- Advertisement -

Staða Síle vekur athygli

Frekjulöndin þrjú töldu sig aftur á móti jafnari en aðrar þjóðir og fóru fram með offorsi.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Síle er í fjórða sæti heimslistans yfir þjóðir sem komnar eru lengst í bólusetningu. Þetta vakti athygli mína þegar ég las listann yfir við ritun þessarar greinar hér  „Eftir á sérfræðingurinn“. Aðrar þjóðir við toppinn eru þjóðir sem hafa beitt frekju og völdum til að komast fremst í röðina. Þarna fara fremst Bandaríkin, Bretland og Ísrael. Í upphafi var ætlunin að alþjóðasamstarf yrði ofan á til að tryggja sanngirni í dreifingu bóluefna meðal þjóða veraldar. Átakið átti einnig að tryggja fátækum löndum aðgengi að bóluefnum. Um 154 lönd skrifuðu undir Covax samstarfið, sem er stýrt af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni.

Frekjulöndin þrjú töldu sig aftur á móti jafnari en aðrar þjóðir og fóru fram með offorsi. Beittu lyfjafyrirtæki miklum þrýstingi bak við tjöldin til að tryggja sér forgang. Síðan var útflutningsbanni bætt ofan á hegðunina og hafa ónotuð bóluefni hrannast upp í vöruhúsum Bandaríkjanna. Í þessu sambandi þá hefur forstjóri Pfizer lyfjarisans upplýst að forsætisráðherra Ísrael hafi hringt í sig 30 sinnum eða allt þar til hann fékk sínu framgengt. Athygli vekur að Fréttablaðinu þykir framganga landanna vera til eftirbreytni.

Stjórnvöld í Síle fóru snemma af stað í faraldrinum á síðasta ári og buðu meðal annars kínverska lyfjarisanum Sinovac að framkvæma fasa þrjú rannsóknir á bóluefni sínu meðal íbúa Síle. Í staðinn fær landið mikið magn bóluefna frá fyrirtækinu eða 66 milljónir skammta. Íbúafjöldi Síle er um 19 milljónir manna. Í dag þá er búið að bólusetja 30 prósent landsmanna Síle og ganga áætlanir út á að ljúka bólusetningu 80 prósent landsmanna í júní komandi. Síle fór sérstaka leið og getur hver sem er velt fyrir sér siðferðilegu hlið málsins og hvort hún sé til eftirbreytni. Snemma á þessu ári þá reyndi Ísland að tryggja sér aukið bóluefnamagn á grundvelli sérstöðu landsins, en mistókst. Ef út í það er farið þá held ég að öll lönd veraldar geti teiknað upp sérstöðu eigin lands til að ota eigin tota. Með allt þetta í huga þá hljómar frasinn „við erum öll í þessu saman“ kjánalega. Maður fær aulahroll.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: