- Advertisement -

Stefán Ólafsson á bólakafi í öskuhaug fortíðar

Jóhann Þorvarðarson:

Orðrétt þá segir hann í grein á Vísi „Jafnvel mætti takmarka utanlandsferðir eða skattleggja þær sérstaklega til að hemja óhófið.“

Við þær aðstæður þá myndi atvinnuleysi hjá félagsmönnum Eflingar stóraukast.

Að umræða um efnahagsvanda þjóðarinnar sé á villigötum er ekki nýtt fyrirbrigði. Hún byrjaði þegar fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum og færðist í aukana þegar ný áhöfn tók við stjórn Seðlabanka Íslands. Það sem er aftur á móti nýtt er að málsmetandi aðilar eru farnir að grafa í öskuhaugum fortíðar í leit að lausnum. Svona eins og að viðkomandi skilji ekki hvað það er sem drifið hefur velsældina áfram á Íslandi.

Seðlabankinn sagðist nauðbeygður að hækka vexti í tíunda sinn á ekki svo löngum tíma. Já, og aðeins mánuði eftir að hann lét hafa eftir sér að ekki væri þörf á frekari vaxtahækkunum. Afsökunin er að verðbólgan sé rótfastari en áður var talið og það komi bankanum á óvart. Yfirlýsingin vekur athygli þar sem verðbólga í Evrópu hefur verið á blússandi uppleið um margra mánaða skeið. Og þar skipti engu máli hvort horft er til almennra mælikvarða eða undirliggjandi bólgu. Þegar upp er staðið þá er það einungis hissugleiki Seðlabankans sem kemur á óvart. Það væri því ráð fyrir stjórnendur bankans að draga gluggatjöldin frá Svörtuloftum og tengjast raunveruleikanum. Farsælast væri auðvitað að skipta um áhöfn í bankanum því núverandi gengi hefur gert mörg rándýr hagstjórnarmistök.

Seðlabankinn kvartar sáran undan einkaneyslunni og utanlandsferðum landans. Segir hvoru tveggja vera vandamál. Stefán Ólafsson, prófessor emiritus í félagsfræði, leggur til lausn. Orðrétt þá segir hann í grein á Vísi Jafnvel mætti takmarka utanlandsferðir eða skattleggja þær sérstaklega til að hemja óhófið.“ Hann hefur örugglega verið vanstilltur eða reiður þegar hann skrifaði orðin eftir að hafa lært um nýjustu vaxtahækkun Seðlabankans. Með því má hafa samúð, en úrræðið sem hann leggur til er stórhættulegt enda á ferðinni vísir að höftum sem þjakaði Ísland lungann af síðustu öld. Tillagan væri einnig árás á frelsið og sjálfsákvörðunarrétt fólks um hvernig það vill nota sitt sjálfsaflafé. Einnig er að aðrar þjóðir myndu svara fyrir sig og þá færi ferðaiðnaðurinn á hliðina á Íslandi.

Tillagan, kæmi hún til framkvæmda, gæti leitt til brottvísunar af EES.

Fjórfrelsið, sem Íslendingar fengu með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), er grundvöllur hagsældar landsins síðustu þrjá áratugina. Úrræðið sem Stefán leggur til vinnur gegn frelsinu og væri jafnframt brot á EES samningnum. Það sætir því mikilli furðu að prófessorinn skuli leggja aðra eins vitleysu til og ígrunda ekki málið betur. Tillagan, kæmi hún til framkvæmda, gæti leitt til brottvísunar af EES.

Sá vandi sem nú er við að etja á rætur að rekja til fílsins í stofunni, íslensku krónunnar, sem ráðamenn landsins forðast að ræða. Seðlabanki Íslands hefur frá því á árinu 2020 haldið uppi fölsku gengi á krónunni með ítrekuðum inngripum á gjaldeyrismarkaði með þöglu samþykki ríkisstjórnarinnar. Afleiðingin er tvíþætt. Safnast hefur upp gríðarlegur halli á vöruviðskiptum við útlönd, sem nú setur þrýsting á krónuna í veikingarátt. Við þessu var búið að vara hér á Miðjunni.

Segja má að Seðlabankinn hafi niðurgreitt innflutt lífsgæði og íslenskan veruleika, sem seldur er til túrista. Afleiðingin er að verðbólgan er ranglega skráð, en landinn sýpur nú seyðið af enn einum mistökum bankans því verðbólga er aftur á uppleið. Hryggilegt er að málsmetandi aðili eins og Stefán Ólafsson skuli grafa á öskuhaugum efnahagshafta, sem ríktu á Íslandi á síðustu öld. Ef frelsið til sjálfsákvörðunar og ferðalaga yrði skert þá endar landið í holu sem afar erfitt og kostnaðarsamt verður að komast upp úr. Við þær aðstæður þá myndi atvinnuleysi hjá félagsmönnum Eflingar stóraukast.  


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: