
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Bankarnir reyndust reknir eins og hvert annað spilavíti þar sem núverandi seðlabankastjóri var lykil stjórnandi í einum bankanna.
Stefán Ólafsson ritar nýja grein, sem birtist hjá Kjarnanum, undir fyrirsögninni „Farsæl leið út úr kreppu“. Hann hefur greinina á órökstuddri staðhæfingu, sem ég staðnæmdist strax við. Orðrétt þá er fullyrðingin þessi „Með aukinni alþjóðavæðingu og auknu frelsi fjármagns aukast hættur á fjármálakreppum“. Í framhaldinu þá vísar hann til óskilgreindrar reynslu, þar á meðal reynslu Íslendinga af fjármálahruninu árið 2008.
Ég hnaut sérstaklega um síðari hluta alhæfingarinnar um að frelsi fjármagns leiði til vandræða. Sjálfur tel ég um sleggjudóm að ræða því bæði reynsla og rannsóknir veita fullyrðingu Stefáns enga vængi. Í það minnsta þá þarf hann að útskýra mál sitt betur.
Ef við byrjum á fjármálahruninu á Íslandi þá jók fjármagnsfrelsi ekki hættuna á fjármálahruni og hafði í raun ekkert með umrætt hrun að gera. Taumlaus græðgisvæðing og blekkingarvilji, sem náði inn í æðstu stöður fjármálastofnana, ásamt flóknum kóngulóarvef, sem verðir laga og réttar voru getulitlir gagnvart var hin raunverulega orsök kreppunnar. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis lýsir þessu vel og óþarfi að rifja söguna upp í smáum atriðum.
Bankarnir:
Allt í einu voru margir orðnir fjárfestar þó hina sömu skorti eigið fé.
Ótæpileg skuldsetning og aðgangur að gnótt fjármagns, bæði innanlands og erlendis, í gegnum blekkingar af ýmsum gerðum er það sem lagði grunninn að kreppunni. Allt í einu voru margir orðnir fjárfestar þó hina sömu skorti eigið fé. Enn aðrir voru orðnir fjármálaráðgjafar án þess að búa yfir hæfni til verksins. Sorgleg dæmi eru um fólk sem hætti að starfa að eigin iðn, til dæmis múrarar og sendibílstjórar, og fóru allt í einu að selja fjármálagjörninga gegn söluþóknun. Gjörninga sem aðilarnir kunnu ekki fagleg skil á.
Þegar hlutabréfaverð hrundi í heiminum þá byrjuðu veðköll og fljótt kom í ljós hvernig í pottinn var búið. Blekkingarnar náðu einnig inn á skuldabréfamarkaðinn samanber útgáfa vafasamra skuldabréfavafninga (e. subprime loans) þar sem haldlitlum skuldabréfum var vafið í vöndul innan um traust verðbréf.
Fallið hafa nauðungasáttir þar sem íslensk endurskoðunarfyrirtæki hafa þurft að greiða bætur fyrir að undirrita efnislega ranga ársreikninga. Fjárhagsstaða fjármálafyrirtækja var rangfærð án athugasemda endurskoðenda. Bankarnir reyndust reknir eins og hvert annað spilavíti þar sem núverandi seðlabankastjóri var lykil stjórnandi í einum bankanna.
Til að bæta gráu ofan á svart þá kom vel í ljós hvað það er geipilega mikil áhætta að vera með lítinn sjálfstæðan gjaldmiðil sem alþjóðasamfélagið treystir ekki. Samhliða veðköllum þá leitaði fjármagnið í öryggið sem var að finna á stærstu myntsvæðum heimsins. Krónan tapaði afar stórum hluta af verðgildi sínu og ólögleg lán í erlendri mynt stökkbreyttust. Verðtryggð lán fóru sömu leið enda rauk verðbólga upp í 18 prósent árið 2008 og hélst há árin þar á eftir. Afleiðingarnar fóru vart fram hjá nokkrum landsmanni. Þannig að ótrúverðugleiki krónunnar stigmagnaði fjármálakreppuna. Frelsi til fjármagnsflutninga var því ekki orsök, hvorki hér né annars staðar. Til viðbótar þá brugðust meintir varnargarðar og aðrir fjármálainnviðir samanber Rannsóknarskýrslan.
Davíð og Halldór:
Fastgengisstefna landsins varð gjaldþrota enda leiddi hún af sér falska gengisskráningu, gjaldmiðillinn hrundi.
Ef við förum um áratug fram fyrir fjármálakreppuna á Íslandi þá skók Asíukreppan heiminn árið 1997. Hún átti rætur sínar að rekja til mikillar skuldasöfnunar, græðgi og ótrúverðugra gjaldmiðla. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti að stíga inn með risa innspýtingu til að styðja við myntir Suður Kóreu, Taílands og Indónesíu. Verðbólga var einnig mikil og olli ástandið ókyrrð innanlands. Taíland var nauðbeygt til að taka upp fljótandi gengi vegna skorts á gjaldeyri. Fastgengisstefna landsins varð gjaldþrota enda leiddi hún af sér falska gengisskráningu, gjaldmiðillinn hrundi. Fjármagnsfrelsi orsakaði ekki Asíukreppuna.
Í raun má segja að það sama og átti sér stað í Asíukreppunni hafi endurtekið sig á Íslandi eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ákvað að stefnan væri að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ríkisstjórnin dró engan lærdóm frá Asíu enda töldu óvitrir valdhafar Ísland vera klárasta land í veröldinni sem ekki þyrfti að sækja í reynslubrunn annarra þjóða. Viðhorfið hefur ekki breyst enda fara sömu flokkar með völd í landinu.
Um aldamótin þá sprakk netbólan og hlutabréfaverð tæknifyrirtækja tók mikla dýfu. Það hafði ekkert með fjármagnsfrelsi að gera heldur var þar á ferðinni enn ein græðgisbylgjan, ævintýramennska, óraunsæi og mikil skuldsetning sem fór illa með aðila og markaði. Inn í málið spiluðu lágir vextir í Bandaríkjunum og lækkun skatta á gengishagnað.
Alhæfing Stefáns gengur einnig gegn kenningunni sem liggur að baki evrunni og dollarnum. Evrulöndin og fylkin sem mynda Bandaríkin ákváðu að gefa eigin mynt upp á bátinn til að koma á auknu fjármagnsfrelsi og öryggi. Tilgangurinn var einnig að lækka viðskiptakostnað og síðar að minnka líkurnar á kreppum og gjaldeyrisstríðum. Allt hefur þetta tekist að mestu þó heimurinn sé ekki laus við kreppur vegna ástæðna sem raktar hafa verið.
Gjaldeyrir:
Gjaldeyri var af skornum skammti og ríkti því í raun gjaldeyriskreppa um áratugaskeið.
Alþjóðavæðing eykur heldur ekki hættuna á efnahags- eða fjármálakreppu heldur þvert á móti. Viðskipti milli landa hafa stuðlað að fjölþættingu hagkerfa og þar með aukið stöðugleika þeirra. Lönd hafa nýtt styrkleika sína og bætt sig á veikari sviðum. Í kóvít-19 faraldrinum þá hefur komið vel í ljós að þrátt fyrir áföll í ferðaþjónustu þá hafa aðrar atvinnugreinar dregið efnahagsvagninn. Nægir það að nefna að útflutningur sjávarafurða hélt velli og innlend verslun hefur verið í blóma.
Án alþjóðavæðingar þá byggju lönd eins og Ísland við skömmtunarkerfi, umfangsmikla pólitíska spillingu og langtum minni velmegun. Það þarf ekki að horfa nema aftur til síðustu aldar til að sjá hvernig ástandið annars væri. Í raun var viðvarandi fjármálakreppa á Íslandi á síðustu öld. Sjálfur man ég eftir að hafa þurft að sækja skriflega og með útskýringum um gjaldeyri til að geta farið í framhaldsnám. Gjaldeyri var af skornum skammti og ríkti því í raun gjaldeyriskreppa um áratugaskeið.
Gjaldeyriskreppan sem Ísland upplifði í kjölfar hrunsins árið 2008 er eitthvað sem við ekki viljum upplifa aftur, en er samt raunverulegur möguleiki. Gjaldeyrisvarasjóður landsins mun hrökkva skammt þegar til hennar kemur. Síðast þá var það einmitt alþjóðasamstarf í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem bjargaði því sem bjargað varð hér á landi. Menn mega því ekki vera svona snöggir að gleyma nýliðinni Íslandssögu og tala alþjóðavæðingu niður.
Niðurstöður nokkuð nýlegrar rannsóknar sýnir að lönd sem búa við meira frelsisskipulag er ekki hættara á fjármálakreppu heldur þvert á móti. Niðursveiflurnar eru síðan minni og löndin fljótari að ná sér á strik í samanburði við lönd sem búa við aukna ráðstjórn og allt of íþyngjandi regluverk. Þá skiptir einnig miklu máli að almenn geta og sjálfstæði þeirra sem fara með eftirlit sé til staðar frekar en ofsa strangar reglur.