Heima er bezt

Steingrímur hótaði sonum mínum

By Miðjan

November 25, 2019

Steingrímur Njálsson hataði mig. Okkar fyrstu samskipti voru þegar ég handtók hann borgaralegri handtöku á Hótel Búðum, 1984 eða 1985. Síðar varð ég blaðamaður og skrifaði margt um Steingrím og ömurlega glæpi hans.

Hann gaf út „dauðalista“ þar sem ég var númer tvö á listanum.

Tíminn leið og hann herti sóknina gegn mér. Hringdi oftsinnis og hótaði einu og öðru. Meira um það síðar.

Nú að þeirri hótun sem var allra verst og truflaði mig og mitt fólk verulega. Eitt sinn þegar hann hringdi til mín sagði nöfn drengjanna minna og hann vissi í hvaða skóla þeir voru og hann vissi stundatöflurnar þeirra. Hann sagðist ætla að hefna sín á mér með því að skaða syni mína.

Lögreglan var látin vita og í einhvern tíma, man ekki hversu langan, var lögregluvakt á þeim tíma sem strákarnir fóru í skólann og þegar þeir fóru heim úr skólanum. Í talsverðan tíma urðu þeir, sem og við foreldrarnir að vera á varðbergi. Ungir drengir þurftu lögreglufylgd úr og í skóla. Þetta var ekki góður tími.

Þessi hótun hafði mikil áhrif. Fleiri alvarlegar fylgdu á eftir.