- Advertisement -

Snúin staða orðin snúnari

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Til að gera stöðuna grárri þá er væntingarvísitala almennings einnig á hraðri niðurleið. Fram á við þá er almenningur ekki bjartsýnn.

Hið leiðandi bandaríska hagkerfi hefur áhrif á alla veröldina. Því er mikilvægt að fylgjast með gangi mála þar vestra. Á miðvikudaginn komu nýjar verðbólgutölur út upp á 6,2 prósent hækkun. Um þetta fjallaði ég í þessari grein Hraðinn eykst, er það undanfari hruns?. Ekki aðeins er bólgan orðin sársaukafull heldur jókst ákafinn að baki henni um 15 prósent frá mánuðinum á undan. Auknar líkur eru því að hlaðast upp að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka stýrivexti fyrr en áætlað var. Tveimur dögum eftir verðbólgutölurnar komu nýjar tölur um fjáhagslegt sjálfsálit Bandaríkjamanna og væntingar í þeim efnum.

Mælingarnar skipta máli því þær gefa vísbendingar um neyslu- og fjárfestingarvilja almennings og þar með hvert hagkerfið stefnir að óbreyttu. Skemmst er frá því að segja að mælingarnar lækkuðu fimmta mánuðinn í röð eftir að hafa vaxið eftir snarpa lækkun í upphafi faraldursins (sjá mynd). Er nú svo komið að nýjasta gildið yfir fjárhagslegt sjálfsálit er komið niður fyrir lægstu gildi í upphafi faraldursins. Og inn á svæði sem gjarnan endurspeglar efnahagslega erfiðleika samanber svarta lárétta línan, barlómslínan, sem ég teiknaði inn á línuritið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Óx hröðum skrefum.

Árabilið 1968 til 1983 einkennist af hækkandi verðlagi og vaxandi atvinnuleysi. Sem sagt, jákvætt samband þarna á milli þrátt fyrir hagfræðikenningu um annað.  Bólgan fór hæst í tæp 15 prósent árið 1980 og atvinnuleysi toppaði í tæpum 11 prósentum árið 1982 þegar skammvinnt Falklandseyjastríð geisaði. Til að vinna bug á agalausum verðhækkunum þá greip Seðlabanki þarlendinga til grimmilegra vaxtahækkana í stjórnartíð Paul A. Volkers. Fóru stýrivextir hæst í 18 til 20 prósent árið 1980. Árið eftir tóku gildi skattalækkanir ríkisstjórnar Ronalds Reagan ásamt lögfestingu lágmarkslauna upp á 3,35 dollara á hverja vinnustund. Árið 1983 voru útgjöld til varnarmála stórlega aukin, sem er fjáhagslegt ígildi innviðafjárfestinga. Taumhald komst á verðbólguna upp úr 1985 og atvinnuleysi komst loks undir 4 prósent um aldamótin.

Viðhorf Bandaríkjamanna reis og fóru mæligildi upp fyrir áðurnefnda barlómslínu. Óx hröðum skrefum. Héldust mælingar um og yfir 90 stigum allt fram til ársins 1990 þegar verðbólgan náði upp í 6,1 prósent í miðri bankakrísu (The S&L Crisis) sem ríkti á árunum 1986 til 1995. Í kjölfarið þá gekk almenningi erfiðlega að ná fyrra sjálfstrausti, en að lokum fór svo að mælingar náðu nýjum hæðum. Bjartsýniskastið hélst allt til aldamóta eða um líkt leyti og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hófu undirbúning að hinni skaðlegu einkavinavæðingu bankanna.

Svo kom fjármálahrunið og eftirmálar þess. Fjárhagslegt sjálfsálit versnaði og barlómslínan gaf eftir eins og myndin sýnir. Langan tíma tók að ná viðnámi og fótfestu, en hlutirnir byrjuðu að snúast árið 2012. Síðan þá og fram að heimsfaraldri þá batnaði sjálfsálit Bandaríkjamanna jafnt og þétt. Komst það á kunnuglegar slóðir og fór sjaldan undir 90 stigin. Í dag þá eru Bandaríkjamenn tölulega séð komnir á sömu slóðir og árið 1990. Verðbólga er 6,2 prósent og sjálfsálitið mælist undir 67 stigum.

Fram á við þá er almenningur ekki bjartsýnn.

Orsakirnar eru aftur á móti gjörólíkar í dag. Úrlausnarefni samtímans eru flóknari og af fjölbreytilegri uppruna. Seðlabanka Bandaríkjanna er því mikill vandi á höndum. Hann mun þurfa að horfast í augu við meiri ákefð að baki verðhækkunum og hratt minnkandi áliti þarlendinga á eigin fjárhagsstöðu. Til að ná bólgunni niður þá verður ekki hjá því komist að hækka vexti nema bankinn sé tilbúinn að taka áhættuna um að landið lendi í sama vanda og í kringum 1980. Ef bankinn byrjar vaxtahækkanir þá herðir það enn frekar að fjárhagsstöðu almennings og viðhorfsmælingar gætu versnað og varið löngum tíma undir barlómslínunni. Þegar sjálfsálitið brestur þá er æskilegt að Seðlabanki Bandaríkjanna geti gripið til örvandi aðgerða, en því er ekki til að dreifa í dag. Nema þá að taka áhættuna á auknu verðbólgubáli á sama tíma.

Til að gera stöðuna grárri þá er væntingarvísitala almennings einnig á hraðri niðurleið. Fram á við þá er almenningur ekki bjartsýnn. Þegar maður les skýrsluna sem fylgir nýjustu mælingum þá kemur fram að það sem veldur mestu eru áhyggjur af hratt vaxandi verðbólgu, minnkandi kaupmætti. Þarna er því að mínu viti tækifæri fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna að verða við ákalli almennings um að bankinn grípi til aðgerða og hækki vexti. Um leið og fólk sér trúverðugar aðgerðir í framkvæmd þá mun birta til og bjartsýnin aukast. Það gerðist upp úr 1980 og aftur árið 1990. Ef bankinn slugsar þá gætum við verið að horfa upp á langvinnt ástand undir barlómslínunni eins og var eftir fjármálahrunið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: