- Advertisement -

Stjórn Landspítalans endurskoðar greiðslur til starfsmanna vegna Covid

Það var ekki létt verk að komast að niðurstöðu um það hvernig yrði að þessu staðið.

„Í vikunni var greidd umbun til starfsfólks heilbrigðisstofnana vegna sérstaks álags sem Covid-19 skapaði. Ég fjallaði um útfærslu og fyrirkomulag þessa í pistli 19. júní síðastliðinn og þar er einnig að finna nánari útskýringar á þeirri aðferðarfræði sem beitt var,“ skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans á vef sjúkrahússins.

Óánægja er mikil þar sem aukagreiðslur vegna þátttöku starfsfólks í baráttunni við Covid-19 er afar lágar hjá sumu fólki sem tók þátt. Allt niður í eitt þúsund krónur. Stjórn spítalans var falið að reikna út aukagreiðslur og skipta þeim milli starfsfólksins.

„Við áttum samráð við stjórnendur hér á Landspítala og einnig á öðrum heilbrigðisstofnunum við útfærsluna. Það var ekki létt verk að komast að niðurstöðu um það hvernig yrði að þessu staðið. Allt orkar nefnilega tvímælis þá gert er,“ segir forstjórinn vekur athygli á hversu erfitt honum þykir hlutverk sitt og annarra stjórnenda.

Mér bárust áhrifarík bréf, t.d. dagbókarbrot hjúkrunarfræðings.

Margt fólk hefur haft samband við Pál forstjóra.

„Mig langar til að þakka þeim sem hafa tekið sér tíma til að skrifa mér. Það er mér fullljóst að þið hafið gefið ykkur 100% í þessa baráttu og ég skynja að vonbrigði hjá sumum vegna umbunarinnar snúast ekki endilega um upphæðina sem var greidd út heldur frekar um að hún hafi ekki líka verið 100%. Það skil ég vel.“

Hann tekur nokkur dæmi:

„Mér bárust áhrifarík bréf, t.d. dagbókarbrot hjúkrunarfræðings úr kófinu og afar fallegt og innblásið bréf frá ættingja annars hjúkrunarfræðings sem lengi hefur starfað hjá okkur. Það minnir mig á fórnir fjölskyldna okkar sem jafnvel sáu ekki fólkið sitt nema í mýflugumynd á þessum tíma. Þetta verður aldrei fullþakkað eða umbunað svo allir verði sáttir.“

Páll lofar nokkurs konar yfirbót:

„Þær athugasemdir og ábendingar sem mér hafa borist urðu til þess að framkvæmdastjórn ákvað síðastliðinn þriðjudag að kalla formlega eftir athugasemdum og gefa starfsfólki rúman tíma til að skila þeim. Við munum svo yfirfara málið nú í sumar og gera viðeigandi ráðstafanir í kjölfarið, eftir því sem unnt er.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: