- Advertisement -

Steingrímur J sýnir sitt rétta andlit að lokum

Sjóndeildarhringur Steingríms J endurspeglar hversu samgróinn hann sjálfur er valdakerfum landsins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Umboðsmaður Alþingis var tekinn yfir af dómstólum landsins nýverið og hrundi þá æðsti varnarveggur um réttindi landsmanna gagnvart opinberu valdi, gegn valdníðslu og ofríki. Málið er að kjörinn umboðsmaður Tryggvi Gunnarsson hefur nú fengið langt leyfi frá störfum til að semja námsefni tengt stjórnsýslulögum. Á ferðinni er óþarfi enda ýmsir góðir aðilar gert efninu góð skil eins og til dæmis Páll Hreinsson, Róbert Spanó, Trausti Fannar Valsson, Hafsteinn Dan Kristjánsson og Ólafur Jóhannesson.

Leyfi Tryggva kallaði á að staðgengill var settur í embætti umboðsmanns núna í nóvember. Lögum samkvæmt þá kemur það í hlut forseta Alþingis og forsætisnefndar að velja staðgengilinn. Ekkert mats- eða umsóknarferli fór í gang heldur var það afar fámennur hópur þingmanna sem valdi aðilann. Áreiðanlegar heimildir herma  að Steingrímur J forseti Alþingis hafi borið upp tillögu að staðgengli og hún hafi verið samþykkt án umræðu. Þannig að einungis 11 prósent þingmanna kusu settan umboðsmann eftir tillögu forsetans. Kjörinn umboðsmaður er aftur á móti kosinn af öllum þingmönnum og er þannig með skýrt umboð landsmanna. Þó settur umboðsmaður sé löglega settur er umboð hans afar óljóst enda valinn af einum manni þó aðrir nefndarmenn ljái honum atkvæði sitt umhugsunarlaust. Af þessum ástæðum og þegar hugleitt er úr hvaða umhverfi settur umboðsmaður kemur þá verða allir úrskurðir hans að teljast ómarktækir.

Á ferðinni er dómgreindarbrestur af áður óþekktri stærðargráður.

Til að leysa Tryggva af þá fannst Steingrími  J nærtækast að sækja valdamann innan úr dómskerfinu til að fylla í skarð Tryggva. Og ekki var einhver óbreyttur valdaherra fyrir valinu heldur sjálfur formaður Dómarafélags Íslands og héraðsdómarinn Kjartan Bjarni Björgvinsson. Sjóndeildarhringur Steingríms J endurspeglar hversu samgróinn hann sjálfur er valdakerfum landsins og takmarkaðan skilning hans á berskjaldaðri stöðu landsmanna gagnvart opinberu valdi. Verður ráðslagið að teljast ganga gegn eðli embættis Umboðsmanns Alþingis.

Þó eftirlit með dómstólum falli ekki undir hlutverk umboðsmanns þá eru það táknræn skilaboð að sækja aðila innan úr dómskerfinu til að leysa kjörinn umboðsmann af. Kjartan er valdakarl par excellence og ýmsir landsmenn örugglega ósáttir við dómarastörf hans. Það er bara eitthvað verulega bogið við ráðagerðina. Á ferðinni er dómgreindarbrestur af áður óþekktri stærðargráður og er Steingrímur J þó þekktur fyrir að ferðast með himnaskautum í þeim efnum. Staða landsmanna gagnvart opinberu valdi hefur veikst í forsetatíð þessa manns sem sagst hefur bera hag alþýðunnar fyrir brjósti á yfir meira en 30 ára þingmannaferli, sem senn er á enda.

Kjartan sýndi einnig mikið dómgreindarleysi að þiggja setningu í embættið, en það hefur löngum verið sagt að vald sækist eftir auknu valdi. Umboðsmanni Alþingis hefur verið breytt í einkaklúbb valdhafa á sama tíma og honum er ætlað að vera málsvari landsmanna gegn opinberri valdníðslu.

…munstrað viðhorf og valdhroka valdastéttarinnar kirfilega inn í erfðamengi Umboðsmanns Alþingis…

Það er vel þekkt að Héraðsdómur Reykjavíkur leikur gott samspil við ákæruvaldið og alveg sérstaklega gagnvart þeim sem ekki eru innvígðir í réttu klíkuna eða af réttum ættum. Meðal ýmissa lögmanna er sú skoðun uppi  að tiltekinn dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur dæmi svo til aldrei gegn málflutningi ákæruvaldsins, sama hvað. Man ég vel þegar ég las viðtal við ríkissaksóknara sem viðurkenndi að mál væru ekki alltaf nægilega rannsökuð. Í þessu samhengi þá þurfti til dæmis dóm fyrir Hæstarétti til að snúa við tilteknum dómi hjá þessum ónefnda dómara í máli þar sem ákæruvaldið byggði mál sitt upp á hreinum lygum lögreglumanna, alls órannsökuðum atvikum og engum sönnunargögnum. Málið var uppspuni frá rótum. Treyst var á að umræddur dómari og vinur ákæruvaldsins myndi venju samkvæmt dæma valdinu í vil.

Valdakerfi landsins eru samansaumuð eins og hvert annað bútasaumsteppi. Valdaskil eru horfin þó þau séu til staðar að nafninu til og flaggað á tyllidögum. Þegar Kjartan Bjarni Björgvinsson hefur lokið sér af hjá umboðsmanni og munstrað viðhorf og valdhroka valdastéttarinnar kirfilega inn í erfðamengi Umboðsmanns Alþingis þá röltir hann yfir í dómshúsið við Lækjartorg eins og refur á leið í greni sitt eftir að hafa lokið sér af í nærliggjandi hænsnabúi.  Þetta er allt hið öfugsnúnasta og minnir á þegar sami aðili rannsakaði og ákærði á Íslandi. Þurfti þá ekkert minna en atbeina Mannréttindadómstóls Evrópu til að kerfinu væri breytt. Valdastétt landsins hafði þar til ekki fundið neitt athugavert við það að sami aðili sitji allt í kringum borðið og helst ofan á því líka.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: