- Advertisement -

Sóðaskapur á Mogganum?

Verið er að halda úti þeim áróðri að atvinnulausir vilji ekki vinna.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Morgunblaðið hefur fært sig á þann stað að maður getur ekki lesið fréttir eða umfjöllun öðruvísi en að sannreyna það sem sett er fram. Stundum blasir vitleysan og áróðurinn bara við manni vegna þess að maður þekkir málefnið sjálfur vel, er með ferskar upplýsingar í kollinum. Í önnur skipti þá rímar umfjöllunin bara ekki við það sem maður sér og heyrir. Í seinna tilvikinu þá athuga ég stundum sjálfur opinberar upplýsingar og sé þá fljótt að blaðið misfer með og mistúlkar opinber gögn. Sjaldan, ef nokkurn tímann, er um mannleg mistök að ræða því maður sér að vandað er til verka að segja ranglega frá og setja fram hálfsannleik. Þetta er svona áróðurslist  sem gengur út á að segja ekki alla söguna og jafnvel rangfæra. Tilgangurinn er að mata lesendur af ranghugmyndum. Lokka þá til fylgilags við ranghugmyndirnar til að gæta sérhagsmuna fámenns hóps í þjóðfélaginu. Á það er treyst að lesendur almennt nenni ekki að sannreyna áróðurinn. Síðan er vonað að lesendur api síðan vitleysuna eftir í þjóðfélagsumræðunni.

Ein svona grein birtist í helgarblaði Moggans og ber hún fyrirsögnina „Atvinnuþátttaka er að dragast saman á Íslandi“. Þeir sem bara lesa fyrirsagnir ganga út í daginn með þá ranghugmynd að þetta sé rétt þegar þetta er í rauninni rangt. Birt er línurit með greininni sem byggir á upplýsingum úr Vinnumarkaðsrannsóknum hagstofunnar. Ef maður les bara þetta línurit þá sést að atvinnuþátttaka í dag er svipuð og hún var árið 2012 og á áþekkum slóðum og árið 2005. Á það ber að benda að þessar kannanir Hagstofunnar eru mjög ótraustar og sveiflukenndar. Þær byggja á mjög litlu og jafnvel ómarktæku úrtaki. Það er mér í fersku minni að niðurstöður svona könnunar frá 23. júlí síðastliðinn voru að atvinnuleysi í landinu hafi verið 3,5 prósent í júní. Þetta birti Hagstofan þó skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun (þeir sem fá greidd atvinnuleysislaun) í sama mánuði hafi verið 7,5 prósent. Ég nefna þetta til að benda ykkur hvað þessar kannanir eru ótraustar og ekki á þeim byggjandi. Samt ákvað Morgunblaðið að byggja breiðsíðugrein á slíkri könnun.

Atvinnuþátttaka er stærð sem sveiflast með ákveðnum hætti vegna aðstæðna í hagkerfinu. Þar spilar til dæmis inn í hvort aukinn fjöldi fólks ákveður að fara í nám. Það gerðist til dæmis eftir hrunið. Þar hjálpaði hvatning og aðgerðir stjórnvalda í þá átt að fólk sækti sér menntun á meðan afleiðingar hrunsins gengu yfir. Nýskráning nema í háskóla jókst til muna og þessi hópur var því ekki lengur skráður til atvinnuþátttöku. Síðan kom ferðamannasprengjan og atvinnuþátttakan fór aftur upp á við og toppaði árið 2017. Var þátttakan þá komin á svipað stig og rétt fyrir hrun. Vegna Covid-19 þá ákváðu stjórnvöld að bjóða upp á sumarnám í háskólum sem margir hafa nýtt sér sem annars hefðu leitað inn á vinnumarkaðinn. Um þetta er ekki fjallað í grein Morgunblaðsins.

Staðreyndin er sú að frammistaða þeirra sem stjórna fyrirtækjum hefur áhrif á bæði atvinnuþátttökuna og atvinnuleysið. Atvinnulausir meta síðan eigin stöðu út frá getu fyrirtækjanna til að ráð fólk í vinnu og taka ákvarðanir í samræmi við það. Sumir fara í nám eins og sagði og aðrir kjósa barneignir og svo framvegis.

Samhliða grein Moggans er lítið viðtal við forsvarsmann hjá byggingafyrirtæki hér á landi og upplýst að honum þyki fáir hafa sótt um lausar stöður sem fyrirtækið auglýsti laus nýverið. Samt sóttu 2,5 sinnum fleiri um en fjöldi starfa sem voru í boði. Meint áhugaleysi atvinnulausra var síðan sett í samhengi við að meira en 17.000 væru atvinnulausir nú um stundir. Fyrirtækið segist hafa átt von á meiri áhuga fyrir störfunum. Síðan var klykkt út með því að segja að aðeins 10 smiðir hafi sótt um. Þarna kom tilgangur greinarinnar vel fram. Verið er að halda úti þeim áróðri að atvinnulausir vilji ekki vinna. Það gleymdist bara að fjalla um að atvinnulausir dreifast um allt land og allir eiga ekki heima á atvinnusvæði fyrirtækisins. Það gæti því verið ærinn tilkostnaður að sækja vinnu hjá fyrirtækinu. Hvað smiði varðar þá er einfaldlega búið að vera ágætis tíð hjá þeim á þessu ári eins og tölur um auknar viðhaldsframkvæmdir landans endurspegla svo vel. Vegna veirunnar þá fór mikill fjöldi eigenda fasteigna í það að gera við og dytta að. Síðan er það stóra atriði sem er að atvinnuleysið varð að stórum hluta innan ferðaþjónustunnar. Atvinnulausir búa því ekki endilega yfir þeirri færni sem fyrirtækið var að sækjast eftir. Eins og oft áður þá helgar tilgangurinn meðalið. Sannleiksástin víkur fyrir fordómum og ranghugmyndum hjá Mogganum!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: