upp mörg börn að meira og minna leyti, en þau, sem hann unni mest, létust á unga aldri, og hann dó svo, að óvíst var um erfingja að auði hans, enda skiptist hann í fjölmarga staði. Að margra hyggju hafði hann verið hörkutól, en þó er fullvíst að viðkvæmt barnshjarta sló að baki kuldalegu gervinu, harkan var aðeins andóf ástríðnanna og með stálviljann að vopni vann hann sigra sína. Og það slæðist að manni grunur um, að hann hafi þreytt þetta flug rétt eins og farfuglinn á leið til fjarlægra stranda. Hann átti ekki annarra kosta völ að takmarkinu. Með þessu móti einu gat hann haldið velli, að leita sér andlegrar hvíldar og eins konar fullnægju með þessu ofurmannlega vinnukappi. Áratugum saman þjáðist hann af geðveilu. Skammdegið reyndist honum þungt í skauti, en jafnan bráði af honum um sólstöðurnar eins og kunnum sýslunga hans, listaskáldinu gcða.

Daníelsen var á flestan hátt á undan samtíð sinni, og þegar hann lézt í hárri elli hafði samtíðin ekki náð honum á ýmsum sviðum. En svo sérkennilegur þótti hann, að hann var af ýmsum talinn lítt gefinn, en hitt mun scnnu nær, sem séra Davíð Guðmundsson segir um hann látinn í bersöguli húskveðju að hann hafi verið vitmaður. Hann fann sárt til þess, hve litlu hann hafði fengið áorkað, en átti þó fáa sína jafnoka. Er þvi vel við hæfi að enda þessa grein með orðum Tryggva Gunnarssonar, sem hafði allnáin kynni af honum:

„Ætti ísland þó ekki væri nema einn mann í sýslu hverri honum líkan að framúrskarandi dugnaði og áhuga fyrir vellíðan annarra, þá væri það ríkara að mönnum og fjármunum en það er“. — Þessi orð standa óhögguð enn í dag.

Úr 7. til 8 tbl. Heima er bezt 2020.

Höf: Kristmundur Bjarnason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: