Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Í þessari grein hér „Kona hefur aldrei verið umboðsmaður Alþingis“ þá sagði ég ykkur frá því að kona hafi aldrei verið skipuð né sett tímabundið í embætti Umboðsmanns Alþingis. Embætti Umboðsmanns Alþingis hóf göngu sína fyrsta janúar 1989 og embættið því starfað í yfir þrjátíu ár. Núna líður senn að því að Alþingi þurfi að skipa nýjan Umboðsmann þar sem Tryggvi Gunnarsson hefur ákveðið að snúa sér að öðru.
Nú ber svo við að eina konan sem hefur gefið kost á sér dregur nafn sitt til baka. Ástæðurnar eru að hún telur að Steingrímur Joð og aðrir nefndarmenn forsætisnefndar þingsins, sem fer fyrir matsferlinu, sé búin að setja svo þröng viðmið að hún eigi ekki möguleika. Eins og ég les sjálfur á milli línanna í yfirlýsingu hennar þá er augljóst að skipa á Kjartan Bjarna Björgvinsson, sem er settur í embættið nú um stundir tímabundið öðru sinni. Náð var í hann sem valdakarl innan úr dómskerfinu. Það gengur gegn eðli og anda embættisins. Kjartan Bjarni var handvalinn, líkast til eftir samráð við Tryggva, af Steingrími Joð.
Þegar Kjartan Bjarni var settur öðru sinni í embættið fyrir fáeinum mánuðum þá fór engin efnisleg umræða fram í forsætisnefnd. Hann fékk Norður Kóreska kosningu. Forsætisnefnd Alþingis er skipuð sjö alþingismönnum. Þar af er aðeins ein kona. Lauslega reiknað þá er meðalaldur karlanna 60 ár, sem sýna í verki stuttu fyrir kosningar hvað þeir hafa lítið álit á konum. Hér eru nöfn nefndarmanna:
- Steingrímur J. Sigfússon, forseti
- Guðjón S. Brjánsson
- Brynjar Níelsson
- Þorsteinn Sæmundsson
- Willum Þór Þórsson
- Björn Leví Gunnarsson
- Bryndís Haraldsdóttir