- Advertisement -

Spegill, spegill ljúgðu að mér

Jóhann Þorvarðarson:

Íslenskir bankar sýndu af sér óábyrga hegðun þegar ljóst mátti vera að Seðlabanki Íslands var að gera háalvarleg mistök með ákvörðun, sem tekin var í marsmánuði árið 2020.

Rauða línan á myndinni sýnir þróun ársverðbólgu yfir þriggja ára tímabil. Hún er felld yfir bláa línu sem sýnir mánaðarlega útlánaaukningu lánastofnana til íbúðarkaupa yfir sama tíma. Frá og með mars 2020, eða í upphafi kóvít-19, þá er útlánaaukningin nánast lóðrétt upp á við. Á sama tíma og verðstöðnun, ef ekki verðhjöðnun, var allt í kringum okkur á árinu 2020 og stóran hluta 2021 þá var íslensk verðbólga á flugi. Þetta endurspeglast í því að í dag er uppsöfnuð bólgan hvergi meiri en einmitt á Íslandi.

Í samanburði við til dæmis Finnland þá er uppsöfnunin meiri en 8 prósentustig. Þetta er afleiðing mistaka í peningamálastjórn Seðlabanka landsins. Þau bitna illa á heimilum og fyrirtækjum. Mælist skaðinn í fjárhæðum, sem eru svo háar, að skrilljónir hljóma eins og fáeinar krónur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framkomið fjárlagafrumvarp er glórulaust.

Íslenskir bankar sýndu af sér óábyrga hegðun þegar ljóst mátti vera að Seðlabanki Íslands var að gera háalvarleg mistök með ákvörðun, sem tekin var í marsmánuði árið 2020. Í stað þess að spyrna á móti Seðlabankanum og gæta hófsemi þá stukku bankarnir á tryllingsvagn Seðlabankans. Byrjuðu að lána til íbúðarkaupa eins og enginn væri morgundagurinn.

Bláa línan sýnir ábyrgðarleysið glögglega. Á sama tíma þá ákváðu lífeyrissjóðir landsins að halda að sér höndum í lánveitingum til íbúðarkaupa, jafnvel þó það kostaði sjóðina minnkaða markaðshlutdeild. Þeir einfaldlega afþökkuðu að mæta í partíið þar sem bankarnir voru grímulausir í miðju kóvít að skála í Kampavín, ásamt fjármálaráðherra landsins.

Enginn virðist ætla að axla ábyrgð á málinu, enn sem komið er, enda víða að finna ljúgandi spegla. Þessi í stað ætlar ríkisstjórnin að kafa djúpt í buddu þeirra sem síst hafa efni á og láta borga fyrir Seðlabankamistökin.

Framkomið fjárlagafrumvarp er glórulaust og mun það ásamt alvarlegum ágöllum peningamálastjórnunarinnar ekki gera annað en að auka atvinnuleysi og framkalla kreppu þegar mið er tekið af nýjustu tíðundum frá Bretlandi. Má í raun segja að nýframlagt fjárlagafrumvarp sé nú þegar orðið úrelt og þarfnist umfangsmikillar andlitslyftingar!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: