- Advertisement -

Stjórna Samtök atvinnulífsins líka Seðlabanka Íslands?

Bankinn er kominn út í bullandi vinnumarkaðs- og fyrirtækja pólitík.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Eftir að Ásgeir Jónsson varð seðlabankastjóri þá hafa einkennilegar breytingar átt sér stað innan bankans. Furður sem ég hef bara aldrei áður séð hjá vestrænum seðlabanka. Halda mætti að búið sé að einkavæða stofnunina og færa í hendurnar á Samtökum atvinnulífsins (SA). Bankinn er kominn út í bullandi vinnumarkaðs- og fyrirtækja pólitík. Samkvæmt lögum þá er bankinn sjálfstæð ríkisstofnun með skýrt afmarkað hlutverk: stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og öruggri fjármálastarfsemi. Æðstu starfsmenn bankans hafa ítrekað farið út fyrir eigið verksvið og lögbundið hlutverk bankans.  Skoðum fáein dæmi:

·        Í maí síðastliðnum þá stóð seðlabankinn að viðhorfskönnun í samstarfi við SA. Félagsmenn voru spurðir hvaða þættir hefðu mest áhrif til verðhækkunar. Samtökin hafa síðan nýtt  niðurstöðurnar í ómálefnalegan áróður gegn stærstu launþegahreyfingu landsins, ASÍ. Hér stígur bankinn með afgerandi hætti inn í reiptogi milli aðila á vinnumarkaði um leið og stutt er við áróður annars málsaðilans. Viðhorfskönnun meðal félagsmanna sérhagsmunasamtaka fellur utan við lögbundið verksvið bankans. Staðfestingu á þessu nána sambandi má sjá neðst á mynd í þessari grein hér Oops, féllu á prófinu“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

 Fjármálaeftirlit bankans hefur ítrekað tekið afstöðu með SA.

Eitt af hlutverkum Seðlabankans er að leggja mat á vænta verðbólgu og slíkt mat verður að byggja á eigin sjálfstæði og hlutleysi gagnvart öllum sem spurðir eru. Mikilvægasta atriðið í slíku mati eru væntingar neytenda um þróun verðlags. Einnig er mikilvægt að spyrja stjórnendur vítt og breytt um hagkerfið (líka hjá hinu opinbera) um verðvæntingar, en ekki hvaða þættir spili þar inn í. Slík fyrirspurn verður að vera án aðkomu hlutdrægra sérhagsmunasamtaka eins og SA. Öll svör verða síðan að vera órekjanleg og sami aðilinn ekki endilega spurður ár eftir ár. Þannig er komið í veg fyrir að hagsmunasamtök geti mótað sameiginlegt svar til að ota sínum tota.

·        Fjármálaeftirlit bankans hefur ítrekað tekið afstöðu með SA og undirfélögum þess í deilum við Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) vegna málefna Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hlutdræg afskiptasemi eftirlitsins af deilum frjálsra félagasamtaka, nánast eftir pöntun frá SA, er ólögmæt. Nærtækt dæmi er þegar lífeyrissjóðurinn hækkaði vexti á tilteknum lánaflokki á síðasta ári. VR andmælti, taldi ákvörðunina ólögmæta, og ákvað að skipta stjórnarmönnum sem stéttarfélagið tilnefnir í stjórn sjóðsins út. VR varð fyrir meiriháttar árás, og alveg sérstaklega Ragnar Þór Ingólfsson, frá fulltrúum atvinnurekenda. Þar fór fremst Guðrún Hafsteinsdóttir forstjóri Kjörís. Hún er jafnframt þáverandi formaður Samtaka iðnaðarins (undirfélag SA) og er núverandi varaformaður stjórnar lífeyrissjóðsins. Einnig hafði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdarstjóri SA sig mikið í frammi í fjölmiðlum. Til viðbótar þessum tveimur einstaklingum þá hafði Þorsteinn Víglundsson forveri Benjamíns og fyrrverandi þingmaður Viðreisnar þörf til að taka þátt í árásunum. Ef ég man rétt þá ritaði Benjamín bréf til Unnar Gunnarsdóttur varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlitsins og tók eftirlitið fljótt og vel við sér og tók undir gagnrýni SA.

H efur Ásgeir aldrei haft neitt að segja um lögbrot fulltrúa SA.

Í árslok 2019 gaf Neytendastofa út ákvörðun númer 59/2019 þar sem umrædd vaxtabreyting var úrskurðuð ólögmæt. Braut vaxtabreytingin gegn lögum um neytendalán og þurfti sjóðurinn að endurgreiða oftekna vexti. Í kjölfarið fór stjórnarbreyting VR í gegn, en Guðrún Hafsteinsdóttir hefur enn ekki axlað ábyrgð á sinni hegðun. Seðlabankinn hefur jafnframt ekki gert athugasemd við setu Guðrúnar og annara fulltrúa atvinnurekenda í stjórn sjóðsins þrátt fyrir lögbrotið. Það vekur sérstaka athygli út frá hæfnikröfum sem eftirlitið setur varðandi aðila sem taka sæti í stjórn lífeyrissjóðs. Þrátt fyrir miklar tjáningar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á síðum Fréttablaðsins um almenna framgöngu stjórnar VR þá hefur hann aldrei haft neitt að segja um lögbrot fulltrúa SA. Það vekur sérstaka athygli.

·        Náið talsamband Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Fréttablaðsins hefur einnig vakið athygli. Ráðandi hluthafi blaðsins er umsvifamikill fjárfestir hér á landi og er í aðstöðu til að komast yfir innherja upplýsingar úr óbirtu viðtali við Ásgeir og nýta í hagnaðarskyni. Hann gæti þannig notið upplýsingaforskots. Um þetta fjalla ég sérstaklega í þessari grein hér Fréttablaðið, LV og seðlabankastjóri.

·        Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri mætti í viðtal hjá útvarpsstöð Bylgjunnar og sagði orðrétt „Það er hinn kaldi veruleiki og þá þarf svolítið að velta fyrir sér hvaða fyrirtæki voru lífvænleg áður en Kóvíd skall á og þeim verður kannski hjálpað svolítið í gegnum þennan skafl. En hinum fyrirtækjunum, þó það sé hart að segja það , að þá náttúrulega einhver fyrirtæki sem verða að fara í þrot“. Hér er Gunnar farinn að tjá sig um málefni einstakra viðskiptavina banka landsins um hvernig þeir eigi að haga sér gagnvart sínum viðskiptavinum. Tjáningin fellur utan við verksvið Seðlabankans og er í raun pólitísk yfirlýsing um að fella eigi sum ógjaldfær fyrirtæki umfram önnur. Lánarar landsins búa yfir eigin getu til að reka sig dag frá degi og þurfa ekki á ólögmætri afskiptasemi að halda frá Seðlabankanum.

Með samráðinu þá truflaði bankinn gangverk markaðarins með mögulega vondum afleiðingum.

·        Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri stóð tvívegis á þessu ári í ráðabruggi með tilteknum einkaaðilum á markaði um að halda að sér höndum við fjárfestingar. Með samráðinu þá truflaði bankinn gangverk markaðarins með mögulega vondum afleiðingum fyrir aðila sem voru utan við samráðið. Samráðið er ólögmætt og fellur utan við verksvið bankans. Bankinn hafði möguleika á öðru almennu úrræði til að ná settu markmiði. Bankinn kaus að fara á svig við lög. Um þetta fjalla ég nánar í þessari grein hér Seðlabankastjóri segist saklaus af ráðabruggi og innherjaupplýsingum.

·        Í nýlegu Morgunblaðsviðtali agiteraði Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri fyrir verðtryggðum lánum umfram óverðtryggð. Sagði þau almennt vera með lægri greiðslubyrði. Það er rangt eins og ég fjalla um í þessari grein hér „Getur Seðlabankinn útskýrt eigin þvætting?“. Burt séð frá vitlausum skilaboðum frá bankanum þá er það utan við verksvið hans að tjá skoðanir um hvaða lánaform heimili landsins eigi að nýta sér umfram önnur. Vitað er að fjármagnseigendur vilja belti og axlabönd og þá er voða gott að geta lánað allt verðtryggt, en það er slæmt fyrir neytendur. Það er hlutverk viðskiptabanka, sjóða og neytendasamtakanna að veita ráðgjöfina.

Tjáningar vestrænna seðlabanka er með þeim hætti að þær eru settar fram með fyrir fram tímasettum yfirlýsingum eða í gegnum streymda fundi, nema hvoru tveggja sé. Sú tjáning er eingöngu um stöðu viðkomandi hagkerfis almennt ásamt útskýringum á einstökum ákvörðunum bankans. Öll ofangreind atriði eru til þess fallin að draga úr trúverðugleika, sem er mikilvægasta eign sérhvers seðlabanka. Ég tel að umræddir stjórar geti ekki setið áfram ef ætlunin er að standa vörðu um trúverðugleika og sjálfstæði bankans. Bankinn hefur látið SA og undirfélög þess draga sig út í alls konar hanaat og sérhagsmunagæslu.

Í þessu samhengi þá er ágætt að rifja upp að seðlabankastjóri er fyrrverandi stjórnandi hjá spilavítinu Kaupþingi þar sem það þótti í lagi að brjóta lög og reglur. Undir hans stjórn þá er Seðlabankinn að sækja í félagsskap sem hann þekkir sjálfur svo vel.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: